143. löggjafarþing — 100. fundur,  29. apr. 2014.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

565. mál
[20:57]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka formanni utanríkismálanefndar fyrir prýðilega framsögu fyrir máli sem er ákaflega flókið og torskilið. Hann gerði góða grein fyrir öllum þáttum nefndarálitsins en lét þess að vísu getið að hann ætlaði ekki að láta freistast til þess að fjalla of mikið um þann part nefndarálitsins sem varðaði hina formlegu hlið. Ég tel að það sé vel ráðið af honum sem stjórnarliða að gera það ekki því að staðreyndin er sú að þetta mál skilur eftir sig forarslettur upp um alla veggi stjórnarskrárinnar.

Það er rétt að það komi skýrt fram að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir hefur algjörlega rétt fyrir sér þegar hún talar um að hér sé í reynd verið að samþykkja tékka sem ekki er að öllu leyti útfylltur. Staðreyndin er sú að hv. formaður utanríkismálanefndar getur ekki gefið Alþingi Íslendinga neina tryggingu fyrir því að sá texti sem við höfðum fyrir framan okkur þegar við fórum yfir málið í nefndinni verði endanlegur texti. Það kom alveg skýrt fram að frá því að textinn, sem við höfum fyrir framan okkur, var samþykktur á málið eftir að fara í lagaskrúbb og hnika til orðum.

Þetta er mjög óvanalegt mál. Það sem hv. þm. Birgir Ármannsson vildi ekki láta freistast til að fjalla um eru auðvitað þau meginatriði sem koma fram í ályktunarorðum nefndarálitsins. Þar segir, með leyfi forseta, í fyrsta lagi:

„Nefndin hefur látið kanna það og fengið staðfest að engin fordæmi finnast um heimild til staðfestingar Alþingis sem lýtur að óbirtri ESB-gerð í Stjórnartíðindum ESB.“

Engin fordæmi. Það er rétt að það komi fram að það er annað en hæstv. ráðherra sagði við okkur hér í gær. Þegar ég gekk eftir því við hann hvort einhver fordæmi væru fyrir þessu, þá sagði hann já. Hann veitti þinginu rangar upplýsingar, sennilega vegna þess að hann hefur fengið rangar upplýsingar. Það liggur nú fyrir og utanríkismálanefnd gekk mjög vel úr skugga um að það eru engin fordæmi fyrir því sem hér er að gerast. Alþingi Íslendinga er hér að frumkvæði hæstv. utanríkisráðherra að samþykkja reglugerð sem er tæknilega ekki til, það er staðreyndin í málinu. Jafnvel þó að hv. formaður utanríkismálanefndar reyni að mála þetta sem björtustum litum þá veit ég vel að honum, sem einum af stjórnarskrárhaukunum á þessari löggjafarsamkundu, líður ekki vel að þurfa að taka þátt í þessu verki.

Ég sagði það sjálfur þegar við ræddum þetta hér í gær að mig sviði inn í innstu rætur hjarta míns yfir því að þurfa að gera þetta og svíður enn. Það breytir ekki hinu (Gripið fram í.)að sérstakar aðstæður, sem hv. þingmaður fór vel yfir, leiða til þess að ég styð þetta mál, en mér líður ekkert vel yfir því. Ég er hins vegar ekki í þeirri stöðu sem hæstv. utanríkisráðherra er í. Hann lýsti því yfir þegar þetta mál kom fyrst til þingsins að það væri brot á stjórnarskrá Íslands. Það sem við erum að fjalla um núna er ekkert annað en tæknileg útfærsla á sama máli og hæstv. ráðherra sagði þá að væri brot á stjórnarskránni. Tveir hv. þingmenn á þeim tíma, sem enn sitja í sölum Alþingis, treystu sér ekki til þess að styðja þetta mál. Hvorugur þeirra er í salnum í dag, annars vegar hæstv. utanríkisráðherra, og ég skil þá fjarveru mjög vel, og hins vegar hv. þm. Vigdís Hauksdóttir. Ég mundi líka í þeirra sporum halda mig fjarri sölum Alþingis þegar við greiðum atkvæði um þetta mál.

