143. löggjafarþing — 100. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[22:40]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að svara þessu með því að segja: Vilji er allt sem þarf. Ég held að ef fólk vilji ná sátt um það þá náist sátt um það.

Mig langar hins vegar að leggja svolítið út frá því sem hv. þingmaðurinn sagði. Hún sagði: Nú eru allir sammála því að það eigi að vera auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Það er nefnilega svolítið merkilegt að nú séu allir sammála því. Það var ekki svo áður fyrr.

Nú eru líka allir sammála því að það eigi að greiða eitthvert auðlindagjald en það er spurning hvað það á að vera lágt. Þegar þetta auðlindagjald eða aðgangsgjald, eða hvað í ósköpunum sem menn finna upp á að kalla það núna, var samþykkt, sem ég held að séu lög nr. 84/2002, voru margir sem sögðu: Þetta er allt, allt, allt of lágt gjald. Og að það hefði verið algjörlega lægsti samnefnari sem náðist.

Núna sýnist mér að menn séu eftir alla þá baráttu — það voru ekki allir sammála um að það ætti að vera auðlindagjald en svo var það var sett á, mjög lágt, ég man eftir þessari umræðu, þetta þótti mjög lágt gjald — að lækka gjaldið með sérstaka gjaldinu og öllu niður í sömu upphæð, heildarupphæð, og það átti að skila á sínum tíma. Það finnast mér ekki framfarir. Ég held að eftir nokkur ár verði líka allir sammála um að það sé skömm að því ef mikilvægasti atvinnuvegur landsins leggur ekki meira til samfélagsins en lagt er til að hann geri núna.