143. löggjafarþing — 100. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[22:04]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Mér datt í hug þegar ég var að hlusta á hana hvort það gæti verið að ef nýja frumvarpið, sem liggur fyrir um opinber fjármál, væri orðið að lögum hvort hægt væri að gera það sem hér er verið að gera, bara yfirleitt, að koma fram með slíka breytingu á fjárlögum sem voru samþykkt fyrir fjórum mánuðum. Ég játa hreinlega að ég er ekki búin að lúslesa þetta nýja frumvarp þannig að ég er ekki viss um það, en ég hef efasemdir um það.

Mig langar líka að koma aðeins inn á aðferðafræðina sem notuð er í þessu nýja frumvarpi, þ.e. að heildarveiðigjöldin séu reiknuð sem hlutfall af EBT-hagnaðinum þar sem ekki er eingöngu verið að nýta sér frádráttinn sem skapast af tekjum af fiskveiðum. Fjármagnskostnaður, alveg sama hvernig hann er til kominn, er í rauninni frádráttarbær. Ég velti því fyrir mér hvort þingmaðurinn telji að sú breyting sem hér er verið að gera gæti orðið hvati til aukinnar skuldsetningar aftur í greininni, sem mundi þá lækka veiðigjöldin á ný, og hvort það gæti ekki leitt af sér að kvótaverð hækkaði og áfram yrði um aukna samþjöppun að ræða í greininni. Þetta er eitthvað sem ég held að við þurfum að hafa í huga þegar við breytum reiknireglunum eins og er augljóslega verið að gera í frumvarpinu frá því sem var. En mig langar að vita hvað þingmaðurinn telur um þetta.