143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[19:03]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir ræðu hans í því máli sem hér er til umfjöllunar, um veiðigjöld. Það er sjálfsagt hægt að fara í marga þætti þessa máls og spyrja út í margt en mig langar samt að staldra við umgjörðina um málið í fyrra andsvari.

Nú er þetta kannski eitt af þeim málum sem ríkisstjórnin var með sem eitt af sínum mikilvægustu málum. Það var strax komin hingað inn á sumarþingi með vissum breytingum og lækkun á veiðigjaldinu eins og við þekkjum og boðað var, ef ég man rétt, sl. sumar að farið yrði í einhverja frekari vinnu við framtíðarútfærslu á þessu kerfi. Nú kemur þetta mál inn í þingið eftir að frestur er liðinn til að leggja fram þingmál fyrir vorið og er tekið inn með afbrigðum.

Mig langar fyrst að spyrja hv. þingmann, út af því hvað málið kemur seint fram, hvort hann telji þetta ekki vera nokkuð vandræðalegt fyrir ríkisstjórnina og hvað hann telur um heildarendurskoðun og framtíðarsýn á þessu kerfi eins og boðuð var. Hver gæti framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar verið? Varla birtist hún í þessu frumvarpi, eða hvað? Er það bara þetta sem ríkisstjórnin ætlar sér að gera í sjávarútvegsmálum, þ.e. að krukka í veiðigjöldin þannig að þau verði lækkuð í þrepum? Hvað sér hv. þingmaður fyrir sér í því efni?