143. löggjafarþing — 100. fundur,  29. apr. 2014.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

565. mál
[20:46]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. 1 millj. evra, segir hann. Þetta eru risafjárhæðir. Ég skildi hann þannig að þetta þýddi í rauninni að ef við mundum ekki ganga í takt við önnur ríki mundi það raska samkeppnisstöðu Flugleiða væntanlega ef Flugleiðir þyrftu að borga en aðrir ekki.

Nú kom líka fram í máli þingmannsins að þessu var frestað og er áframhaldandi frestur fram til 2016 þar sem ekki hefur náðst víðtækara samkomulag. Ég spyr: Er einhver ástæða til að ætla að samkomulag náist á þeim árum sem fram undan eru, þ.e. þangað til fresturinn er liðinn? Er eitthvað sem bendir til þess? Hvað hefur helst staðið í vegi fyrir því að samkomulag næðist? Ég held að við sem viljum hugsa svolítið betur um jörðina okkar viljum að greitt sé fyrir slíkar heimildir. Því má spyrja sig hvort þetta sé eitthvað sem er fyrirsjáanlegt að ríkið nái samkomulagi um eða ekki. Getum við átt von á því að lenda aftur í nákvæmlega þessari stöðu? Hér kemur fram að þetta sé ekki fordæmisgefandi heldur ívilnandi. Þetta á ekki að vera eitthvað sem aðrir geta tekið mið af. Sér hv. þingmaður það fyrir sér að þessi staða gæti komið upp annars staðar eða eingöngu varðandi þessi mál? Er annað í kerfinu okkar sem varðar einhver sambærileg mál, sem gæti verið líkt þessu og aðilar gætu farið fram á?