143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[16:06]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni að hæstv. sjávarútvegsráðherra talar um að nauðsynlegt sé að lækka veiðigjaldið af því að litlu fyrirtækin spjari sig illa og að það geti haft áhrif á sjávarbyggðir þegar smærri fyrirtæki leggi upp laupana. Þess vegna verðum við að gefa afslátt hjá öllum, líka stóru fyrirtækjunum. Maður fær á tilfinninguna að verið sé að réttlæta enn frekari afslátt. Útgerðin hlýtur náttúrlega að vera ánægð með að ríkisstjórnin er að lækka veiðigjaldið í áföngum og hefur væntanlega skilning á því að ríkisstjórnin hafi ekki getað tekið þetta allt í einu skrefi í fyrra, hún taki þá annað skref núna og jafnvel annað skref þau ár sem eftir eru af kjörtímabilinu.

Það verða alltaf átök um það hvaða gjald er réttlátt og alltaf er hægt að benda á einhver fyrirtæki sem eru í vandræðum og grípa til hræðsluáróðurs um að ef fyrirtæki færi á hausinn fari byggðirnar illa. Það gladdi mitt litla hjarta þegar hv. þingmaður nefndi að hugsanlega ættum við að fara markaðsleiðina. Mig langar til að biðja hann að ræða það aðeins við okkur hvort hann sér einhver vandkvæði, einhver lagaleg vandkvæði, eitthvað í umhverfinu sem setur stein í götu þess að mögulegt sé að fara uppboðsleiðina. Í mínum huga er það eina réttláta leiðin, að láta markaðinn og útgerðina sjálfa ráða hvað þau borga (Forseti hringir.) og láta þau bítast um það.