143. löggjafarþing — 101. fundur,  30. apr. 2014.

réttur fatlaðs fólks til sjálfstæðs lífs.

[15:16]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir hvatninguna en ítreka það sem ég sagði í fyrra svari mínu. Ég tel að það sé mjög mikilvægt, af því að við erum að tala um svona stórt mál, mannréttindamál eins og hv. þingmaður nefnir, að við vöndum okkur við innleiðinguna og séum með alla þá þætti sem menn hafa verið að skoða á hreinu. Það er ljóst eins og ég benti á að gera þarf að gera ákveðnar breytingar og fá reynslu á það sem snýr að vinnutíma starfsfólks. Ég vil líka benda á að það má gera ráð fyrir að hingað komi þingsályktunartillaga um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks. Þar munum við að sjálfsögðu ræða um það hvernig við viljum sinna þjónustu við fatlað fólk með sem bestum hætti. Við vinnum að sjálfsögðu mjög náið með sveitarfélögunum sem sinna þessari þjónustu um hvernig sé best að hátta henni.

Ég vil að lokum nefna þátt sem ég ber kannski ekki minni vonir til en hv. þingmaður, NPA sem snýr að notkun velferðartækni í þjónustu, m.a. við fatlaða einstaklinga. Ég held að þar opnist gífurlega mikil tækifæri á næstu árum og ég hvet þingmanninn til að mæta (Forseti hringir.) á ráðstefnu sem verður haldin í sumar á Akureyri um þetta mál.