143. löggjafarþing — 100. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[23:04]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er miður þegar umræðan er sett í þann farveg að við sem teljum eðlilegt að þeir sem fá einkaleyfi á því að yrkja sameinaðar auðlindir landsmanna leggi sitt af mörkum erum því miður gjarnan teiknuð upp sem einhverjir sérstakir óvinir sjávarútvegs, að við höfum ekki skilning á mikilvægi sjávarútvegs fyrir samfélagið, að við tölum á niðrandi hátt um þessa grein. Ég vil nota tækifærið hér og andmæla því algerlega. Að sjálfsögðu er sjávarútvegurinn mjög mikilvægur fyrir landið og miðin og okkur öll. Það sama á við um fleiri atvinnugreinar. Við getum nefnt sem dæmi ferðaþjónustuna sem mér fannst líka eðlilegt að greiddi hærri virðisaukaskatt en núverandi ríkisstjórn ákvað síðan að bakka með.

Þetta er hluti af pólitískri stefnu. Ég aðhyllist þá stefnu að eðlilegt sé að atvinnugreinarnar leggi sitt til samfélagsins í ljósi þess að þær nýta auðlindir sem við eigum öll saman og ekki síst í ljósi þess að íslenskt samfélag hefur gengið í gegnum gríðarlega erfiða efnahagslega tíma á undanförnum árum. Það er ekki ósanngjörn krafa að ætlast til þess að atvinnulífið leggi sitt af mörkum til að rétta samfélagið við ef við horfum á þann skort sem margar stofnanir samfélagsins búa við. Það er ekki ósanngjörn krafa.

En því miður hefur það verið kappsmál einhverra hv. þingmanna að reyna að draga þetta upp sem andstæður og maður er teiknaður upp sem sérstakur óvinur atvinnugreinar ef maður gerir þá eðlilegu og sanngjörnu kröfu að atvinnugreinarnar leggi sitt af mörkum til samfélagsins, rétt eins og ég geri þá réttmætu og sanngjörnu kröfu að við sem einstaklingar leggjum okkar af mörkum til samfélags sem var næstum farið á hausinn fyrir sex árum, ekki lengra síðan. Ég held að það verði ekki nokkur sátt um þessi mál nema við upplifum það sem þjóð að þannig sé það, að þeir sem fá einkaleyfi til að nýta sameignir okkar greiði fyrir það með eðlilegum hætti.