143. löggjafarþing — 100. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[22:42]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Maímánuður nálgast óðfluga og þinglok boðuð samkvæmt starfsáætlun. Það er líklega nokkurn veginn ljóst núna að þau fyrirheit sem stjórnarflokkarnir höfðu gefið um að nú í vetur yrði lagt fram frumvarp um heildarendurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu munu ekki standast. Það er kannski vandræðalegt í sjálfu sér fyrir hæstv. ríkisstjórn að hafa gefið slík fyrirheit án þess að geta staðið við þau, en það sýnir líka að málið er mjög flókið. Það þarf svo sem ekkert að segja okkur um það sem tókum þátt í umræðu um þau mál á síðasta kjörtímabili. Ég lít þá á það sem tækifæri fyrir hæstv. ríkisstjórn til að vinna þau mál betur.

Það verður hins vegar að segjast að það er ankannalegt þegar segja má að framtíðarsýnina skorti, að hún liggi ekki fyrir um hvert eigi að stefna með þennan málaflokk. Við höfum heyrt hæstv. ráðherra og hv. þingmenn ámálga skoðanir sínar á því hvert beri að stefna, en þá er hálfámátlegt að ræða hér einn anga kerfisins þannig að umræðan um þetta frumvarp mótist af því að við vitum ekki hver framtíðarsýnin er. Við höfum ekki átt umræðu um þá sýn. Raunar hefur líka komið fram í fjölmiðlum að innan stjórnarflokkanna sé ekki einu sinni sátt um þetta litla frumvarp. Við eigum væntanlega eftir að átta okkur betur á því eftir því sem umræðu um málið vindur fram, en allt tel ég þó að þetta sýni bæði að málið er flókið og erfitt að ná sátt um það þannig að þó að hér sé að einhverra mati ekki stórmál á ferðinni er þetta samt stórt mál. Það varðar lykilatvinnuveg þjóðarinnar sem og ýmis grundvallaratriði. Um þau grundvallaratriði áttum við hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir spjall áðan og það lýtur að því hvernig við förum með auðlindir okkar í lagarammanum, hvernig við lítum á þessar auðlindir, hvort við lítum á þær í raun sem sameign þjóðarinnar, eins og við höfum margoft rætt í þessum ágæta sal, og hvort við teljum þá ekki eðlilegt að af auðlindunum sé tekin ákveðin renta sem skili sér til þjóðarinnar, inn í okkar sameiginlegu sjóði.

Hér hefur aðeins verið tæpt á tekjutapi ríkissjóðs og ég vil segja í upphafi að auðvitað á ekki að líta svo á að við sem ræðum hér um tekjutap ríkissjóðs, ég hef meðal annars gert það nú þegar, lítum svo á að málið snúist fyrst og fremst um tekjur ríkissjóðs og hvað ríkissjóður þurfi frá sjávarútveginum. Auðvitað snýst það ekki um það. Verði þetta frumvarp hins vegar að lögum þýðir það að tekjur ríkisins dragast saman um hartnær 2 milljarða á ársgrundvelli. Sú lækkun kemur til viðbótar þeirri lækkun veiðigjalda sem varð hér í sumar. Við munum auðvitað öll að það var forgangsmál ríkisstjórnarinnar að lækka veiðigjöldin um 6,5 milljarða á ársgrunni. Þegar við setjum það í samhengi við þá fjárlagavinnu sem svo fór fram þar sem stór orð voru látin falla um upphæðir, sem má kalla smáupphæðir miðað við það sem við ræðum hér, allt með það fyrir augum að hér þyrfti að ná hallalausum fjárlögum, voru lagðar fram og samþykktar tillögur um að hækka álögur á námsmenn í háskólum um sem nemur um 180 milljónum. Það mátti hækka komugjöld á heilsugæsluna um 90 milljónir til að ná hallalausum fjárlögum, það átti að rukka fólk fyrir að leggjast inn á spítala og ná þannig í 200–300 milljónir, með komugjöldum á spítala. Allt var þetta til að ná markmiði um hallalaus fjárlög. Þá mátti ekkert út af bregða.

