143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[19:12]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjöld frá 2012, með síðari breytingum, og um afkomustuðla. Það er kannski rétt að segja í byrjun að nú þegar komið er í lok apríl og við eigum eftir aðeins tvær til þrjár vikur að hámarki í þinginu og ekki nema fimm til átta þingdaga þá kemur þetta frumvarp fram allt of seint og að auki skilar það allt of litlu. Miðað við það sem tekin var ákvörðun um í sumar og það sem bætist við eru auðvitað vonbrigði að menn skulu ganga lengra í því að lækka veiðigjöldin.

Það er svolítið skemmtilegt að fylgjast með vinnunni hjá hæstv. ríkisstjórn að ýmsum málum, m.a. þessu. Þegar menn voru í kosningabaráttu og voru í minni hluta á síðasta þingi, núverandi stjórnarflokkar, voru til ótal margar einfaldar lausnir og það átti ekki að taka mikinn tíma að leysa málin með ákveðnum hætti. En nú fáum við hvert frumvarpið á fætur öðru sem menn fylgja úr hlaði með því að segja að þetta sé svo flókið mál og erfitt að finna réttu lausnina o.s.frv. Þetta er eitt af þeim málum. Þetta er líka nákvæmlega það sem fyrrverandi ríkisstjórn hefði getað sagt núverandi stjórnarflokkum og við sögðum ítrekað. Það er ekkert auðvelt að ætla að búa til nákvæmt regluverk um það hvernig við tökum auðlindarentu og hvernig við skilum henni til þjóðarinnar sem eiganda að auðlindinni. En hér er verið að vinna ákveðnar tilraunir. Menn tala endalaust um að það sé auðvelt í sjálfu sér, allir séu sammála um að leggja á veiðigjald, mikilvægt sé að ná sátt og gjaldið eigi að vera hóflegt, en á sama tíma er enginn tilbúinn til að skilgreina, a.m.k. ekki stjórnarflokkarnir, hvað sé hóflegt gjald og við hverja eigi að ná sátt. Eftir áratugaágreining um kvótakerfið og fiskveiðistjórnarkerfið, sem er fullkomlega óþolandi í viðskiptalegu umhverfi, verðum við að gera okkur grein fyrir því að sáttum verður ekki eingöngu náð með því að ná sátt við þá sem nýta fiskinn og hafa fengið þar forgang í gegnum kvótakerfið í upphafi. Það þarf líka að sætta þjóðina sem hefur ítrekað sagt skoðanir sínar á gjaldtöku í sjávarútvegi.

En það er ágætt að heyra það frá hæstv. ráðherra að í raunveruleikanum þurfi menn að finna eðli gjaldsins og sameinast um það. Hvers eðlis á það að vera? Á það að vera tekjuskattstengt og algerlega afkomutengt? Á það að vera afkomutengt þannig að nánast frá degi til dags sé hægt að meta afkomuna og hverjar horfurnar séu á næstu vikum og gjaldið sé þá hækkað eða lækkað eftir því? Það hefur aldrei komið tillaga um að hækka það eftir því, en gjarnan hefur verið talað um að eitthvað sé fyrirsjáanlegt sem réttlæti að það verði lækkað. Það er líka vandinn í þessari umræðu.

Það er talað um að allir vilji láta greiða gjald, en það er ágreiningur um hvernig eigi að leggja það á. Fyrri ríkisstjórn gerði tilraun til þess að skilgreina það þannig að ákveðinn grunnur væri borgaður sameiginlega af allri útgerð. Þann grunn, það fjármagn, hefði ríkissjóður og þjóðin þar með til samneyslunnar fyrir afnot af auðlindinni. Því til viðbótar yrði lagt sérstakt veiðigjald sem rynni í auðlindasjóð eða yrði lagt til hliðar eða í sérstök verkefni þannig að ríkissjóður eða daglegur rekstur hans væri ekki háður því gjaldi. Þetta var hugmyndafræðin sem lagt var upp með. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að ef á að leggja gjald á með þessum hætti en ekki með markaðslausnum sé þessi hugsun mikilvæg, þ.e. að menn reyni að vera með ákveðinn grunn og síðan viðbótargjald. Nú er það komið hér inn í sérstaka stuðla sem eru líka mismunandi í almenna gjaldinu og sértæka gjaldinu. Ég kem betur inn á það á eftir.

