143. löggjafarþing — 100. fundur,  29. apr. 2014.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

565. mál
[21:11]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Hér er fjallað um tillögu til þingsályktunar um heimild til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn. Eins og hér hefur komið fram, bæði í máli hv. formanns utanríkismálanefndar, framsögumanns með þessu máli, og hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, er um óvenjulegt mál að ræða að því er varðar form. Innihaldið er síðan annar hluti og ég ætla að fjalla um hvort tveggja, innihald málsins og form.

Það sem er á ferðinni er að verið er að gera breytingu á reglum sem varða kaup á losunarheimildum eða heimildum til losunar gróðurhúsalofttegunda innan EES-svæðisins og á við flugið. Ég er stuðningsmaður þess að Ísland sé aðili að þessu svokallaða ETS-kerfi, losunarkerfi, heimildakerfi fyrir losun gróðurhúsalofttegunda. Ég tel mikilvægt að það kerfi sé byggt upp og treyst frekar en hitt. Hugsunin var sú um flugið á EES-svæðinu að hvort sem menn væru einungis að fljúga innan svæðisins, inn á svæðið utan frá eða frá svæðinu og út úr því þyrftu þeir að kaupa þessar losunarheimildir.

Af því að ég sá að hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra var á vappi í salnum áðan og er sjálfsagt ekki langt undan þá hefði verið fróðlegt að heyra viðhorf hans til efnis málsins, segja hvaða afstöðu hann hefur til þess að við séum aðilar að þessu kerfi, hvort það séu einhverjar skrúbblur í hans huga hvað það varðar og hvort hann telji rétt og eðlilegt að það sé þróað áfram og að sú regla sem hér er í raun og veru verið að fresta, eins og farið var yfir af hálfu framsögumanns málsins, taki engu að síður gildi þótt síðar verði. Ég hefði áhuga á því að heyra viðhorf hæstv. umhverfisráðherra til þess, ef svo má segja í prinsippinu, vegna þess að þetta er mikilvægt umhverfismál, þetta er mikilvæg ráðstöfun til þess að bregðast við gróðurhúsa- eða loftslagsbreytingum og til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Að því leyti til er þetta mikilvægt umhverfismál og mér finnst eðlilegt að hæstv. umhverfisráðherra a.m.k. greini okkur frá sýn sinni á það þegar málið er hér til umfjöllunar.

Þessi þingsályktunartillaga gerir ráð fyrir því að fresta til ársins 2016 gildistöku þeirra reglna sem ég gat um áðan um að flugið þyrfti að kaupa losunarheimildir fyrir flug sem er inn á og út af EES-svæðinu, eins og á við um flug innan EES-svæðisins. Gildistökunni er frestað til ársins 2016, en það hafði verið gert ráð fyrir því að reglurnar tækju gildi 1. maí nk. Það skýrir þann þrönga tímaramma sem við glímum við málið í.

Hæstv. utanríkisráðherra mælti fyrir þessu máli í gær, það var tekið inn á dagskrá þingsins með afbrigðum og var fundað um það í utanríkismálanefnd í gærkvöldi og svo aftur í morgun og það kemur hér aftur inn á þennan fund með sérstökum afbrigðum, sérstakan fund, í því augnamiði að það verði afgreitt sem ályktun Alþingis í kvöld.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson fór nokkuð mikinn um það að þetta mál væri seint fram komið og gagnrýndi hæstv. utanríkisráðherra þar að lútandi. (ÖS: Ég flutti nú líka málsbætur.)Og flutti einhverjar málsbætur, já. Ég, þó að ég sé aðili að þessu nefndaráliti eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, deili ekki alveg þeirri gagnrýni. Mér finnst hún ekki réttmæt vegna þess að málsbæturnar þarna — eins og hann gat réttilega um — eru þær að Evrópusambandið, ráðherraráð Evrópusambandsins afgreiddi ekki þessar reglur fyrr en 14. apríl, eftir að Alþingi var komið í páskaleyfi. Það má kannski segja að þetta sé sleifarlag af hálfu Evrópusambandsins, alveg sérstakt, og sérstaklega að það skyldi ekki hafa tekið tillit til þess að Alþingi Íslendinga fór í páskaleyfi 11. apríl. (Gripið fram í: Já, það er rétt.) Og það var ekki við því að búast að Evrópusambandið tæki mikið mið af staðháttum hér á landi, eins og þeir hv. þingmenn vita sem berjast daglega fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið, en það er svo annar handleggur.

