143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[17:51]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég gekk svo sem ekki út frá því að mikill ágreiningur væri milli okkar, mín og hv. þingmanns, í þessum efnum. Ég þakka henni fyrir svarið. Af því að hún nefnir hér jarðhitaauðlindina og hlunnindin sem af því eru á Íslandi að hafa aðgang að heitu vatni, til húshitunar, í sundlaugar og kyndingu stórra mannvirkja, þá er það mjög áhugavert inn í þetta samhengi. Útreikningar sýna að þar er um stærstu einstöku auðlindarentu þjóðarinnar að ræða sem reikna má upp á jafnvel um 40 milljarða á ári, sem eru hlunnindin í því að hafa aðgang að þessum ódýra orkugjafa. Við tökum rentuna til okkar beint sem notendur í gegnum lágt verð. Við getum gert það af því að fyrirtækin sem hafa réttindin og sjá um nýtinguna eru opinber, það eru veitur í eigu opinberra aðila, ríkis og sveitarfélaga. Það er einföld og góð leið.

En vandinn í sjávarútveginum er hins vegar sá að (Forseti hringir.) við notum markaðinn til að annast um nýtinguna fyrir okkur. Vandinn er ekki að markmið laganna sé ekki í raun og veru í lagi, við viljum vera með hagkvæman sjávarútveg, treysta atvinnu og byggð. Vandinn er sá að í reynd, í framkvæmd, gerist það ekki.