143. löggjafarþing — 100. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[23:12]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að núverandi ríkisstjórn átti sig ekki á því að hún er sjálf að gera greininni gríðarlegan óleik með því að ákveða að fara svona hart fram síðasta sumar með því að ná fram lækkun á veiðigjöldum upp á rúmlega 3 milljarða á síðasta ári og á sama tíma og af fréttum má ráða hafa einungis þrjú fyrirtæki náð að skila 28 milljarða kr. hagnaði, þrjú fyrirtæki. Þær fréttir komu mánuði eftir að þetta var samþykkt sem neyðarráðstöfun fyrir þau fyrirtæki vegna þess að þau væru öll á hvínandi kúpunni vegna veiðigjalda. Það er bara auðvitað ekki þannig og það hefur aldrei verið ætlun okkar sem teljum að eðlilegt sé að þeir sem sækja með sérleyfi um auðlindir greiði í sameiginlega sjóði. Þetta á algerlega að vera óháð öllu tali um fjármögnun hjá ríkissjóði sem slíkum. Við eigum að nýta þessa fjármuni til að styðja við atvinnugreinina, styðja við nýsköpun, styðja við uppbyggingu og annað til að örva hér hagvöxt algerlega óháð stöðu ríkissjóðs hverju sinni. Þetta snýst bara ekkert um það, prinsippið er allt annað.

Þess vegna finnst mér það skipta mjög miklu máli að okkur sé mætt með sanngjörnum hætti og menn séu til í þetta samtal við okkur. Ég bið hv. þingmann að segja mér hvernig hún hefur upplifað það í umræðunni í dag. Ég hef ekki upplifað það þannig að það sé í boði. Menn eru bara komnir inn á einhverja braut um það að þeir ætli að gera þetta, sama hvaða áhrif það hefur og sama þó að þeir séu að grafa undan réttlætisþætti málsins og þar með undan atvinnugreininni enn og aftur vegna þess að verið er að etja henni eina ferðina á forað deilna í samfélaginu.