143. löggjafarþing — 100. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[22:09]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er í annað sinn á kjörtímabilinu sem ríkisstjórnin leggur fram frumvarp um veiðigjöld og þetta er í annað skipti sem hún leggur fram frumvarp um að lækka veiðigjöld. Hún boðar að leggja fram frumvarp í haust um breytingu á fiskveiðistjórnarkerfinu sem fólk hafði skilið sem svo að ætti að koma í vetur en ríkisstjórninni hefur ekki tekist að koma því saman. Ég hef grun um að þegar það kemur verði enn og aftur lækkun á veiðigjöldum eða lækkun á þeim tekjum sem þjóðin, við öll, hefur af því að útgerðin nýtir sér auðlind þjóðarinnar sem er fiskurinn í sjónum.

Sumir stjórnarliðar og hæstv. ráðherrar verða stundum svolítið óþolinmóðir, finnst mér, þegar við ræðum það hér að enn sé verið að lækka þessi gjöld. Hæstv. fjármálaráðherra sagði í umræðu hér í gær að vandi vinstri flokkanna væri sá að þegar kæmi að umræðu um veiðigjöld þá litu þeir á afkomu útgerðarinnar sem einhverja skúffu, einhvern pott sem hægt væri að ganga í og skammta sér af. Þetta er alrangt, virðulegi forseti, þetta er hreint ekki rétt. Við erum hins vegar þeirrar skoðunar að útgerðin eigi að borga fyrir aðgang að auðlindinni.

Ég tel að það eigi að vera einfaldlega þannig að það sé kostnaður fyrir útgerðina sjálfa að fá að veiða, að veiðigjöld séu rétt eins og önnur aðföng, eins og veiðarfæri eða launakostnaður, þ.e. það sem kostar að gera út, og þá eigi gjaldið sem þarf að greiða þjóðinni fyrir afnot af auðlindinni að vera í þeim pakka. Ég tel að það sé heppilegast að gera það á uppboði. Þá mundi það verða eins og hagfræðingurinn Jón Steinsson segir í ágætlega skorinorðri grein á Eyjunni í gær, útgerðin mundi sjálf ákveða hvert verðið væri. Það hlýtur að vera best vegna þess að hún veiðir fiskinn, hún veit hvernig landið liggur, hvort eitthvað hefur breyst frá því fyrir tveimur árum eða ekki og hún veit hvað hún treystir sér til að borga fyrir hvert kíló af fiski sem hún ætlar að veiða.

Ég velti því næstum því fyrir mér, virðulegi forseti, hvort það sé ekki hálfkjánalegt að við stöndum hér og segjum: Já, ég tel að þetta eigi að vera 11 kr. Þetta voru 33, það er búið að lækka þetta um tvo þriðju og við skulum hafa þetta 11 kr. — Nei, út af fyrir sig erum við ekki svo vitlaus, sem betur fer, en það á að nota tölur um afkomu útgerðarinnar. Það átti að nota tölur um afkomu útgerðarinnar frá 2012. Nú virðist koma upp í umræðunni að 2012 hafi gengið svo vel að menn eru eiginlega að flýta sér að sleppa því ári og nota frekar 2013 því að þá gekk verr og þess vegna yrðu veiðigjöldin væntanlega lægri ef þær tölur yrðu notaðar til viðmiðunar.

Einmitt það að verðið sé ekki einfaldlega ákveðið á markaði sýnir svo vel að við erum alltaf að breyta aðferðunum, við erum að breyta viðmiðinu. Þá verður það alltaf þannig að stjórnmálamenn, hvort sem þeir eru í þingsal eða einhver einn ráðherra, fikta í verðlagningunni.

Það eru nokkuð mörg ár síðan þegar ekki voru fiskmarkaðir í landinu heldur var verðlagsnefnd. Ég man ekki þá tíð að menn hafi verið að ræða það í þingsal á hvaða verði útgerðin ætti að selja fiskinn. Það voru einhverjar nefndir sem hittust og sögðu: Já, fiskur á að kosta þetta. Mönnum þótti algjörlega út í hött að það gæti nokkurn tíma breyst. Hvernig ættu menn að geta gert út ef þeir vissu ekki hvað þeir fengju fyrir fiskinn? Það er ekkert voða langt síðan þetta var. Ætli það hafi ekki verið upp úr 1980 sem fiskmarkaðir komust hér á eða eftir það? Hver er munurinn?

Við erum að fara með þennan mesta, stærsta og mikilvægasta atvinnuveg landsins eins og gert var í Sovét. Við erum að handstýra verðinu. Við erum með puttana í hvernig verðlagningin er. Mér finnst það næstum því fyrir neðan okkar virðingu.

Ég er þeirrar skoðunar að verðið eigi að ákveða á markaði og hafandi sagt það þá kemur náttúrlega einhver og segir: Já, en þú stóðst að því á síðasta kjörtímabili að þetta yrði gert öðruvísi. — Já, já, mér er fullkunnugt um það, ég gerði það, en það var út af því að það náðist ekki samkomulag um þá leið sem ég tel besta og þá ákvað ég að styðja næstbestu leiðina sem er einmitt sú, eins og kerfið er núna og menn vilja breyta, að hafa sérstakt veiðigjald. Þetta sérstaka veiðigjald er þannig reiknað út og allt í kringum það að það er mjög viðkvæmt fyrir verðvísitölum þannig að ef afkoman í greininni versnar lækkar sérstaka veiðigjaldið.

