143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[18:01]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað ekki gott að hlusta á málflutning sumra hv. þingmanna sem gefur vísbendingar um að menn ætli að halda áfram þeim skotgrafahernaði sem allt of lengi hefur einkennt umræðu um íslenskan sjávarútveg. Sem betur fer verður maður þó var við það hjá ákveðnum þingmönnum minni hlutans að þeir vilja nálgast þetta af einhverri skynsemi og reyna að færa umræðuna upp á annað plan en hún hefur verið á.

Það er kannski við hæfi að fara í örstuttu máli yfir sögu kvótakerfis okkar, hvernig það kom til. Við vorum auðvitað að ofnýta þessa auðlind og það stefndi í algert óefni. Árið 1984 binda menn þetta í aflaheimildir og þeir nota til þess þá aðferð að skipta aflaheimildum upp á milli útgerða og skipa miðað við veiðireynslu síðustu þriggja ára þar á undan. Heimildir manna voru strax skertar um 20% á fyrsta ári þannig að það var verið að skerða mjög atvinnuréttindi þeirra sem höfðu verið í greininni, en við urðum að grípa til einhverra aðgerða. Síðan var framsalið sett á að frumkvæði þeirrar ríkisstjórnar sem þá var í landinu, sem var m.a. skipuð Alþýðubandalaginu og Alþýðuflokknum. (Gripið fram í: Framsóknarflokknum.) Sennilega var það eitt besta skrefið sem stigið hefur verið fyrir íslenskan sjávarútveg að koma þessu á, þó að minn flokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, hafi greitt á þeim tíma atkvæði gegn frumvarpinu, reyndar ekki beint út af framsalinu heldur af öðrum ástæðum. Þetta hefur leitt til þess að þær útgerðir sem fengu á sínum tíma úthlutað kannski 1 þús. tonnum eru í dag með á milli 400–500 tonn, nær 500 tonnum, af úthlutuðum heimildum á sínum tíma. Slíkar hafa skerðingarnar verið í kerfinu og breytingarnar sem hafa orðið á þessum árum. Það er talið að yfir 90% af aflaheimildum í dag hafi gengið kaupum og sölum. Það fólk sem í greininni hefur starfað við þessar aðstæður hefur ekkert gert annað en fylgja þeim leikreglum sem hafa verið settar hér á þingi þverpólitískt og sem fylgt hefur verið eftir.

Við verðum að gera okkur grein fyrir mikilvægi öflugs sjávarútvegs í landinu, hvað hér er um að ræða. Þótt við séum í dag komin með að mörgu leyti fleiri styrkar stoðir undir samfélag okkar en áður, þar sem gjaldeyrisöflun annarra atvinnugreina eins og orkufreks iðnaðar og ferðaþjónustu er orðin mikilvæg, kemur ekkert í staðinn fyrir íslenskan sjávarútveg þegar um er að tefla afleidd störf og verðmætasköpun á öðrum vettvangi tengt greininni. Við eigum orðið alþjóðleg fyrirtæki á þessu sviði sem hafa haslað sér völl með sína tækni og þekkingu sem er unnin fyrst og fremst að frumkvæði og í samstarfi við metnaðarfullan íslenskan sjávarútveg.

Veiðigjöld hafa verið til umræðu á annan tug ára og hafa verið lögð á og enn deilum við um þau. Hugmyndin var sú að greitt yrði eitthvert gjald sem stæði undir þjónustugreinunum við sjávarútveginn og það væri eðlilegt og hóflegt gjald fyrir aðgang að þessari auðlind. Hugmyndafræðin í sjálfu sér er ágæt en þetta má ekki verða íþyngjandi skattlagning. Það er enginn flokkur sem talar fyrir því. Það er fráleitur málflutningur sem hefur komið hér fram hjá einum eða tveimur hv. þingmönnum í dag að þessi skattlagning eigi að taka mið af þörfum ríkissjóðs en ekki af áhrifunum á greinina. Þetta sagði hv. þingmaður Vinstri grænna í dag að væri þeirra stefna. Við viljum taka mið af þörfum ríkissjóðs.

Ég fullyrði það að hin óábyrga umræða sem við verðum að hluta til vitni að í dag enn eina ferðina er oft í pólitískum tilgangi. Það hefur verið talið heppilegt af ákveðnum flokkum, sérstaklega vinstri flokkunum, að gera mikinn ágreining úr fiskveiðistjórnarkerfinu og reyna að gera það eins tortryggilegt og mögulegt er. Misvísandi og villandi upplýsingar eru settar fram í umræðunni og talað um auðjöfra og útgerðarkónga o.s.frv. Það er talað mjög niðrandi til greinarinnar þótt við vitum að í landinu er þetta einfaldlega þannig að í sjávarútvegi eru um 620 fyrirtæki. Þar af eru fimm stór, ekki á evrópskan mælikvarða, ekki á heimsmælikvarða heldur stór á okkar mælikvarða og svo um 20, meðalstór fyrirtæki. Við erum því með 500 og eitthvað fyrirtæki í landinu sem eru bara lítil fjölskyldufyrirtæki. Það er obbinn af þessu öllu saman.

