143. löggjafarþing — 100. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[22:31]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef það ekki á hraðbergi hvernig mætti búa til ramma utan um það ef veiðiheimildir færu á uppboð, en það er hægt að sníða ramma utan um það. Það væri hægt að setja kvóta á landsvæði. Það væri hægt að segja að bátar undir ákveðinni stærð þyrftu ekki að kaupa kvóta. Við gætum ákveðið það og það væri pólitísk ákvörðun. Mér finnst allt annað að stjórnmálamenn og við hér tökum ákvarðanir af því taginu en að við séum með puttana í því hvernig eitthvert verð er nákvæmlega reiknað út, og ég tala nú ekki um þegar við freistumst til þess að fara að sleppa einu ári eða breyta reiknireglunni eða gera þetta og hitt. Það er allt annar hlutur en að búa til ramma utan um það og segja að þessir séu undanþegnir eða eitthvað því um líkt. Ég hef ekki á hraðbergi hvernig ætti að gera það en ég veit að það er hægt, ég er alveg handviss um það.

Síðan hafa ég og fleiri lýst áhyggjum af því hvernig svo virðist sem verið sé að létta fjárhagslegum byrðum af öllum sem mega sín meira í landinu og skilja hina eftir. Mér hefur hins vegar skilist á hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. menntamálaráðherra að ríkiskassinn sé bólginn af peningum, þannig að það skipti engu máli þótt það fari milljarður þarna í útgerðina eða eitthvað annað. Þeir munu borga (Forseti hringir.) 80 milljarða á næstu fjórum árum í húsnæðisleiðréttingar, sem kallaðar eru. (Forseti hringir.) Sumir sem fá það þurfa ekkert á því að halda.