143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[17:53]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur. Það var náttúrlega þannig að í þeirri ríkisstjórn sem hann sat í og ég studdi var mörkuð mjög metnaðarfull auðlindastefna. Þegar við ræðum um auðlindirnar er það hlutverk okkar hér að tryggja að nýting þeirra og mögulegur arður af nýtingu þeirra gagnist landsmönnum sem best. Það er sú kúnst sem við fáumst við í stjórnmálum að búa til kerfi sem gagnast mismunandi markmiðum. Við viljum búa til kerfi í kringum fiskveiðiauðlindina sem skapar góð rekstrarskilyrði fyrir öflug sjávarútvegsfyrirtæki. Við viljum að sjávarútvegur sé lifandi í byggðum landsins og við viljum að sameiginlegur arður (Forseti hringir.) af þessari auðlind gagnist landsmönnum sem best.