Sannleikurinn er sá að það hefur legið fyrir um nokkuð langt skeið, sennilega frá því fyrir um ári eða svo, að þær reglur ættu að taka gildi núna 1. maí eða 30. apríl og það hefur ekki tekist að ná samkomulagi, víðtæku samkomulagi um að innleiða þetta kerfi. Þess vegna er augljóst að ef við létum þetta taka gildi eftir sem áður hér á landi mundi það raska samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja og mundi líka hafa verulega íþyngjandi áhrif fyrir þá sem fylgjast með losunarbókhaldi gróðurhúsalofttegunda, íslenskar stofnanir sem við það fást. Ég tel því að það sé enginn flötur á því fyrir okkur annar en sá að afgreiða þá þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir og þar með að veita heimild til staðfestingar á þessari breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

Það er reyndar athyglisvert að Evrópusambandið hefur valið að gefa þetta út sem reglugerð en ekki tilskipun, þetta er reglugerð um breytingu á tilskipun. Og hvaða máli skiptir það að hér er um að ræða reglugerð en ekki tilskipun? Það skiptir því máli að ef um tilskipun væri að ræða þyrfti hún að innleiðast í hverju ríki Evrópusambandsins fyrir sig með atbeina stjórnvalda í hverju ríki fyrir sig, en þegar gefin er út reglugerð á þann hátt sem er um að ræða öðlast hún gildi innan alls Evrópusambandsins og innan allra ríkja án sérstakrar aðkomu stjórnvalda í hverju ríki fyrir sig. Þessi leið er bersýnilega farin vegna þess tímaramma sem málið er í, þess þrönga tímaramma, að ráðherraráð Evrópusambandsins afgreiðir ekki málið frá sér fyrr en 14. apríl og það var bersýnilega ekki tími til þess að að fara með það í hefðbundið ferli eins og ef um tilskipun hefði verið að ræða og þess vegna er þessi reglugerðarleið valin.

Það setur EES-ríkin sem eru utan Evrópusambandsins, þ.e. EFTA-ríkin þrjú, EES/EFTA-ríkin, í þá klemmu að þurfa að innleiða þessa reglugerð eða falla frá stjórnskipulegum fyrirvara þannig að hún geti tekið gildi hér á landi, og hið sama á við um Noreg og Liechtenstein, á morgun eins og reglugerð Evrópuþingsins. Og nú bregður svo við, og þá kem ég að því sem er hið óvenjulega í þessu máli, að reglugerð Evrópusambandsins hefur ekki verið birt, þótt hún hafi verið afgreidd í ráðherraráði Evrópusambandsins 14. apríl hefur hún ekki verið birt. Þá geta menn spurt sig: Vitum við þá ekkert hvernig hún lítur út, erum við hér með algjörlega óútfylltan tékka?

Það er nú kannski ekki alveg þannig að við séum með algjörlega óútfylltan tékka, og í fylgiskjali með þingsályktunartillögunni, á þskj. 982, er þessi reglugerð í íslenskri þýðingu birt eins og hún varðar EES. Íslenska þýðingin er þýðing á þeim texta sem afgreiddur var í ráðherraráðinu 14. apríl sl. Og eins og kom fram, held ég hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni, er auðvitað ekki loku fyrir það skotið að þessi reglugerðartexti taki breytingum, jafnvel þó að það séu bara orðalagsbreytingar eða tæknilegar breytingar, lagatæknilegar eða eitthvað þess háttar, eða málfarslegar, þá mundi maður engu að síður segja: Bíddu, þarf þá ekki að vera rétt þýðing á því að því er varðar gildistöku hér á landi? Auðvitað þarf það að vera. Það er því óvenjulegt í málinu að við erum að fjalla um að gefa þetta leyfi fyrir fram, gefa þessa heimild fyrir fram, án þess að vera með endanlega útgáfu reglugerðarinnar undir höndum.

