143. löggjafarþing — 100. fundur,  29. apr. 2014.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

565. mál
[20:52]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson upplýsti það í umræðum hér í gær, sem ég var búinn að gleyma, að ég greiddi atkvæði með … (ÖS: Að lokum.) — að lokum með breytingu af þessu tagi, þ.e. aðild okkar, fyrir einu og hálfu ári síðan eða svo. Ég hafði efasemdir í upphafi en féllst á röksemdir sem komu fram við málsmeðferð um að þarna væri um að ræða ívilnun sem ekki væri ástæða til að telja að bryti í bága við stjórnarskrána. Ég held að ég geti með góðri samvisku sagt að ég muni greiða atkvæði með þessu núna eins og ég gerði þegar hin upprunalega ákvörðun var tekin hér 2012. Ég játa það alveg, eins og kom fram í umræðum í gær, að ég hafði mikinn fyrirvara hvað varðar þetta mál þangað til ég og fleiri í þinginu höfðum áttað okkur á innihaldi þess og að í raun og veru væri um ívilnandi ákvörðun að ræða en ekki íþyngjandi, sem skiptir auðvitað verulegu máli í þessu sambandi.

Varðandi hins vegar almennt um EES og ESB ætla ég að reyna að standast þá freistingu að nota þetta tækifæri til að fara almennt í þá umræðu. Ég verð þó að segja að værum við í þeim sporum að vera aðilar að Evrópusambandinu þá værum við auðvitað ekkert að fjalla um þetta mál hér vegna þess að um er að ræða reglugerð sem tekur gildi beint gagnvart öllum aðildarríkjunum án aðkomu þjóðþinga í þeim ríkjum. Þar mun reglugerðin sem farið hefur í gegnum viðeigandi stofnanir Evrópusambandsins, ráðherraráð, framkvæmdastjórn og Evrópuþingið, taka gildi við birtingu á morgun án aðkomu einstakra þjóðríkja. Það má auðvitað segja sem svo að það væri náttúrlega einfaldara að láta bara reglurnar (Forseti hringir.) taka gildi beint hér án nokkurrar aðkomu okkar, en (Forseti hringir.) ég segi fyrir mitt leyti að mér líður þó betur að (Forseti hringir.) íslenska þingið komi að þessum málum með einhverjum hætti og hafi þá möguleika (Forseti hringir.) á því að stoppa þau ef aðstæður væru (Forseti hringir.) þannig að ástæða þætti til þess.