143. löggjafarþing — 100. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[21:35]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér veiðigjöld enn einu sinni. Núna eru breytingar gerðar til bráðabirgða enn og aftur. Tekið er tillit til fisktegunda sem eru í raun ágætisleið, ég er sammála því að það eigi að gera. Það sem er hins vegar athugavert við þessa framsetningu er að um leið og þetta er gert er ferðin notuð til þess að lækka veiðigjöldin í heild sinni. Rökin sem hæstv. sjávarútvegsráðherra fór með hér fyrr í dag og fleiri stjórnarliðar hafa haft uppi eru þau að það sé svo mikilvægt að taka tillit til aðstæðna minni sjávarútvegsfyrirtækja og síðan sé líklegt að staða sjávarútvegs sé verri nú en á árinu 2012, en árið 2012 var metár eins og einnig hefur komið fram í umræðu. En þrátt fyrir að hamrað sé á því að það sé svo mikilvægt að taka tillit til lítilla og meðalstórra fyrirtækja, sem ég er sammála um að gera, og þau skipti miklu máli fyrir byggðirnar í landinu er ekkert tekið á því í þessu frumvarpi. Ef menn væru í rauninni að meina eitthvað með því hefðu þeir tekið á því máli hér.

Þetta mál, veiðigjaldamálið, snýst um grundvallarsjónarmið og það snýst um réttlæti; það snýst um að þjóðin njóti arðsemi af auðlind sinni. Það er mjög mikilvægt fyrir þjóð sem byggir efnahag sinn eins mikið á nýtingu náttúruauðlinda og Íslendingar gera að hafa beinar tekjur af nýtingu þeirra. Þannig má hafa opinberar álögur á annað atvinnulíf lægri fyrir vikið og stuðla með þeim hætti að sköpun starfa í öðrum greinum. Þarna er ég með í huga að ef veiðigjaldið gæti t.d. orðið til þess að við gætum lækkað tryggingagjald, sem kemur öllum öðrum atvinnugreinum vel og öllu atvinnulífinu vel, væri það mjög gott skref. Þannig væri hægt að nýta arðinn af auðlindinni og þessari mikilvægu atvinnugrein til að styrkja aðrar atvinnugreinar í landinu.

Kostir auðlindagjalda umfram aðra skattheimtu eru ótvíræðir. Ef rétt er að þeim staðið bjaga þau ekki hvata í atvinnulífinu þar sem eingöngu umframhagnaður er skattlagður og ákvörðun gjaldsins tekur ekki mið af hegðun fyrirtækisins. Þrjár leiðir hafa verið nefndar til að ákvarða umfang gjaldsins. Ég tel að heppilegasta leiðin til þess að ákveða gjaldið, sem er sérleyfi til nýtingar á takmarkaðri auðlind, sé að nýta markaðslögmálið. Aðilar markaðarins búa að jafnaði við bestu fáanlegar upplýsingar um virði gæðanna og eru hæfastir til að meta þau. Því er reglulegt útboð langtímaveiðiheimilda hentugasta leiðin.

Jón Steinsson, dósent í hagfræði við Columbia háskóla í New York, skrifaði stuttan pistil á Eyjuna. Ég vil vitna í þann pistil, með leyfi forseta. Hann segir:

„Umræða síðustu daga um veiðigjaldið sýnir einkar vel kosti uppboðs á veiðiheimildum. Uppboð er markaðslausn þar sem fyrirtækin sjálf gefa til kynna með boðum sínum hversu hátt gjald þau ráða við og hvað raunverulegt markaðsvirði þeirra réttinda er sem þau væru þá að leigja.

Á meðan gjaldtaka í sjávarútvegi er í formi veiðigjalds mun grátkór LÍÚ hljóma eins og hann hefur hljómað síðustu daga.“

Jón Steinsson vitnar þarna í hæstv. fjármálaráðherra sem talar um prinsipplausa umræðu vinstri flokkanna, en Jón heldur svo áfram og segir:

„Hér er einfalt prinsipp: Útgerðin á að greiða markaðsverð fyrir þau veiðiréttindi sem henni er úthlutað. Hér er einföld aðferð til þess að ná fram þessu prinsippi: Uppboð á veiðiheimildum.“

Virðulegur forseti. Ég held að þetta sé langbesta leiðin. Við erum búin að taka þessa umræðu áður. Ég kom á þing 2009 og við erum alltaf annað slagið að ræða og þrasa um veiðigjald og hræðsluáróðurinn er alltaf sá sami. Eitthvert útgerðarfyrirtæki stendur ekki vel og um leið fara menn að segja: Við verðum að lækka veiðigjaldið því þetta fyrirtæki gæti farið á hausinn og það hefur alvarlegar afleiðingar fyrir byggðirnar o.s.frv.

