143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[18:57]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því er út af fyrir sig fljótsvarað. Nei, ég tel ekki að fyrirliggjandi frumvarp undirstriki sameignina á auðlindinni. Þvert á móti er þetta eitt skref í þeirri augljósu vegferð sem stjórnarflokkarnir eru í, að afnema eða lækka eins og þeir mögulega geta þau eðlilegu gjöld sem sjávarútvegurinn á að skila þjóðinni fyrir aðganginn að auðlindinni. Hér er enn verið að lækka þá fjárhæð og dregur auðvitað enn úr tilfinningum manna fyrir því að þeir njóti eðlilegs arðs af sameiginlegri auðlind landsmanna.

Ég held að best væri að þetta yrði ekki eitthvert þrætuepli og að við þyrftum ekki að vera að ræða hér útfærslur um ólíkar bókhaldsaðferðir, EBI eða EBIT eða EBITDA. Ég held út af fyrir sig að fyrri aðferðin í því hafi að mörgu leyti verið hentugri, en best væri auðvitað ef þetta gæti bara ráðist í frjálsum viðskiptum á markaði vegna þess að þannig getur fólk treyst því að það sé verið að fá fyrir þetta þann umframhagnað sem menn vænta að sé af því að stunda sjóinn. Það er sá umframhagnaður sem menn væru tilbúnir til að bjóða í veiðiheimildirnar. Það að við séum að deila um hvort það eigi að reikna prósentuna af tekjum fyrir vaxtagjöld eða eftir vaxtagjöld, fyrir skattgreiðslur eða eftir skattgreiðslur eða fyrir afskriftir eða eftir afskriftir er allt til þess fallið að gera þetta mjög flókið og illskiljanlegt almenningi. Ég held að almenningur skilji best hversu hlægilega lág þessi veiðigjöld eru þegar horft er á þá einföldu staðreynd að 11 kr. eru allt og sumt (Forseti hringir.) sem almenningur á að fá fyrir hvert kíló af þorski.