Ég tek undir með hæstv. ráðherra að það er mikilvægt að sem flestir fái að taka þátt í að leita að bestu lausninni. Það er athyglisvert við það frumvarp sem hér er lagt fram að það er til bráðabirgða. Þetta er breyting til bráðabirgða. Þar af leiðandi heldur umræðan áfram en það er auðvitað erfitt að ætla að henda þessu í gegnum þingið á tveimur vikum. Það kemur ekki mikið af upplýsingum til viðbótar. Þegar menn tala um, eins og hefur komið ítrekað fram í umræðunni í dag, að afkoman sé mjög að versna þá þarf auðvitað að styðja það tölulegum rökum. Það skiptir miklu máli, það þarf að vera alveg á hreinu um hvað er verið að tala, hvað hefur breyst.

Nefnt hefur verið að með þessu frumvarpi er verið að leggja á veiðigjald sem miðar við tölur frá Hagstofunni frá 2012, þannig er frumvarpið lagt fram. Þó kom fram hjá hæstv. ráðherra að líklega væri hægt að fá tölurnar fyrir 2013 í umræðunni á næstu tveimur vikum. Það skiptir auðvitað máli, en lítum til þess að gamla veiðigjaldið var lagt á miðað við 2011, ef ég veit rétt. Svo tala menn um að besta afkoma í sjávarútvegi nokkru sinni hafi verið árið 2012 þegar þeir eru að reyna að komast hjá því að borga af því ári. Menn láta alltaf eins og peningarnir hafi horfið þótt þeir hafa fengið gríðarlega mikinn hagnað það ár og ekkert hefur verið lagt á þann hagnað. Óeðlilegt sé að leggja gjaldið á eftir á því menn hafi einhvern veginn týnt peningunum, þessum gríðarlega hagnaði. Þetta þarf auðvitað að ræða í sjálfu sér. Ætla menn að hoppa yfir 2012? Verður það eins og skattlausa árið á sínum tíma?

Það er gjarnan vitnað í hina frægu sáttanefnd er ég leiddi og niðurstöður hennar eiga að vera forsenda fyrir öllu og þær niðurstöður mistúlkaðar mjög að mínu mati. Eitt af því sem var lagt fram í þeirri vinnu var skýr tillaga um hvernig væri hægt að leggja á gjald sem byggði algerlega á markaðslausnum. Ég fer ekki dult með það að við í Samfylkingunni vildum gera þetta. Það er sérstakt plagg til um það og er í skýrslu sáttanefndar. En af því að við vildum leita sátta og reyna að finna einhverjar lausnir sem meiri hluti væri fyrir, hjá Alþingi a.m.k., var þessu ýtt út af borðinu í þeim hópi og menn fóru að leita annarra lausna. En ég er enn þá þeirrar skoðunar að útgerðin sjálf hefði haft mest gagn af því að draga fram þær tillögur og taka þær inn og reyna þannig að láta markaðinn skammta hvert veiðileyfagjaldið væri. Þá þyrftum við ekki að taka það til umræðu á hverju ári eða reglulega í þinginu og taka þá alltaf upp umhverfi um atvinnuumhverfi heillar atvinnugreinar, mikilvægustu atvinnugreinar í landinu.