Til að við komumst út úr þessu held ég að heppilegast sé að fara markaðsleiðina. Næstbesta leiðin er sú sem við höfum farið og er í núverandi lögum um veiðigjald, þ.e. að láta sérfræðinga meta út frá bestu fáanlegu upplýsingum umfang auðlindarentunnar í greininni og leggja á hana auðlindagjald sem er ákveðið hlutfall af auðlindarentunni. Það sem er hins vegar allra verst er að stjórnmálamenn ákveði gjaldið. Það býður bara hættunni heim. En núverandi fyrirkomulag veiðigjalds er einnig gott að því leyti að álagning þess er mjög einföld í framkvæmd. Fyrst var það einfaldlega krónugjald á þorskígildiskíló. Í því frumvarpi sem við ræðum hér er krónugjald á einstakar fisktegundir, en eins og ég sagði áðan er ferðin notuð til þess að lækka gjöldin. Ég er ekki ánægð með það og tel að það vanti allar tölulegar staðreyndir og öll rök fyrir þeirri lækkun.

Núverandi veiðigjald hefur sömu eiginleika og kostnaður við öflun aðfanga í venjulegum rekstri. Allir greiða jafnt gjald nema lítil fyrirtæki greiða að jafnaði lægra gjald sökum þess að af fyrstu 30 tonnum hverrar útgerðar greiðist ekkert gjald og af næstu 70 tonnum hálft gjald. Þannig er það í núgildandi lögum, eins og ég sagði áðan, og í þessu frumvarpi er ekki verið að skerpa á þessu eða hækka afsláttinn til þess að koma á móts við lítil og meðalstór fyrirtæki.

Ef mönnum er alvara með yfirlýsingum sínum um að koma til móts við minni útgerðir ættu þeir að sjálfsögðu að leggja til að þessum gjaldfrelsismörkum verði breytt þannig að minni fyrirtæki fái meiri afslátt.

Í olíuvinnslu í Noregi myndast mikil auðlindarenta. Hún er skattlögð með auðlindarentusköttum. Sama fyrirkomulag er að finna í íslenskum lögum um vinnslu kolefnis. Mér finnst rétt að við lítum til olíuvinnslunnar í Noregi. Þar er þetta eins og hér réttlætismál. Þar snýst þetta ekki um að taka tillit til stöðu ríkissjóðs — staða ríkissjóðs í Noregi er bara alveg ágæt — en samt sem áður er 100% arður af umframrentunni látinn renna í ríkissjóð. Þetta eigum við að gera líka. Þetta snýst um að þjóðin fái arð af auðlind sinni.

Í norsku vatnsafli myndast töluverð auðlindarenta. Þar er hún skattlögð með auðlindarentuskatti sem nemur 58% af hagnaði umfram eðlilegan hagnað. Til viðbótar þessu gjaldi eru greidd nýtingargjöld til sveitarstjórnarstigsins. Ég tel það reyndar skynsamlegt að hluti af auðlindarentunni renni til nærsamfélagsins og hef flutt um það þingsályktunartillögu hér á þessu þingi. Sú tillaga er til meðferðar hjá hv. atvinnuveganefnd.

Hæstv. ráðherra hefur gefið í skyn í viðtölum og hreinlega sagt í grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag að breytingar á veiðigjaldinu sem verði kynntar í haust verði þess eðlis að skattleggja hagnað sérhvers fyrirtækis í stað þess að leggja á einfalt gjald. Ég vil vara við þeirri leið. Aukin skattlagning hagnaðar dregur úr hvata til góðs og hagkvæms rekstrar. Skattlagning auðlindarentu gerir það ekki. Slík breyting væri efnahagslega mjög óskynsamleg. Ef slíkur skattur er lagður á útgerðir eingöngu eykst sá hvati sem fyrir er í kerfinu að útgerðir með fiskvinnslu færi hagnaðarmyndunina yfir í fiskvinnsluna með því að greiða lágt fiskverð. Það mun hafa síðan áhrif á kjör sjómanna.