Á síðasta kjörtímabili, virðulegi forseti, var upphæð sérstaka veiðigjaldsins ákveðin þannig að gjaldið væri mjög viðkvæmt fyrir verðstuðlum. Fyrsta verk núverandi ríkisstjórnarinnar var hins vegar að lækka þetta sérstaka veiðigjald þannig að það skilaði 6,5 milljarða lægri tekjum í ríkissjóð á þessu ári en áætlað hafði verið. Sú lækkun sem lögð var til fyrir tæpu ári síðan eða á sumarþinginu í fyrra var ekki lögð til út af því að hagur útgerðarinnar hefði versnað, hún var lögð til til að gleðja og þóknast útgerðinni. Það var bara þannig. Eins og kom fram í ræðum fyrr í dag höfðu núverandi stjórnarflokkar lofað því að þeir mundu gera það og þeir efndu það loforð þó að þeir efni ekki loforðið um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræðurnar að Evrópusambandinu. Það er eins í þessu og öðru, þeir tína til það sem þeim þóknast og gleyma hinu.

Nú á að halda áfram að lækka veiðigjaldið sem nemur meira en 1 milljarði á þessu ári og 2 milljörðum á því næsta.

Virðulegi forseti Það er sannarlega fagnaðarefni í þessu, það er kannski nokkuð sterkt til orða tekið en ég lít samt svo á að það sé fagnaðarefni að nú eigi að leggja veiðigjaldið á eftir tegundum en ekki á einu meðalverði. Það er sannarlega gott og verður þá nær því sem væri ef verð væri ákveðið á markaði vegna þess að þá mundu útgerðarmenn væntanlega bjóða mismunandi upphæðir í hinar mismunandi tegundir þannig að það nálgast það aðeins. Það er ekkert annað en rétt að gleðjast yfir því ef búið er að ná þeim tökum á reiknikúnstunum að hægt sé að gera þetta og allt gott um það að segja.

Hins vegar líst mér ekkert á þær hugmyndir sem koma fram í tillögunum og hæstv. sjávarútvegsráðherra ýjaði að hér í dag og kemur ekki síður fram í grein eftir hann í Fréttablaðinu, að í framtíðinni eigi annars vegar að vera aðgangsgjald og hins vegar eigi að leggja á einhvern sérstakan tekjuskatt. Virðulegi forseti, sérstakur tekjuskattur er ekki greiðsla fyrir að nýta auðlindina. Ég er ekkert á því að útgerðin eigi að borga einhvern sérstakan tekjuskatt, hún á bara að borga tekjuskatt eins og öll önnur fyrirtæki í landinu vegna þess að þegar öllu er á botninn hvolft er útgerð eins og hver annar rekstur. Hins vegar á hún að greiða fyrir aðgang að auðlindinni og það á að vera hluti af hennar kostnaði.

Virðulegi forseti. Við höfum samfélag að reka og til þess þurfum við sameiginlega sjóði. Við erum ekki endilega sammála um hvað þessi sameiginlegi sjóður eigi að vera stór en ég geri samt sem áður ráð fyrir því að við séum öll sammála um að hann þurfi að vera stærri en hann er í dag. Við erum í vandræðum. Við þurfum að greiða gífurlegar fjárhæðir, tugi milljarða, í vexti á hverju ári. Það er afleiðing samfélagshrunsins. Við erum öll sammála um að það þarf að laga heilbrigðiskerfið, þar er búið að skera inn að beini. Við þurfum að byggja nýjan spítala, það kostar tugi milljarða. Það vantar peninga í innviði ferðaþjónustunnar. Ríkisstjórnin henti frá sér milljörðum út af virðisaukaskatti á gistiþjónustu og fabúlerar svo bara um einhvern náttúrupassa sem enginn skilur upp né niður í. Það vatnar peninga til rannsókna og þróunar. Það vantar peninga til að styrkja sprotafyrirtæki og kvikmyndaiðnað, bara til að nefna dæmi um fjárfestingu sem skilar sér til lengri tíma sem við getum unnið að og mundum hafa meira vald yfir en ferðaþjónustunni. Höfum við áttað okkur á því að við erum að byggja hér upp stóran atvinnuveg sem getur hrunið eins og þorskstofnarnir hrynja? Ferðaþjónustan er afskaplega viðkvæmur atvinnuvegur. Samt sem áður, til að gera það og hafa þann atvinnuveg, þurfum við að styrkja innviðina en ríkisstjórnin hendir frá sér peningum sem áttu að fara í það.

Virðulegi forseti. Þeir sem þurfa að standa undir samfélagskostnaðinum eru þjóðin, það er fólkið og það eru fyrirtækin í landinu. Ef fyrirtækin greiða ekki sinn skerf, ef sjávarútvegurinn greiðir ekki sinn skerf eða ferðaþjónustan greiðir ekki sinn skerf, ef við förum ekki að fá betra verð fyrir rafmagnið, hverjir þurfa þá að greiða þetta? Þá erum það við, fólkið í landinu. Það er það sem mér finnst þessi ríkisstjórn verði að fara að skilja. Hún má ekki líta þannig á atvinnuvegina að þeir hafi ekki burði til þess. Hún má ekki hafa svo mikla minnimáttarkennd fyrir hönd fyrirtækjanna í landinu að þau geti ekki staðið undir samfélagsþjónustunni með okkur hinum.

Lokaorðin, miðað við það sem á undan er komið í lækkun á veiðigjöldum og miðað við að afkoma útgerðarinnar hefur versnað frá því sem talið var, eru þau að það ætti kannski að hækka veiðigjöldin um svona 4,5 eða 5 milljarða til þess að taka tillit til þessa 1 milljarðs, sem hún kemur verr út núna en leit út fyrir, því að veiðigjöldin voru lækkuð um 6,5 milljarða (Forseti hringir.) í fyrra af engri ástæðu.