143. löggjafarþing — 100. fundur,  29. apr. 2014.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

565. mál
[21:33]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við göngum hér til atkvæða um mál sem er óvenjulegt að formi til, þ.e. um að Alþingi aflétti stjórnskipulegum fyrirvara fyrir fram af reglugerð sem ekki hefur litið dagsins ljós. Það er mikilvægt að þingheimur sé sér meðvitaður um að það er verið að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara af reglugerð sem við vitum ekki nákvæmlega hvernig lítur út. Það er mjög óvenjulegt, það eru engin fordæmi fyrir því í þingsögunni. Það er mikilvægt að allir þingmenn sem greiða atkvæði hér séu sér meðvitaðir um það.

Það er líka mikilvægt að geta þess að frumvarp til fullnustu á því máli sem hér er til umfjöllunar er ekki komið fram og kemur ekki fram fyrr en í haust, en reglugerðin tekur engu að síður gildi. Það verður réttaróvissa frá því að reglugerðin tekur gildi og þar til lagafrumvarp hefur verið samþykkt. Ég vil vekja athygli þingheims á að þessi staða getur hæglega komið upp. Því hefur ekki verið svarað og er ekki svarað með fullnægjandi hætti í utanríkismálanefnd hvernig ætti að fara með ef á þetta mál yrði látið reyna.