143. löggjafarþing — 100. fundur,  29. apr. 2014.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

565. mál
[20:49]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að játa að margt af því sem hv. þingmaður spyr um er þess eðlis að það væri mjög óvarlegt af mér að fara að geta mér til um hvað gerist í framtíðinni. Þá á ég við að mér finnst mjög erfitt að svara því hvort það víðtæka alþjóðlega samkomulag um loftslagsheimildir sem hér er vísað til náist fyrir árið 2016. Það getur vel verið að það náist en það getur líka vel verið að það náist ekki. En ég geri ráð fyrir því að tímasetningin 2016 hafi verið valin út frá því að þá sé alla vega nægur tími til að láta á það reyna.

Þess er getið í nefndarálitinu að utanríkismálanefnd telji að hugsanlega hafi samstarfsríki okkar í Evrópusambandinu verið fullsein að bregðast við í þessum efnum vegna þess að þau hafa auðvitað vitað það í heilt ár að lok apríl á þessu ári væri tímafresturinn úti. Finna þyrfti einhverja lausn á málum áður en sá dagur rynni upp, þ.e. fyrir 30. apríl í ár þyrfti að vera komin niðurstaða í málið. Það hefur legið fyrir alveg frá því 24. apríl í fyrra, ef ég man rétt.

Síðan gerist það að málið tekur tíma á vettvangi Evrópusambandsins og uppi eru skiptar skoðanir, bæði innan stofnana og milli stofnana Evrópusambandsins, um hvaða niðurstaða eigi að verða ofan á. Sú niðurstaða næst ekki fyrr en 3. apríl í Evrópuþinginu og síðan 14. apríl liggur texti reglugerðar endanlega fyrir. Það skapar þann tímafrest sem gerir að verkum að við þurfum að taka málið inn með afbrigðum.

Þegar ég tala um fordæmisgildi er ég í raun og veru eingöngu að horfa á formhlið málsins. Hvað varðar efnislegu hliðina getur auðvitað vel komið til þess að við þurfum að taka ákvarðanir sem gefa einhverjar (Forseti hringir.) ívilnanir eða eitthvað þess háttar. Við tökum hins vegar (Forseti hringir.) fram varðandi formhliðina að (Forseti hringir.) þótt afbrigðileg leið sé valin (Forseti hringir.) í þessu tilviki þá viljum við varast (Forseti hringir.) að líta á það sem fordæmi (Forseti hringir.) fyrir síðari ákvarðanir af þessu tagi.