143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[17:21]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna, og skammast mín ekkert fyrir það, að ég hef nú ekki verið hlynnt markaðslausnum yfir höfuð. En eftir því hvernig þetta blessaða fiskveiðistjórnarkerfi þróast og hve afgangurinn af auðlindinni er lágt metinn, þá fer maður að hugsa sinn gang í því sambandi, hvort ekki verði með einhverjum hætti að skoða markaðslega tengingu til að fá eitthvert raunvirði fyrir þetta. Því eins og sjávarútvegurinn er í dag er hann rekinn á mjög hörðum viðskiptalegum sjónarmiðum. Allur sjávarútvegurinn, verslun milli aðila og öll viðskipti með auðlindina innbyrðis er rekinn á hörðum markaðslegum sjónarmiðum, svo að auðvitað má segja að þetta sé slitið úr samhengi.

Varðandi aðganginn að auðlindinni og það sem ríkið og við samfélagið eigum að fá í okkar hlut, það er slitið úr samhengi. Ríkisstjórnum hvers tíma er í lófa lagið að hafa þetta eftir sínum hentugleika. Þegar hægri stjórnir koma er það fyrsta verk þeirra að létta sköttum af auðvaldinu í landinu, stórútgerðinni, og leggja á komugjöld á sjúkrahús og hækka álögur á námsmenn eins og við þekkjum. (Gripið fram í: Nákvæmlega.)

Ég hef talað fyrir breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu sjálfu, grunninum á því. Ég held áfram að berjast fyrir því að breyta sjálfu kerfinu, gera það félagslegra. Eins og ég er þenkjandi, sem félagslega sinnuð manneskja og jafnaðarmanneskja í eðli mínu, er mér meinilla við að fara að prjóna (Forseti hringir.) markaðslausnir ofan á handónýtt kerfi.