143. löggjafarþing — 100. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[23:14]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því að hv. þingmaður spurði um upplifun mína þá er það því miður upplifun mín að of margir stjórnarþingmenn og hæstv. ráðherrar séu enn fastir í stjórnarandstöðu við síðustu ríkisstjórn, sem er náttúrlega hálfvændræðalegt svona ári eftir að hún fór frá. Ég upplifi iðulega að ég heyri meira um síðustu ríkisstjórn en núverandi ríkisstjórn í sölum þingsins þessa dagana sem er kannski vegna þess að núverandi ríkisstjórn hefur ekki verið alveg jafn afkastamikil og hún hefði gjarnan viljað vera og þá sé kannski bara ágætt að rifja aðeins upp fortíðina. Ég verð að segja að mér finnst þetta ekkert rosalega spennandi málflutningur, ég segi það alveg satt.

En hvað varðar þessa umræðu sem ég gerði líka að umtalsefni, og ég er sammála hv. þingmanni að það er leiðinlegt að vera að setja fólk í skotgrafir því að þetta snýst ekki bara um sjávarútveginn, þetta snýst líka um það hvernig við ætlum að höndla með aðrar auðlindir til framtíðar litið ef til þess kemur. Það er umræða sem við eigum eftir að taka og ég held að grunnurinn að því sé að við þurfum að ná einhverri sátt um auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Ég held að það sé alveg gríðarlega mikilvægt og geti verið vegvísir fyrir frekari lagasetningu og frekari dómaframkvæmdir. Þó að hér hafi margt gerst þá hefur okkur ekki auðnast sú gæfa að koma slíku ákvæði inn á stjórnarskrá. En það er líka áhugavert að skoða hvernig sú umræða hefur þróast frá árinu 2000, hún hefur þróast heilmikið. Viðhorf manna hefur breyst talsvert, það er auðvitað jákvætt. Ég held að umræðan hafi tekið jákvæðum breytingum frá þeim tíma. En það að teikna okkur hér upp sem einhverja óvini sjávarútvegsins, fólk eins og mig sem ólst upp við að spila útvegsspilið, örugglega eina heimilið á landinu sem gerði það því að enginn skildi reglurnar, og hlustaði á umræður um sjávarútveg og fiskveiðar í hverju einasta fjölskylduboði, það held ég að sé gríðarlega ósanngjörn umræða því að þetta er eitthvað sem allir viðurkenna að er undirstaða fyrir þjóðarhag okkar og eitthvað sem við viljum öll að sjálfsögðu að gangi sem best. Þetta snýst um einfalda réttlætisspurningu, hvort þjóðin eigi að fá að njóta þess arðs sem þau fyrirtæki hafa sem fá leyfi til að yrkja þá sameiginlegu auðlind. Þetta er einföld grundvallarspurning, þ.e. spurning um réttlæti eða ranglæti.