143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[18:29]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Ég deili þeirri skoðun, og hef raunar sagt það ítrekað á undanförnum árum, frá því að ég kom inn á þing, að það er óþolandi að ein atvinnugrein á Íslandi skuli vera til umræðu í hverjum einustu kosningum. En það sem mér finnst alltaf vanta inn í umræðuna er að þegar menn krefjast sátta þá er ekki rétt fram sáttarhönd, það er það sem er vandamálið. Ég var ósáttur við það væl sem heyrðist í ræðu hv. þingmanns og hann er að ásaka aðra um skotgrafahernað, hann er að ásaka aðra um að þeir séu með umræðuna á lágu plani. Ég held að það verði hver að líta í eigin barm og ræða þetta út frá því.

Það er ekki langt síðan þessi sáttanefnd var við lýði, sem oft er verið að vitna í og ég leiddi á sínum tíma. Hvað entist LÍÚ lengi í þeirri sáttanefnd þangað til menn hlupu út? Og við vorum að ræða um skötusel. Fór útgerðin á hausinn út af skötuselsbreytingunum? Þetta er umræða sem við höfum verið að glíma við.

Það sama var með það varnarlið sem var í þinginu frá þáverandi minni hluta. Við skulum taka þetta upp á hærra plan og reyna að finna varanlegar lausnir, leita sátta, ekki við útgerðina eingöngu heldur við þjóðina, halda úti öflugri útgerð og leita að fjölbreytni. En mig langar líka að vekja athygli á því hjá hv. þingmanni, þegar verið er að ræða um veiðigjöldin, að það hafi verið sátt um þau, já, það var sátt um að leggja þau á. En það munaði ekki nema einu eða tveimur atkvæðum hvort farin hefði verið fyrningarleið eða veiðigjaldaleið á þeim tíma. Gaman væri að heyra svar hv. þingmanns við þessari spurningu: Hversu mörg ár frá því að veiðigjöldin voru lögð á, voru þau lögð á að fullu? Var útgerðin ekki meira og minna með undanþágur alveg fram til ársins 2007/2008 frá þessum gjöldum þrátt fyrir þá sátt sem hv. þingmaður var að vitna um?