Fyrr í umræðuna hafa menn komið að dálitlu af sögulegu yfirliti og hafa skoðanir á því hvað hefur gerst hér áður. Það sem kom mér á óvart þegar ég var að skoða þetta árið 2009, 2010 var þegar ég las auðlindaskýrslurnar sem voru unnar árið 2000 í stjórnartíð Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Þar voru menn að vinna tillögur að því hvernig ætti að leggja á auðlindagjald. Niðurstaðan eftir mjög nauma atkvæðagreiðslu var að taka upp veiðigjald, það munaði bara sáralitlu að menn veldu fyrningu, menn gleyma því nú, það var ekki meiri sátt um þetta en svo, það voru gríðarlega skiptar skoðanir. Það sem hefur vakið athygli manns er að þá var sátt um það hvernig ætti að leggja gjaldið á. Það voru ákveðnar prósentur og miðað við að draga frá ákveðinn annan kostnað. En síðan treystu menn sér aldrei til að leggja það á. Það voru endalausar afsakanir fyrir því að ekki væri hægt að leggja á þetta fulla veiðigjald. Sporin hræða. Ef umhverfið er alltaf eins og núna er haldið fram í umræðunni — og ég ætla ekki að gera lítið úr því að það gengur verr, það er þrengri aðstaða á mörkuðum og annað slíkt — en ef menn ætla alltaf að láta þetta ráðast af einhverjum hrakspám verður þetta endalaust, þetta verður eins og einhver verðlagning í þinginu á hverjum tíma, hjá nefndum þingsins og í þessum þingsal.

Eitt af því sem mér finnst alltaf hafa gleymst þegar rætt er um afkomuna og hversu vel sjávarútvegurinn hefur staðið sig o.s.frv. er sá gjörningur sem í raunveruleikanum varð til þegar menn settu verð á allar auðlindir í sjónum. Allt í einu varð sú auðlind orðin veðandlag inn í alla púllíuna. Framsalið og það fyrirkomulag, sem að mörgu leyti er skynsamlegt, hafði þann galla að það myndaði gríðarleg verðmæti hjá fyrirtækjunum sem síðan var hægt að selja út úr fyrirtækjunum og skilja skuldirnar eftir. Við þetta höfum við þurft að búa. Við getum skoðað dæmi eins og ég hef oft nefnt, þótt menn segi að það sé kannski ekki endilega dæmigert, þegar kvóti fer frá Vestfjörðum, frá Flateyri, upp á 3 milljarða á sínum tíma. Vestfirðingar náðu til baka milli 50–60% af þeim kvóta en stóðu uppi með 1,5–1,7 milljarða í skuldir sem greinin á þessu svæði þurfti síðan að borga fyrir að búið var að taka það út úr greininni til annarra hluta.

Þetta er líka að gerast í mjólkurkvótanum. Ég held að menn hafi í rauninni aldrei hugsað þetta til enda. Þetta var gagnrýnt raunar af aðilum sem komu hér frá Nýja-Sjálandi og skoðuðu hvað við vorum að gera, sérstaklega mjólkurkvótann. Þá ræddu menn á fundum, eins og ég hef ítrekað sagt héðan úr ræðustóli, og þeir sögðu: Hvernig dettur ykkur í hug að leyfa mönnum að fara út úr greininni með stórhagnað og skilja skuldirnar eftir? Mjólkurframleiðslan á viðkomandi stað varð svo að borga það, þegar menn voru búnir að selja kvótann og nota peningana í allt annað.

Það er enginn ágreiningur um það, og ég kom því að í andsvari, að markmiðið er að reka hagkvæman og öflugan sjávarútveg. Það er ánægjulegt að heyra í umræðunni að það er mikill skilningur á byggðamálunum og fyrir því að reka fjölbreyttan sjávarútveg. Það skiptir auðvitað miklu máli að við finnum lausnir á þessu, hvernig við ætlum að tryggja það að kvótinn fari ekki. Þetta lagði ég raunar fram í spurningarformi þegar ég heimsótti Bolungarvík í upphafi kosningabaráttu minnar 2007, þá sagði ég: Það er bara eitt sem ég vil fá að vita hjá ykkur útgerðarmönnum sem þingmaður: Hvernig ætlið þið að tryggja að þið farið ekki á morgun með kvótann og skiljið sveitarfélagið eftir í rúst? Hvernig getið þið hjálpað mér að tryggja það? Við getum ekki tryggt það, sagði viðkomandi. Þið verðið að eiga kvóta.

