143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[17:42]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er alltaf hressilegt þegar menn koma svona og fara að ritdæma ræðurnar manns. Verð ég að þakka fyrir það.

Ég heyri að þingmaðurinn vill ekki markaðslausn í atvinnugreinum. Það sem ég kom inn á var að það væri eðlilegt að auðlindin, aðgangur að sérleyfunum, væri boðin upp á markaði. Síðan sagði ég jafnframt, og þannig virkar það nefnilega þegar markaðurinn er að störfum, að við mundum búa til leikreglur. Það er okkar hlutverk. Ég nefndi jafnframt að það gætu verið alls kyns hliðarmarkmið sem við vildum hafa, að tryggja samkeppni á markaðnum er að sjálfsögðu ekki hliðarmarkmið og þar af leiðandi getum við smíðað reglur sem eru þannig úr garði gerðar að við takmörkum það magn sem hver og einn aðili getur haft aðgang að.

Síðan talar hv. þingmaður um að fyrirtæki séu að leggja upp laupana. Nú þekki ég ekki nægilega vel nýjustu tölur um stöðu allra sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi. En hvers konar fyrirtæki eru þetta? Eru það veiðigjöldin sem eru að fara með þau eða er ekki eðlilegt líka að þau fyrirtæki sem kannski hafa ekki góða rekstrarsögu leggi upp laupana í sjávarútvegi eins og í öðrum atvinnugreinum?