Þetta verður að liggja algjörlega skýrt fyrir. Það er ekki hægt að segja annað en að þetta mál sé gegnsýrt af pólitískri kaldhæðni. Maðurinn sem sagði að málið bryti í bága við stjórnarskrána flytur núna útfærslu á því. Er hægt að huga sér nöturlegra hlutskipti? Nei, að sjálfsögðu ekki. Auðvitað verður það að segjast líka að það er dálítið umhendis, svo ekki sé meira sagt, að flokkur eins og Framsóknarflokkurinn, sem gekk allt síðasta kjörtímabil pólitískan berserksgang gegn því að verið væri að hraða aðlögun Íslands að regluverki ESB, gangi nú fram fyrir skjöldu með mál sem á sér engin fordæmi í þingsögunni og þröngvi í gegnum Alþingi aðlögun að nýrri tilskipun Evrópusambandsins sólarhring áður en Evrópusambandið sjálft samþykkir viðkomandi reglugerð. Með öðrum orðum, það er verið að samþykkja aðlögunina fyrir fram, samþykkja reglur Evrópusambandsins sem það hefur ekki sjálft samþykkt. Þetta er ákaflega merkilegt svo ekki sé meira sagt.

Í nefndarálitinu segir í öðru lagi að hér sé um að ræða, með leyfi forseta, „fordæmalausar aðstæður hvað aðkomu Alþingis varðar“. Það er alveg hárrétt.

Ég hef þegar sagt það í þessari ræðu að hæstv. utanríkisráðherra eigi sér ákveðnar málsbætur og ég gerði í hörðum umræðum hér í gær grein fyrir því að tímanlegar ástæður gerðu það að verkum að hæstv. ráðherra hefði átt erfitt með að koma með málið til þingsins fyrr. Þingið fór í páskafrí 11. apríl en ráðherraráðið samþykkti reglugerðina ekki fyrr en 14. apríl. En það breytir því ekki að Evrópuþingið samþykkti hana 3. apríl þannig að það sá alveg til hvers stefndi. Ef menn hefðu viljað standa rétt að málum hefðu þeir komið fram með málið fyrr, þ.e. á milli 3. og 11. apríl. Þetta veit ég að maður sem hefur hjarta sem slær í flútti við stjórnarskrána getur ekki annað en fallist á. Þess vegna segi ég það alveg skýrt að ég virði hv. formann nefndarinnar fyrir að segja mjög skýrt í nefndarálitinu með okkur hinum, með leyfi forseta:

„Nefndin tekur fram að afgreiðsla þessa máls, með þeim hætti sem hér hefur verið lýst, hafi ekki fordæmisgildi hvað Ísland varðar.“

Það er mergurinn málsins. Það að við gerum þetta einu sinni má ekki leiða til þess að við göngum um stjórnarskrána með þeim hætti sem aðstæður og að vissu marki aðgæsluleysi framkvæmdarvaldsins í þessu máli knýr okkur til að gera.

Ég er sammála þeirri röksemdafærslu sem hv. formaður utanríkismálanefndar færir fyrir afstöðu sinni og ég geri ekki ágreining við það. Ég lýsti því strax yfir við umræður málsins í gær að ég teldi alveg eins og fyrir tveimur árum að það væru efnislegar ástæður til þess að fara þessa leið, þær eru íslenskir hagsmunir sem skipta töluvert miklu máli. Það breytir þó engu um það að hæstv. utanríkisráðherra, sem ekki er staddur hér, er um það bil eini maðurinn á Íslandi sem hefur enga ástæðu til þess að samþykkja þetta mál. Það er bara þannig. Sá Íslendingur einn utan hans sem ætti líkast til að vera í sömu sporum og af skyggnu mannviti heldur sig líka víðs fjarri þingsölum er auðvitað hv. þm. Vigdís Hauksdóttir.

Það er rétt að rifja það upp að hæstv. utanríkisráðherra fór fyrir flokki þingmanna sem bókstaflega stöðvaði störf þingsins fyrir tveimur árum vegna þess að honum var svo mikið í mun um að koma í veg fyrir að við samþykktum þá útfærslu á hinni upprunalegu tilfærslu með lögum nr. 290/2012. Hann gekk bókstaflega pólitískan berserksgang út af því máli.

Það er líka rétt að rifja það upp fyrir hv. þm. Birgi Ármannssyni, sem hefur fyrr í þessari umræðu upplýst að minni hans um þessa atburðarás sé töluvert stopult, að hann rifjaði það upp að það hefði verið ég sem kom fram með þá vitneskju sem kemur mönnum kannski ekki í þessum sal á óvart að hv. þingmaður tekur rökum. Eftir að hafa tekið þátt í herhlaupi hæstv. utanríkisráðherra á sínum tíma var honum leitt fyrir sjónir af sérfræðingum, góðum félögum í þinginu og líka fulltrúum atvinnulífsins, að það væri mjög í andstöðu við hagsmuni atvinnulífsins að samþykkja ekki þau lög. Sömuleiðis var líka um ívilnandi aðgerðir að ræða, og því var ákaflega erfitt að fallast á þá niðurstöðu að það væri brot á stjórnarskránni. Hv. stjórnarskrárhaukur og þingmaður Birgir Ármannsson lagði að vísu nafn sitt við ömurlegt nefndarálit umhverfis- og samgöngunefndar þar sem voru leidd rök að því. En honum til hróss má segja að hann sá að sér, alveg eins og Sál á veginum til Damaskus, hann varð lostinn ljósi skilningsins og breytti um afstöðu.