Þess vegna hefur komið upp umræða um stjórnarskrána. Nú vil ég segja að ég er algjörlega sama sinnis og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, ég tel alls ekki að þetta mál, eins og það bar að upphaflega og var afgreitt hér sem lög árið 2012 sennilega, hafi verið í bága við stjórnarskrá eins og ýmsir héldu fram á sínum tíma. Það tel ég algjörlega fráleita lögskýringu og því enn síður sú breyting sem gerð er á málinu hér og nú. Álitamálið sem var uppi núna var hvort það væri samræmanlegt stjórnarskránni að Alþingi félli fyrir fram frá stjórnskipulegum fyrirvara. Það tel ég að sé hafið yfir allan vafa að Alþingi getur gert. Alþingi getur að sjálfsögðu fallið frá stjórnskipulegum fyrirvara á málinu á efnislegum forsendum, þó að endanleg útfærsla liggi ekki fyrir í texta. Ég tel því að það sé engin spurning um það að málið rekst ekki á við stjórnarskrána, hvorki að efni til né formi.

Það er mikilvægt að halda því til haga sem gert er í nefndarálitinu, og við töldum mörg hver í utanríkismálanefnd að mjög brýnt væri að það kæmi fram í nefndarálitinu og er forsenda þess, að ég hygg, að nefndin stendur öll að því, en þar er getið um fordæmi þar sem þingsályktunartillaga er lögð fram í aðdraganda ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar. Getið um fjögur fordæmi, um samræmdar heilbrigðisreglur fyrir fisk og fiskafurðir, um að fella flugstarfsemi og stærstan hluta iðnaðar sem losar gróðurhúsalofttegundir undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda, um sameiginlegar reglur um almenningsflug, um stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu og um framsal sektarvalds til ESA vegna flugstarfsemi og um útvíkkun á viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildum gróðurhúsalofttegunda. Eins og menn heyra á þessu er obbinn af þessu eða þrjú af fjórum málum efnislega skyld því máli sem við erum með til umfjöllunar.

Í öllum þessum tilvikum lá hins vegar fyrir texti þeirrar tilskipunar sem ætlunin var að innleiða. Að því leyti til og þess vegna segir hér, með leyfi forseta:

„Nefndin áréttar hins vegar að engin fordæmi finnast um heimild til staðfestingar Alþingis sem lýtur að óbirtri ESB-gerð í Stjórnartíðindum ESB, eins og síðar verður komið að.“

Það kemur síðan fram í ályktarorðum þar sem segir, með leyfi forseta:

„Þær aðstæður sem uppi eru í málinu eru sérstakar. Nefndin hefur látið kanna það og fengið staðfest að engin fordæmi finnast um heimild til staðfestingar Alþingis sem lýtur að óbirtri ESB-gerð í Stjórnartíðindum ESB. Að því leytinu er líklega um að ræða fordæmalausar aðstæður hvað aðkomu Alþingis varðar. Enn fremur sýnir einföld skoðun á þeim fjórum málum, þar sem þingsályktunartillaga var lögð fram í aðdraganda ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar, að í öllum tilfellum var um að ræða ESB-gerðir sem áður höfðu verið birtar í Stjórnartíðindum ESB. Nefndin tekur fram að afgreiðsla þessa máls, með þeim hætti sem hér hefur verið lýst, hafi ekki fordæmisgildi hvað Ísland varðar.“

Það er því mikilvægt að þessu sé vel til haga haldið í umræðunni og einnig í framhaldinu komi mál upp af þessum toga síðar meir. Við lítum ekki svo á að hér sé um fordæmisgefandi mál að ræða.

Það er hins vegar skondið, má kannski segja, og þess vegna ekki sérkennilegt að hv. þm. Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, skuli í ræðu sinni hafa farið nokkuð yfir forsögu málsins og forsögu, má segja, ýmissa þeirra sem tala nú fyrir þessu máli hér á síðasta kjördæmi, vegna þess að við upplifðum það skipti eftir skipti að mál af þessum toga, EES-mál, voru nánast tekin í gíslingu í umræðu á Alþingi í málþófi, ekki endilega efnis málsins vegna heldur frekar stundum til þess að vera til almennra leiðinda, til þess að stöðva framgang ýmissa annarra mála léku menn sér að því. Þess vegna má kannski segja að það hafi ekki endilega verið efnisleg andstaða við mál af þessum toga sem réði því að menn töluðu gegn þeim.

