143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[19:27]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir ræðu hans.

Nú var það svo að snemma á síðasta kjörtímabili var sett í gang vinna við að skoða sjávarútvegsmálin býsna heildstætt og talað um sáttanefnd í því efni og hv. þingmaður þekkir það mætavel hafandi verið þar í forustu. Eitthvað eru nú skoðanir skiptar eða frásagnir ólíkar á því hvort sátt náðist á þeim vettvangi og í hverju hún var fólgin. Það væri því fróðlegt ef hv. þingmaður segði okkur aðeins betur frá því og líka hvernig honum finnst það frumvarp sem hér er og sú stefnumótun sem í því birtist ríma við almenna sátt um stefnumótun í sjávarútvegsmálum, af því að oft er sagt í umræðunni að mikilvægt sé að það sé sátt og að allir séu sammála um að eðlilegt veiðigjald sé tekið o.s.frv. Hvernig rímar svo allt sem birtist í þessu frumvarpi, og ef það má kalla þetta einhverja stefnu eða stefnumótun, við það sem á undan hefur farið í því efni og þá vinnu sem hv. þingmaður leiddi á síðasta kjörtímabili við að reyna að ná meiri sátt eða almennri sátt?

Þingmaðurinn kom inn á, og við gætum kannski farið betur í það í síðara andsvari, þetta með almenna gjaldið og sérstaka gjaldið og þá grundvallarþætti sem þar eru undirliggjandi eða þá hugsun sem þar er. Ég sé að tíminn er búinn í þessu fyrra andsvari svo ég geymi það betur til síðara andsvars. En fyrst kannski aðeins um vinnuna í sáttanefndinni og hvernig þetta rímaði allt saman.