Ég rifjaði upp í gær að þegar stjórnarandstaðan kom í veg fyrir komugjöld á spítala lá við að hér færi allt á hliðina af því að nú væru markmið um hallalaus fjárlög í uppnámi. Auðvitað hlýtur manni að finnast það sérstakt að þegar ákveðið er að lækka álögur á útgerðina um 2 þús. milljónir á ársgrunni þurfi ekki einu sinni að ræða lengur um hallalaus fjárlög. Þá koma bæði hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. menntamálaráðherra og segja: Ja, þetta er svo stórt að við teljum enga ástæðu til að setjast eitthvað sérstaklega yfir það þó að þessir 2 milljarðar hverfi út úr grunninum því að þetta er hvort eð er svo stór grunnur að við þurfum ekki einu sinni að ræða það.

Sami hæstv. menntamálaráðherra fór í mál við námsmenn til að ná fram auknum framvindukröfum á námsmenn til að ná fram tugmilljónasparnaði í Lánasjóði íslenskra námsmanna. Hann fór í mál við námsmenn til að ná því fram en telur ekki að setjast þurfi yfir þetta. Það voru raunar námsmenn sem fóru í mál við hann en það var ekkert gefið eftir heldur áfrýjað og farið alla leið með það mál. Það er best að hafa þetta rétt.

Það er ekki horft á það að á þremur árum nemur tekjutap ríkissjóðs alls vegna lækkunar veiðigjalda frá fyrra ári og núna 18,8 milljörðum.

Staða ríkissjóðs er ekki aðalmálið. Aðalmálið er að manni finnst viðbrögð ríkisstjórnarinnar sérkennileg því að krónurnar eru greinilega metnar á mjög mismunandi hátt eftir því hvort þær koma frá námsmönnunum eða útgerðinni. Sársaukamörkin liggja greinilega annars staðar hjá námsmönnunum og sjúklingunum en útgerðinni. Þetta held ég að sýni ekkert annað en meðvitaða stjórnmálastefnu, stjórnmálastefnu sem er ekki ætlað að draga úr misskiptingu, stjórnmálastefnu sem er ekki ætlað að auka jöfnuð, þvert á móti, enda hafa engin svör borist frá ríkisstjórninni í þeim efnum.

Ef við förum aðeins frá þessum aukaverkunum, stöðu ríkissjóðs, getum við aðeins rætt hér um hugmyndafræði frumvarpsins. Ég hef aðeins velt því upp fyrr í kvöld í andsvörum, og nú liggur fyrir að ekki eru allir á einu máli í þessum sal um nákvæmlega hvernig sé eðlilegast að innheimta rentu af auðlindinni fyrir þjóðina, en út frá greinargerðinni með frumvarpinu tel ég liggja fyrir að það er verið að hverfa frá þeirri grundvallarhugmyndafræði að einangra auðlindarentu eða viðbótarhagnað og horfa þannig á réttmætan hlut eiganda auðlindarinnar í henni. Í gildandi lögum um veiðigjöld er sagt, með leyfi forseta, að annar tilgangur laganna sé að „tryggja þjóðinni í heild hlutdeild í þeim arði sem nýting sjávarauðlinda skapar“.

Í samræmi við þann tilgang voru í þeim lögum skýr tengsl á milli auðlindarentu í fiskveiðum og veiðigjaldanna og þau fjölluðu fyrst og fremst um það hve stóran hlut sá eigandi auðlindarinnar fengi af umframarðinum eða rentunni og hve stóran hluta útgerðir fengju til viðbótar við allan rekstrarkostnað og eðlilegan hagnað af þeim fjármunum sem þær hafa lagt fram.

