143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[18:33]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sé ekki að það sé endilega mikill ágreiningur um markmið okkar hvað varðar þessi mál. En ég er að vekja athygli á því að hver og einn verður að líta í eigin barm. Við heyrðum sagt í ræðunni áðan að það hefði verið vilji okkar að umbylta og eyðileggja sjávarútveginn. Fyrir hvern er verið að tala? Og hvers vegna skyldi það nú hafa verið? Komið var með þá söguskýringu að það hefði verið svo mikil óeining að menn hefðu ekki fundið lausnir til að umbylta og skemma sjávarútveginn eins og mátti skilja það. Málið var að það var samkomulag um það í stjórnarsáttmála að gæta skyldi þess að þessi grein fengi að blómstra og njóta hagnaðar síns, það var í stjórnarsáttmálanum á þeim tíma. Ég biðst undan söguskýringum sem falsa þá mynd.

Mig langar að spyrja: Árin 2002–2007 voru engar fjárfestingar í sjávarútvegi sem nemur neinu, það voru engar endurnýjanir á skipum. Ytra umhverfi var erfitt, segja menn. En síðan kemur árið núna. Hver hafa verið bestu árin frá því kvótakerfið kom? Og hverjir voru í ríkisstjórn? Það eru síðustu þrjú til fjögur ár. Það skyldi þó ekki vera að öllum þeim sem vildu eyðileggja (Forseti hringir.) þessa grein hafi ekki tekist betur til en svo að þetta eru bestu árin. (Forseti hringir.) Við ætlumst til þess að greinin leggi til, í erfiðleikum okkar eftir hrun, það sem hægt er til að endurreisa samfélagið.