Menn tala til dæmis um að 100 milljarðar hafi verið í hagnað af sjávarútveginum árið 2012. Þetta er auðvitað með vilja gert, þetta var ekki svona. Skattstofninn í sjávarútvegi var sennilega um 47 milljarðar árið 2012, sem er besta ár í íslenskum sjávarútvegi fyrr og síðar, 47–48 milljarðar. Er það ekki sú tala sem við þurfum að tala um þegar tekið er tillit til fjármagnskostnaðar og afskrifta í greininni til að menn geti staðið undir nauðsynlegri endurnýjun?

Á síðasta kjörtímabili fórum við í gegnum mikið öldurót í umræðum um sjávarútvegsmál og þau voru stór og mikil fyrirheitin sem þáverandi stjórnarflokkar viðhöfðu í kosningabaráttunni, fyrirheit um að þeir ætluðu að gjörbylta íslensku fiskveiðistjórnarkerfi. En hvað gerðist og af hverju gerðist það? Af hverju stigu þessir flokkar ekki skrefið til fulls og kláruðu sína heimavinnu? (LRM: Þú getur svarað því.) Ég get svarað því já, hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir. Það var vegna óeiningar í eigin röðum. Það var vegna þess að þessa flokka rak upp á sker í öllum sínum málflutningi, í öllum áformum sínum. Þeir komust að því að sú leið sem þeir höfðu boðað og sú aðferðafræði gekk ekki upp nema með slíkum skaða fyrir íslenskt samfélag að við hefðum verið mjög mörg ár og jafnvel áratugi að vinna okkur út úr því ef þeirra villtustu draumar hefðu gengið eftir. Kannski ætti ég að segja villtasti málflutningur vegna þess að ég er í raun og veru sannfærður um að fjöldi þingmanna í þessum flokkum kærði sig ekkert um þessar leiðir, kærði sig ekkert um þá útfærslu sem þeir öfgafullu töluðu fyrir. Þess vegna gekk þetta ekki eftir. Það náðist ekki samstaða um þetta. Þannig var staðan.

Nú er farið að nefna í umræðunni alls konar leiðir, við eigum að fara markaðsleiðina með makrílinn. Meira að segja hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon tók undir það áðan að það gæti verið að það þyrfti að fara markaðsleiðina með makríl. En af hverju var hún þá ekki farin árið 2010 þegar Steingrímur J. Sigfússon var fjármálaráðherra og einn af forustumönnum ríkisstjórnarinnar? Af hverju var ekki farin einhver slík leið þá?

Ég man að ég var spurður að því á þeim tíma af fjölmiðlamanni hvort mér fyndist að það ættu að gilda sömu reglur um makrílinn og giltu núna um aðra stofna sem væri einhver veiðireynsla á. Ég svaraði því nákvæmlega þannig á þeim tíma að það gilti svolítið annað um þennan stofn vegna þess að um væri að ræða nýjan stofn og veiðireynsla og fjárfestingar væru ekki fyrir hendi. En hvað gerði síðasta ríkisstjórn? Hún kom þessu í þennan farveg. Hún úthlutaði þessu til útgerða, hún úthlutaði þessu á skip. Menn hafa farið í milljarðafjárfestingu í vinnslu og í skipum til að geta veitt þessa tegund og skapað sem mest verðmæti fyrir þjóðarbúið. Á þá að fara að taka þetta af þeim þegar þeir hafa í lögbundnar röksemdir fyrir því að farið verði að lögum í þessu máli? En þá ætlast menn til þess að það verði jafnvel farin uppboðsleiðin, en þeir gátu ekki einu sinni komið sér saman um það á sínum tíma. Hver eru rökin fyrir því? Af hverju var þetta gert með þessum hætti árið 2010 en ekki farnar þessar uppáhaldsleiðir þeirra hv. þingmanna sem hér hafa verið að tjá sig? Þetta er auðvitað sérstakt rannsóknarefni en allt ber þetta að sama brunni. Allt saman styður þetta við það að þessi málflutningur er meira og minna í pólitískum tilgangi. Menn þyrla upp moldviðri um sjávarútveginn, tala illa um hann, gera þetta að einhverju kosningamáli. Ég segi við ykkur, hv. þingmenn og virðulegi forseti: Hættum þessu. Tökum umræðuna á annað stig.