Mér sýnist að með þessari aðferðafræði, sem miðast þá við það að heildarveiðigjöld séu reiknuð sem hlutfall af EBITDA-hagnaði sé horfið frá þessari hugmyndafræði. Eins og ég sagði er gjaldtakan í gildandi lögum miðuð við umframarðinn eða rentuna en EBITDA-hagnaður er tekjur af fiskveiðum að frádregnum afskriftum og fjármagnsliðum, svo sem vöxtum, verðbótum og gengismun. Það er eingöngu miðað við tekjur af fiskveiðum. Til frádráttar reiknast sem sagt fjármagnskostnaður og vextir, svo sem vegna kaupa félaga á verðbréfum og eignarhlutum í öðrum fyrirtækjum.

Ef við skoðum 535 milljarða heildareign sjávarútvegsfyrirtækja samkvæmt yfirliti Hagstofu Íslands í árslok 2012 sjáum við að 330 milljarðar af því liggja í reiðufé, áhættufjárfestingum og öðrum eignum en rekstrarfjármunum. Þetta er aðeins önnur sýn á þann stofn sem er verið að tala um og allt önnur sýn en sú að miðað sé fyrst og fremst við þennan umframarð. Eins og við ræddum er það hins vegar nokkuð sem ég held að við höfum öll verið sammála um að þyrfti að skoða sérstaklega út frá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Sú endurskoðun hófst raunar hjá veiðigjaldsnefnd, þ.e. hvernig hægt væri að innheimta þessa rentu af meiri sanngirni. Það liggur fyrir, og við getum öll viðurkennt það, að fyrirtækin eru misvel í stakk búin til að standa undir greiðslu veiðigjalda. Þar horfum við á stærstu fyrirtækin sem eru í sérflokki, þrjú þau stærstu greiddu sér um 25 milljarða í arð árið 2012. Síðan eru smærri fyrirtæki sem er eðlilegt að horfa til á annan hátt.

Ég hefði viljað sjá að það grundvallarprinsipp að við horfðum á umframarðinn væri áfram haft til hliðsjónar við innheimtu veiðigjalda. Það er kannski grundvöllurinn.

Ég nefndi áðan lög um stjórn fiskveiða þar sem segir í 1. gr., með leyfi forseta:

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.“ — Síðan er sagt, sem er mjög mikilvægt: „Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

Þar erum við komin að þessari umræðu sem við áttum hérna áðan sem hefur breyst. Þar hafa víglínur færst til á undanförnum árum og áratugum að því leytinu til að langflestir, a.m.k. þeir sem taka þátt í hinni opinberu umræðu, eru sammála um að auðlindirnar, hvort sem það eru orkuauðlindir, vatnsföllin, jarðhitinn eða fiskurinn, hvaða nafni sem það kann að nefnast, eigi að vera sameign þjóðarinnar.

Á því grundvallaðist hugmyndafræðin, getum við sagt, um veiðigjöldin, þ.e. að eðlilegt væri að aðilar í útgerð sem fengju þá í raun leyfi til að yrkja sameiginlegu auðlindina greiddu gjald. Fyrst var samþykkt eitthvert grunngjald. Sérstaka veiðigjaldið miðaðist svo við að taka ákveðið hlutfall af umframarðinum, rentunni. Þá miðast hugsunin við það að almenningur fái ekki aðeins eitthvert grunngjald fyrir það að einhverjir aðilar fái leyfi til að nýta auðlindina heldur hlutdeild í hagnaðinum af því. Það er sú hugsun sem ég hef áhyggjur af að hverfi og sé rofin í þessu frumvarpi. Þetta er nokkuð sem ég tel að verði að skoðast í nefndinni því að þetta er sú hugsun sem ég held að snúist að einhverju leyti um þessi grundvallaratriði ef við meinum eitthvað með því að auðlindir eigi að vera sameign þjóðarinnar. Ef við meinum eitthvað með því að við eigum öll fiskinn í sjónum verður almenningur í landinu á einhvern hátt að njóta þess með beinhörðum hætti. Einfaldasta leiðin til þess er sú að útgerðin skili sínu í hina sameiginlegu sjóði. Hugsunin á bak við það er að einhverju leyti að ríkið sé þá á einhvern hátt ráðsmaður auðlindarinnar, annist hana í umsjá þjóðarinnar.