Nú er þetta sama fólk komið í ríkisstjórn og þá snýr það við blaðinu. Þá áttar það sig á því að það er hérna — ég sé að hæstv. félagsmálaráðherra veltir því fyrir sér hvort ég hafi verið að beina orðum mínum sérstaklega að henni. Ég talaði almennt í fleirtölu um fólk og það getur meira að segja verið í Framsóknarflokknum, það er víst eitthvert fólk þar þannig að það gæti alveg átt við um það. En það segir manni bara það að það var ekki endilega efnisleg afstaða eða efnisleg andstaða um mál sem réð málflutningi á þessum tíma heldur frekar önnur sjónarmið. En batnandi fólki er best að lifa, jafnvel þó að það sé í Framsóknarflokknum og kannski einkum og sér í lagi vegna þess.

Mér finnst það því jákvætt að það komi fram og það kom fram í máli hæstv. utanríkisráðherra í gær þegar hann mælti fyrir málinu að hann styður það að sjálfsögðu, nema hvað. Ég heyrði heldur ekki betur á fulltrúum Framsóknarflokksins í utanríkismálanefnd en að það væri engin andstaða við það þar, meira að segja ekki af hálfu hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar sem á sér nokkra sögu í þessum málum eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson rakti hér áðan og þarf ekki að endurtaka.

Virðulegur forseti. Eins og ég segi ber þetta mál auðvitað brátt að og það má segja að það sé gagnrýnivert. Mér finnst hins vegar ekki sanngjarnt að beina þeirri gagnrýni að hæstv. utanríkisráðherra. Ég held að hann hafi ekki getað staðið öðruvísi að þessu máli miðað við þær aðstæður sem voru uppi hjá okkur en að koma þá með það inn í þingið í gær á fyrsta degi eftir páskaleyfi og óska eftir því að það fengi flýtimeðferð vegna þess þrönga tímaramma sem við stöndum frammi fyrir. Ég vil frekar segja að það eigi að áfellast Evrópusambandið fyrir að hafa dregið lappirnar og beðið með að koma þessu máli fram frá sér en að sakast við hæstv. ríkisstjórn í því efni, það geri ég ekki. En aðstæðurnar eru sérstakar og þess vegna er mjög mikilvægt að þessi fyrirvari, ef kalla má fyrirvara, eða sérstöku sjónarmið eru reifuð í nefndaráliti og því skýrt til haga haldið að hér sé ekki um fordæmisgildi að ræða. Það er líka mikilvægt að þingið sé sér meðvitað um aðstæður, að það geri sér grein fyrir því að verið sé að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara fyrir fram á tilskipun eða reglugerð sem hefur ekki verið birt opinberlega. Við höfum texta hennar eins og hún var afgreidd úr ráðherraráði Evrópusambandsins 14. apríl og eins og fram hefur komið í bæði máli hæstv. utanríkisráðherra í gær og hv. formanns utanríkismálanefndar í dag eru auðvitað engar líkur á því að reglugerðin sem slík taki breytingum frá því að hún er afgreidd úr ráðherraráðinu og þar til hún er birt, ekki efnislegum. En það geta hins vegar verið einhverjar lagfæringar á orðalagi sem þyrftu auðvitað að endurspeglast í textanum sem frá okkur fer.

Það er hins vegar ein spurning enn sem ekki hefur verið svarað til hlítar að mínu viti og það er lagafrumvarpið sem á að koma þessari tillögu til fullnustu, sem á að koma hér í haust af hálfu hæstv. umhverfisráðherra. Ég hefði gjarnan viljað eiga orðastað við hæstv. umhverfisráðherra um nákvæmlega þann þátt málsins (Forseti hringir.) Þess vegna sakna ég þess að ráðherrann sé ekki við umræðuna.