Nú eru því miður aðstæður þannig í íslenskum sjávarútvegi að þær eru alvarlegar eftir þessi góðu ár 2010, 2011 og 2012 sem er besta árið fyrr og síðar. Við erum því miður að sjá mikinn samdrátt, mjög alvarlegan samdrátt fyrir íslenskt þjóðarbú. Það er brestur í loðnuveiðum, síldina er heldur á niðurleið, markaðsverð á okkar helstu afurðum hefur fallið um tugi prósenta og við sjáum að fyrirtæki, sérstaklega lítil og meðalstór fyrirtæki og vinnslufyrirtæki, sem eru á þeim markaði þar sem verðmætin hafa hrunið mest, standa frammi fyrir erfiðleikum. Þetta er alvarlegt. Okkur ber sem alþingismönnum að standa vörð um sjávarútveginn og bregðast við í þessum málum. Það gerum við ekki með því að auka álögur á greinina á sama tíma. Það er alveg ljóst.

Mér er það til efs sjálfum að gengið sé nógu langt í því að lækka veiðigjöld í þessu frumvarpi. Það verður verkefni hv. atvinnuveganefndar að skoða nýjustu gögn sem við munum fá núna í framhaldinu, meta þau og leggja á það eitthvert mat hversu langt á að ganga.

Það er annað sem skiptir miklu máli þegar við horfum til þess hvernig sjávarútveg við ætlum að reka í framtíðinni. Það eru markaðsaðstæður. Einhver hv. þingmaður kom inn á það áðan í ræðu sinni að markaðsmálin væru sennilega eitt það alvarlegasta sem við stæðum frammi fyrir. Ég tek undir það, ég hygg að það hafi verið hv. þm. Kristján Möller sem vakti athygli á þessu. Þetta er hárrétt hjá honum. Stærstu samkeppnisaðilar okkar í sjávarútvegi á hinum hefðbundnu mörkuðum okkar, Rússar og Norðmenn, eru að efla sig mjög í öllu markaðsstarfi, í allri vinnslu, veiðum og skipulagi í fiskveiðistjórn. Hvernig hafa þeir farið að til að gera það? Jú, þeir hafa ráðið til sín Íslendinga sem hafa mikla þekkingu, yfirburðaþekkingu á málaflokknum, bæði í vinnsluaðferðum og í sölumálum. Þeir eru farnir að innleiða íslenska kerfið og eru farnir að hafa áhrif á það að menn reyna að setja sig nær okkar kerfi og fyrirkomulagi til að geta náð inn á markaði okkar.

Við þurfum að tala um það í fullri alvöru hvernig rekstrarskilyrði og samkeppnishæfni við þurfum að skapa íslenskum sjávarútvegi á næstu árum vegna þess að við stöndum frammi fyrir mjög alvarlegum samkeppnislegum þáttum. Ef við eigum að halda forustuhlutverki okkar verður sjávarútvegurinn að geta eflt sitt markaðsstarf til muna, sett í það mikla fjármuni. Hann verður að geta endurnýjað flotann meira en gert hefur verið, hann verður að geta bætt sig í fullvinnslu og verðmætasköpun í vinnslu. Það er ekkert annað sem mun geta hjálpað okkur í því að halda því forustuhlutverki sem við höfum haft. Gerum við það með því að auka álögur? Nei, það er eins og að pissa í skóinn sinn, virðulegi forseti. Það virkar ekkert öðruvísi, manni hlýnar um stund en svo kemur bara kuldinn. (Gripið fram í.) Við getum staðið frammi fyrir ef við förum ekki skynsamlega og varlega í hlutina.

Hér hefur verið farið yfir veiðigjöldin og ég hef spurt ákveðna þingmenn að því hvort þeir séu tilbúnir að fella niður veiðigjöld á rækju og lækka veiðigjöld á kolmunna eins og lagt er til í svokölluðu rækjufrumvarpi sem hefur verið til meðferðar í atvinnuveganefnd í nokkrar vikur eða mánuði. Þar hefur ekki komið upp nein andstaða við að fella niður eða lækka veiðigjöld á þessar tegundir, alls ekki. Meira að segja hefur það heyrst úr ranni stjórnarandstöðunnar innan nefndarinnar að jafnvel þyrfti að ganga enn lengra í kolmunnanum. Ég spurði hv. þm. Steingrím J. Sigfússon að þessu áðan og hann sagði að þetta kæmi alveg til greina og þyrfti greinilega að gera.

En bíðum nú við. Rökin fyrir því að gera þetta liggja í frumvarpinu, þau liggja í þeirri greiningarvinnu sem hefur farið fram í allan vetur um stöðu útgerða í þessum veiðum. Þetta eru nákvæmlega sömu rök og sama vinna sem liggur til grundvallar í öllum hinum tegundunum. Á þetta þá að vera bara geðþóttaákvörðun okkar þingmanna? Eigum við að segja: Makríllinn getur borgað miklu meira eða þorskurinn getur borgað miklu meira? Nei, við þurfum að nálgast þetta af einhverri skynsemi og yfirvegun. Við verðum að forðast það í lengstu lög að hér verði niðurstaðan sú sama og þegar hv. þáverandi utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson líkti vegferð síðustu ríkisstjórnar í fiskveiðistjórnarmálum við bílslys.