143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[17:12]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður talar um skattsvik. Ég tala bara á almennum nótum. Það var ekki hægt að greina veiðigjaldið sérstaklega vegna persónusjónarmiða, persónuverndar. Það var ekki hægt að greina hvar mestur afsláttur hefur verið á landinu af veiðigjöldum vegna þeirra sjónarmiða. Ég er auðvitað ekki stödd hér til þess að gera grein fyrir skattsvikum einstakra fyrirtækja, en ég hef fullan rétt til þess að ræða um að því miður hafa undanskot á skatti verið í landinu, jafnt hjá einstaklingum sem fyrirtækjum, og ríkisskattstjóri hefur gengið fremstur í flokki til að berjast gegn því ásamt aðilum vinnumarkaðarins. Við skulum bara hafa það eins og það er og vera ekki með svona útúrsnúning.

Varðandi veiðigjöldin, hvort rétt væri að taka 18 milljarða í veiðigjöld á ári, þá hefur það komið fram í umræðunni hérna að þessi viðbótarlækkun veiðigjalda þýðir enn meira tekjutap fyrir ríkissjóð. Samkvæmt kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins eru það 3,2 milljarðar árið 2013, 6,4 plús 1 milljarður 2014 og 6,4 plús 1,8 2015. Þetta gerir 18,8 milljarða á þremur árum. Þetta er tekjutap á þremur árum frá því sem lagt var upp með.

Varðandi framsalið og fortíðina og Alþýðubandalagið. Mér finnst hv. þingmaður vera kominn í ansi mikil rökþrot þegar hann fer svo langt aftur í tímann að við eigum að fara að tala um Alþýðubandalagið 1990. (Forseti hringir.) Ég segi bara að hv. þingmaður, sem er búinn að eiga aðild og hans flokkur að ríkisstjórn mest allan (Forseti hringir.) tímann frá þessum árum frá 1990, (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) hefði haft möguleika til þess að breyta því ef hann hefði haft nokkurn (Forseti hringir.) áhuga á því. Ég hef aldrei verið hlynnt því framsali sem hefur verið í (Forseti hringir.) gildi.