Þetta er vandamál sem við sjáum út um allt land, við verðum að hlaupa undir bagga og tryggja á einhvern hátt að ekki sé hægt að fara í burtu með kvótann. Það er nú hressilegur forsendubrestur þegar kvóti fer frá stað eins og Þingeyri með öllu tilheyrandi eftir stóru fyrirtæki á mælikvarða þessa svæðis og skilur eftir alla íbúana meira og minna án atvinnu og veldur verðfalli á eignum. Ég get líka nefnt Húsavík eða Djúpavog. Mér finnst skipta miklu máli að við ræðum þetta. Mér finnst hæstv. ráðherra hafa skilning á því að þarna þurfi að leysa málin og hann hefur talað fyrir því að menn beiti þeirri aðferðafræði sem hefur verið notuð undanfarið varðandi Brothættar byggðir; að koma inn með byggðakvóta og jafnvel til lengri tíma, allt að fimm árum.

Tíminn til að ræða þetta er mjög stuttur og það er gríðarlega mikið undir. Það sem er auðvitað mest sláandi í allri þessari umræðu alveg frá því síðastliðið sumar og gert mann næstum orðlausan, að minnsta kosti meira og meira hissa á hversu ófyrirleitin stefna núverandi ríkisstjórnar er í því að ganga hagsmuna þeirra sem hafa betri stöðu í samfélaginu, sem hafa og eiga meira, á kostnað þeirra sem hafa minnst. Eins og ég hef einhvern tíma sagt þá hefur það kannski átt að vera hrós fyrir fyrrverandi ríkisstjórn þegar hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra kom í ræðustól og sagði: Það var búið að gera nóg fyrir lágtekjuhópinn. En það er ekki þannig. Þessi hópur verður eftir í öllum leiðréttingum. Það er verið að taka út auðlegðarskattinn, það er verið að verja betur stæða hópinn í sambandi við virðisaukaskattinn á ferðaþjónustuna, ríkið er að afsala sér tekjum. Hér er búið að koma fram í umræðunni að þetta eru á þremur árum líklega um 18 milljarðar. Hvernig ætlum við að reka félagsþjónustuna? Hvernig ætlum við að reka spítalana? Hvernig ætlum við að reka menntakerfið? Ef við höfum ekki efni á því, hvar tökum við þær tekjur sem þarf? Við erum byrjuð á því. Með nefsköttum á það fólk sem hefur minnst. Við hlífum útgerðarmönnunum og við hlífum þeim sem hefðu getað borgað og geta borgað töluvert meira án þess að það bitni neitt á þeim. Þá er ég að tala um heildina.

Það eru ágætishugmyndir í frumvarpinu um lausnir á því hvernig eigi að koma til móts við skuldsettar útgerðir, hvernig eigi að setja frítekjumörk hjá þeim með minnstu útgerðirnar, hvernig menn geta varið minni útgerðirnar. Það er forvitnilegt að kanna afkomustuðlana, ég ætla ekki að útiloka að það sé ein leið, einkum sérstaka viðmiðunargjaldið. En það er enginn tími til að ræða þetta á kannski tveimur vikum í þinginu. Það er dapurlegt vegna þess að það þarf að ákveða veiðigjaldið til að menn geti lagt það á fyrir næsta kvótaár og haft sem tekjuforsendur fyrir næstu fjárlög.

Ég hefði viljað sjá þetta frumvarp miklu fyrr. Ég hefði viljað að í umræðunni værum við að leita sameiginlega að góðum lausnum í þeim anda sem allir tala um en byggja í raunveruleikanum á mismunandi grundvelli. Þegar menn segja hófsamt veiðigjald, auðlegðargjald, auðvitað eigum við öll að borga það, þjóðin á að fá arð — hvað þýðir það og hvað meina menn í rauninni með því?

Ég hefði viljað sjá þá peninga sem hér er verið að taka út, sem eru umtalsverðar upphæðir, að þeir hefðu skilað sér til velferðarkerfisins. Þar með er ekki sagt að það eigi að ráðast af þörfum ríkissjóðs hvernig lagt er á útgerðina en þegar við förum í gegnum eitt besta tímabil útgerðarinnar vegna hrunsins á krónunni og breytinga á markaðsaðstæðum, aflaaukningar og fleira, eigum við auðvitað að fá verulegan stóran hluta til að hjálpa okkur (Forseti hringir.) í endurreisninni á samfélaginu eftir hið alvarlega hrun sem hér varð.