143. löggjafarþing — 101. fundur,  30. apr. 2014.

þrotabú gömlu bankanna og skuldaleiðrétting.

[15:29]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég er ánægður að heyra að við erum sammála í því, við hæstv. forsætisráðherra, að 300 milljarðar eru sannarlega varlega áætlaðir um það svigrúm sem þarf að skapast í þessum samningum ef það á að vera hægt að aflétta hér gjaldeyrishöftum og endurheimta efnahagslegt sjálfstæði. Ástæðan fyrir því að það er hins vegar mögulegt er það frumvarp sem ég hafði framsögu fyrir 12. mars 2012 og felldi þessi þrotabú undir höftin. Það var að frumkvæði síðustu ríkisstjórnar.

Ég spyr hins vegar: Hvað er verið að gera núna? (Gripið fram í.) Ekki síst: Er ekki nauðsynlegt til að skapa það svigrúm í þessum uppgjörum að í því felist sala bankanna, Arion banka og Íslandsbanka? Er ekki mikilvægt að fram fari pólitísk umræða um það hvernig sú sala fari fram, til hverra, hversu mikið menn mega kaupa í slíku og eftir hvaða reglum? (Forseti hringir.) Satt að segja hræða sporin þegar Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur eru í ríkisstjórn og (Forseti hringir.) selja á banka.