Sú leið ber líka í sér þá hættu að fyrirtæki með góða endurskoðendur og með góða sérfræðinga í skattalegum aðgerðum muni ekki greiða gjaldið eða ekki greiða það að fullu. Ég vara við þessum fyrirætlunum. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að menn ætli að fara nákvæmlega eftir óskum hagsmunaaðila hvað þetta varðar, því þetta er leiðin sem LÍÚ hefur kallað á og viljað fara. Þarna er ekki horft út frá hagsmunum þjóðarinnar, því réttlætismáli sem auðlindagjaldið á að byggjast á.

Mér finnst einnig að ekki sé hægt að sættast á róttækar breytingar á fyrirkomulagi auðlindanýtingar og gjaldtöku fyrr en ákvæði um eignarhald á auðlindinni er komið í stjórnarskrá. Þjóðaratkvæðagreiðsla um efnisatriði nýrrar stjórnarskrár á síðasta kjörtímabili leiddi í ljós afgerandi stuðning þjóðarinnar við ákvæði um ævarandi þjóðareign á náttúruauðlindum. Þar er áskilið að nýtingarrétti verði aðeins úthlutað á jafnræðisgrundvelli til hóflegs tíma gegn fullu gjaldi og með gagnsæjum og hlutlægum hætti.

Í landsfundarsamþykkt Samfylkingarinnar segir, með leyfi forseta:

„Brýnasta verkefnið í auðlindamálum er að fylgja þessari niðurstöðu eftir og innleiða heildstæða auðlindastefnu á forsendum sjálfbærrar þróunar þannig að þjóðin njóti arðsins af auðlindum sínum til uppbyggingar.

Álagning veiðigjalds sem tekur mið af reiknaðri auðlindarentu í sjávarútvegi er skref í þá átt að skipta umframarðinum sem sérleyfi til nýtingar verðmætrar auðlindar í þjóðareign skapar. Mikilvægt er að næstu skref í sjávarútvegsmálum taki mið af grundvallarforsendum auðlindaákvæða“ — eins og hugmyndir nýju stjórnarskrárinnar gerðu ráð fyrir. „Þessar sömu forsendur voru rökstuddar í skýrslu auðlindanefndar árið 2000, teknar upp í skýrslu auðlindastefnunefndar um heildstæða auðlindastefnu fyrir Ísland og nutu afgerandi stuðnings í […] þjóðaratkvæðagreiðslu um efnisatriði í nýrri stjórnarskrá.

Það er mikilvægt að starfsumhverfi auðlindagreina, hvort sem er í sjávarútvegi eða orkugeiranum, sé hagstætt þannig að skilyrði skapast til að hámarka auðlindaarðinn öllum til hagsbóta. Samfylkingin ítrekar að þar sem því verður við komið náist markmið um hagkvæmustu nýtingu, hámarksarðs af auðlindinni, rekstrarhæfi til langs tíma, nýliðun og atvinnufrelsi best með því að úthluta nýtingarrétti á viðskiptalegum forsendum þar sem markaðsverð hans kemur fram við úthlutun og auðlindarentan verður sýnileg.“

Um þessi mál er fjallað betur í samþykktum Samfylkingarinnar. En af því tíminn er að renna út vil ég ítreka að mikilvægt er að veiðigjald endurspegli virði auðlindarinnar fyrir fyrirtæki sem nota hana og þjóðarinnar sem lætur hana af hendi. Þá er mikilvægt að kerfið sé einfalt og það er einmitt einn besti kostur núverandi fyrirkomulags, þ.e. eins og það var sett fram í lögum sem nú er verið að koma með breytingartillögu við.

Það er umhugsunarefni og það þarf að veita því athygli hvernig forseti lýðveldisins fer með þessi lög og taka tillit til röksemda hans. Ég vil benda á það. Ein af röksemdum hans fyrir því að hann skrifaði undir lögin, þrátt fyrir 35 þús. undirskriftir þar sem því var mótmælt þegar veiðigjöldin voru lækkuð umtalsvert, var að um bráðabirgðaákvæði væri að ræða. Nú er aftur um bráðabirgðaákvæði að (Forseti hringir.) ræða. Því hljótum við að spyrja hvort forseti lýðveldisins mun skrifa undir.

Virðulegi forseti. Ég legg til að fjárlaganefnd (Forseti hringir.) fái að fjalla um þetta frumvarp einnig, ekki aðeins atvinnuveganefnd.