143. löggjafarþing — 100. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[23:00]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar síðustu spurningu hv. þingmanns um hvort þjóðin verði sátt þá liggur fyrir að þjóðin, ef hægt er að tala um það, að minnsta kosti stór hluti hennar, var mjög ósátt við þá lækkun sem var samþykkt á þingi síðasta sumar af stjórnarmeirihlutanum á veiðigjöldum. Þeirri lækkun var mótmælt mjög harðlega.

Mér finnst þetta galli vegna þess að auðlindagjöld byggja á þeirri hugmynd að auðlindin sé sameign okkar allra. Þá finnst mér mikilvægt að sú hugmynd endurspeglist í gjaldtökunni, eins og ég fór yfir áðan, þannig að þjóðin eigi í raun hlutdeild í arðinum ásamt þeim sem yrkja auðlindina. Þegar við segjum: Auðlindin er sameign okkar allra, finnst mér mikilvægt að við séum með röklegt samhengi í því og gjaldtaka endurspegli á einhvern hátt þá pólitísku yfirlýsingu. Hún sé ekki bara pólitísk yfirlýsing og síðan greiði fyrirtækin tekjuskatt eins og hverjar aðrar sjoppur.

Varðandi þá hvata sem frumvarpið inniheldur tengist það í raun þeirri alþjóðlegu umræðu sem stendur yfir núna og snýst mjög um jöfnuð og ójöfnuð og hvernig æ meira fjármagn færist á æ færri hendur í heiminum. Það er auðvitað ekki bara umræða sem við eigum í á Íslandi, hún er í gangi um heim allan. Eitt af því mikilvægasta sem stjórnvöld á hverjum stað geta gert til þess að stuðla að jöfnuði og ætti að vera kappsmál stjórnvalda, bæði til að tryggja betra samfélag en líka til að tryggja öryggi og samfélagsframþróun, er að hafa regluverkið mjög skýrt og hvatana til að leggja sitt af mörkum til samfélagsins mjög skýra. Þá hvata eigum við að byggja inn í þessi kerfi. En fyrst og fremst held ég að hugmyndafræðilega sé mikilvægt að þessi tenging sé skýr til þess að við látum þá pólitísku yfirlýsingu, að auðlindin sé sameign þjóðarinnar, birtast og (Forseti hringir.) raungerast með einhverjum hætti.