Það sama verður ekki sagt um hæstv. utanríkisráðherra fyrr en kannski í gær þegar hann lagði þetta mál fram og lýsti því þar með yfir að allt sem hann sagði í hinni fyrri lotu málsins væri ómerkt. Það er jákvætt. Við skulum muna hvað hann kallaði okkur í stjórnarliðinu þá, sem lögðum það mál fram. Hann kallaði okkur umhverfissóða.

Nú gengur í salinn hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, einn af þeim mönnum sem taka þátt í því að ætla að koma hér í gegn fyrir vin sinn, hæstv utanríkisráðherra, máli sem er tæknilega ekki til. Það er rétt að óska hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni til hamingju með það að hann sé ábyggilega að setja heimsmet vegna þess að þetta er í fyrsta skipti í mannkynssögunni sem nokkurt land sem tengist Evrópska efnahagssvæðinu samþykkir aðlögun áður en Evrópusambandið sjálft er búið að taka ákvörðun um reglurnar sem hann er að aðlaga Ísland að. Þetta er auðvitað fáheyrt, herra forseti, en batnandi mönnum er best að lifa.

Ég hef tekið eftir því að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason lætur sig alltaf hverfa þegar þessi mál eru hér tekin til umræðu. Ég skil það vel. Hann lýsti því yfir hátt og í hljóði hér bókstaflega út allt síðasta kjörtímabil að fyrr mundi hann dauður hníga að foldu en að taka þátt í því að aðlaga íslenskan rétt að regluverki Evrópusambandsins. Kannski breytast menn við það að verða aðstoðarforsætisráðherrar. (Gripið fram í.)

Herra forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson hefur farið yfir þær meginbreytingar sem skipta máli varðandi hagsmuni íslenskra flugrekenda og íslenskra stofnana líka. Þeir eru allnokkrir. Eins og kom fram hjá hv. þingmanni þýðir þetta töluvert mikinn kostnað ef ekki er orðið við þeirri tillögu sem hér liggur fyrir. Það mundi kosta milljón evrur, þ.e. allt það flug sem liggur út frá EES-svæðinu þyrfti þá að kaupa losunarheimildir. Það er sennilega helmingurinn af þeim 3 millj. tonna sem þarf að kaupa losunarheimildir vegna; virði 1 millj. evra, eins og ég sagði. Sömuleiðis varðar þetta fyrst og fremst eitt flugfélag en þó fljúga nokkur flugfélög á öðrum flugleiðum en bara til Ameríku. Einn af þeim vinsælu áfangastöðum sem fá til dæmis líkn með þessu eru Kanaríeyjar og nokkur flugfélög fljúga þangað, líka Grænland og Færeyjar. Rökin fyrir því að samþykkja þetta efnislega eru auðvitað nákvæmlega hin sömu og fullt af þingmönnum þverskölluðust við að skilja fyrir tveimur árum. Það er hins vegar, eins og hv. þingmaður sagði í framsögu sinni, önnur hlið á málinu, hin formlega hlið, og það er dálítið sárt að þurfa að leika stjórnarskrána með þessum hætti.

Ég er hins vegar sammála þeirri niðurstöðu hv. þingmanns, og við gengum úr skugga um það í nefndinni, að það er hægt að standa á þessu. Það er kannski fullmikið sagt, eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir og ég sögðum, að um óútfyllta ávísun væri að öllu leyti að ræða. Það eru ákaflega litlar líkur á því að málið breytist frá samþykkt ráðherraráðsins og til þess tíma sem reglugerðin verður samþykkt af ESB endanlega með því að verða gefin út í Stjórnartíðindum ESB á morgun. En það breytir ekki því að þetta er fordæmalaust. Þetta er pólitísk saga sem er að gerast. Ef ekki vildi svo heppilega til að allir sem voru í forustu fyrir því að Ísland gerðist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu á árunum 1993 og 1994 eru á góðu lífi þá mundu þeir sennilega bylta sér grátandi í gröf sinni yfir svona vinnubrögðum.