143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[17:09]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður svaraði ekki spurningu minni um það hvort 18 milljarðar væru eðlileg veiðigjöld að hennar mati miðað við þær afkomutölur sem við höfum og erum að sjá. Ég hefði gjarnan viljað fá svar við því.

Ég tók eftir því í ræðu hv. þingmanns að hún talaði um að hún væri ósátt við framsalið í kerfinu og efaðist um hagræðinguna sem hefur orðið af framsalinu. Þetta er alveg ný útgáfa. Þetta var auðvitað ákvörðun sem Alþýðubandalagið, forveri Vinstri grænna, tók þátt í á sínum tíma. Ég ætlaði bara að heyra frá henni örstutt um hvort það stæðist.

Hún talaði einnig í ræðu sinni um að það hefðu verið 80 milljarðar í hagnað eftir veiðigjöld. Ég ætla að biðja hana að rökstyðja það vegna þess að það stenst enga skoðun. Þetta er eitt af því sem ég hef talað fyrir í þinginu, að það sé ákaflega mikilvægt þegar við sem eigum að hafa vit á því sem við erum að tala um förum með rétt mál, höllum ekki réttu máli jafnvel vísvitandi til þess að blekkja almenning sem á kannski erfitt með að setja sig jafn mikið inn í málin og ætlast er til að við gerum. Það vita allir að EBITDA-framlegð fyrirtækjanna var um 80 milljarðar 2012, besta ár í íslenskum sjávarútvegi, en enginn hagnaður. Skattstofninn sem var reiknað út frá var í kringum 47 milljarðar. Þetta eru tölurnar sem við eigum auðvitað að tala um. Þar er búið að draga frá liði sem er eðlilegt að draga frá.

Aðeins að skattamálinu aftur, virðulegi forseti, vegna þess að það er mjög alvarlegt. Hún rekur hér einhverja sögu um að ríkisskattstjóri hafi verið í vinnu á síðasta ári við að upplýsa skattsvik og þau séu áætluð um 15 milljarðar í landinu. Getur hún þá nefnt einhver dæmi um það í þessari vinnu sem styðja hennar málflutning um að um sé að ræða stórkostlegt skattundanskot í sjávarútvegi þar sem menn koma hagnaði sínum fyrir annars staðar, m.a. í dótturfélögum erlendis? Var eitthvað í þessum rannsóknum ríkisskattstjóra (Forseti hringir.) eða veit hv. þingmaður um einhver dæmi sem hún getur nefnt til að rökstyðja þessar alvarlegu ásakanir í garð greinarinnar? Er þetta allt saman gert, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) í hinum pólitíska hráskinnaleik sem allt of mikið einkennir umræðuna um (Forseti hringir.) íslenskan sjávarútveg? Er ekki kominn (Forseti hringir.) tími til þess að við höldum hér málefnalega umræðu um þetta mál?