Þetta er ástæðan fyrir því að við innheimtum veiðigjöldin, annars vegar þessi lækkun þeirra og hins vegar hin breytta hugmyndafræði. Ég tel að það rjúfi aðeins hina mikilvægu hugsun því að það hlýtur að verða þarna röklegt samhengi.

Hér hefur verið bent á að lækkun veiðigjalda sé eðlileg í ljósi verri afkomu sjávarútvegsins. Í fyrsta lagi má benda á að gögnin um þá afkomu séu kannski ekki fullnægjandi, en við megum heldur ekki gleyma því að gengisfall krónunnar á sínum tíma skilaði mjög miklu fyrir sjávarútveginn. Hækkandi verð hefur líka mjög hjálpað þessari grein sem hefur gert það að verkum að hún hefur staðið vel á undanförnum árum. Það hefur verið staðfest að árið 2012 var metár í sjávarútvegi með 80 milljarða framlegð. Lakari afkoma nú, ja, við vitum ekki nákvæmlega hversu miklu lakari hún er en segjum að hún sé lakari upp á 25%, eins og hér hefur verið fleygt, það er samt framlegð upp á 60 milljarða. Það er eigi að síður sterkur grunnur sem er eðlilegt að innheimta sanngjarna rentu af.

Það segir líka sitt að verð í kvótaviðskiptum að undanförnu bendir ekki til verri afkomu eða minni trúar á framtíðina. Voru veiðiheimildir Stálskipa ekki seldar á meira en 8 milljarða? Ef við horfum til framtíðar er mjög erfitt að spá fyrir um það og ég hef raunar haft talsverðar áhyggjur af því að íslensk stjórnvöld taki ekki nægjanlega öflugt á þeim ógnunum sem við er að eiga gagnvart íslenskum sjávarútvegi. Ég nefni sérstaklega súrnun sjávar þar sem er verulega mikil þörf á því að íslensk stjórnvöld bæti í vöktun og rannsóknir á ástandi sjávarins. Það er stórkostlegt hagsmunamál fyrir íslenskan efnahag að við fylgjumst betur með lífríki sjávar. Í umræðu sem ég hef óskað eftir við hæstv. forsætisráðherra um loftslagsbreytingar, ég trúi ekki öðru en að við munum ná að eiga hana fyrir þinglok, vænti ég þess að ég muni heyra meira um stefnu stjórnvalda þegar kemur að þessu. Hér eru miklir hagsmunir í húfi.

Ef við lítum fram hjá umhverfisógnunum sem er erfitt að segja til um hvaða áhrif muni hafa liggur líka fyrir að matarverð muni ekki lækka á næstunni. Sjálfur hæstv. forsætisráðherra hefur rætt um tækifærin sem felist í því að Ísland geti selt matvæli þannig að ég held að þar séu tækifæri fyrir íslenska útgerð ef við kjósum að líta þannig á það.

Þó að ég hafi í raun ekki tíma til þess langar mig að nefna að lokum að ég tel tilgang þeirra breytinga sem eru boðaðar með þessu frumvarpi jákvæðan, hvað varðar það að endurskoða þorskígildin sem mælieiningu þannig að hér sé skoðuð gjaldtaka út frá mismunandi tegundum og mismunandi tilkostnaði við veiðar. Í greinargerðinni er bent á að það þurfi frekari gögn til að undirbyggja þessa skiptingu og þessa greiningu. Ég held að það sá jákvætt að sú leið sé farin en hins vegar sætir furðu að slík greining og frekari gögn liggi ekki fyrir í ríkari mæli, til að mynda hjá samtökum útgerðarmanna. Það er umhugsunarefni hvort ekki þurfi líka að fara í frekari gagnasöfnun um þennan geira. Það vekur upp spurningar um rannsóknir á atvinnuvegunum sem ég hef því miður ekki tíma til að fara í hér.