143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[17:05]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það sýnist örugglega sitt hverjum um það hversu vel staðið var að þessum málum á síðasta kjörtímabili. Ég get ekki tekið undir það með hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur að málið hafi verið vel undirbyggt og vandað til verka. Það kemur kannski best fram í þeim gögnum sem við unnum í vetur hversu óundirbúið málið var og vanreifað og vanunnið og auðvitað öllum til vansa sem að því stóðu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann af því að hún talar um að við höfum lækkað veiðigjöldin mikið í fyrra og ekki komið til móts við lítil og meðalstór fyrirtæki. Var það ekki nákvæmlega það sem var gert í fyrrasumar þegar við lækkuðum veiðigjöld á lítil og meðalstór fyrirtæki, sérstaklega í bolfiski, en hækkuðum veiðigjöld á stórútgerðirnar, á uppsjávarfyrirtækin? Vorum við ekki nákvæmlega að mæta þeirri kröfu að leiðrétta hversu vitlaust var gefið í öllum þessum góða undirbúningi og góðu málsmeðferð sem hún vitnaði til áðan hjá fyrri ríkisstjórn? Ég vil fá komment á það. Telur hún þar með að 18 milljarðar í veiðigjöld, t.d. á þessu ári, væri eðlilegt miðað við þá afkomurýrnun sem var í greininni á árinu 2013 og stefnir í 2014?

Alvarlegast í ræðu hv. þingmanns, virðulegi forseti, finnst mér þó ásakanir hennar í garð útgerðarfyrirtækja um að þau stundi stórkostlegt skattsvindl. Þetta tel ég vera algjörlega óboðlega umræðu á hinu háa Alþingi og þarf að gera alvarlegar athugasemdir við. Ég krefst þess að í svari sínu færi hv. þingmaður örstutt rök fyrir því hvað hún eigi við þegar hún sakar fyrirtæki í sjávarútvegi um að stunda stórfelld skattundanskot, koma hagnaði fyrir annars staðar og fela meðal annars í dótturfyrirtækjum erlendis. Það krefst einhverra skýringa, virðulegi forseti, þegar þingmenn taka svona til orða á hinu háa Alþingi.