143. löggjafarþing — 100. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[22:24]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Við erum sammála að mörgu leyti en kannski ekki alveg sammála um hvernig á að nálgast það að ná hagnaði af auðlindinni okkar, sjávarauðlindinni, til þjóðarinnar.

Mig langar að heyra frá hv. þingmanni hvort hún sjái fyrir sér að hægt væri að fara með aðrar auðlindir, sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar, á sama hátt og hún talar um varðandi uppboð á aflaheimildum. Eru einhverjar aðrar auðlindir sem við eigum sem þjóð sem væri hægt að láta lúta sömu lögmálum og verið er að tala um þarna, að lögmál markaðarins ráði í uppboði?

Svo vil ég nefna að sem betur fer hefur verið aflaaukning í þorski undanfarin tvö fiskveiðiár. Árin 2012–2013 fengu útgerðir í landinu aflaaukningu í þorski upp á 20 þúsund tonn sem gerir miðað við verð á varanlegum heimildum, sem er um 2.300 kr. kílóið, ef því væri umbreytt, þær aflaheimildir seldar, fengist fyrir það á þessu verði 46 milljarðar sem útgerðin fékk þá án þess að greiða neitt fyrir, bara í formi aflaaukningar. Á síðasta fiskveiðiári var aukning í bolfiski 14 þúsund tonn sem gerir með sömu reikniformúlu 32 milljarða. Mig langar að heyra frá hv. þingmanni hvort það teljist ekki til tekna fyrir sjávarútveginn í landinu að fá þessa viðbót og hafa tekjur af og þurfa ekki að greiða neitt fyrir.