143. löggjafarþing — 101. fundur,  30. apr. 2014.

þrotabú gömlu bankanna og skuldaleiðrétting.

[15:31]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Þarna tókst hv. þingmanni að komast í heilhring. Annars vegar taldi hann mikilvægt að menn færu að huga að því að bankarnir tveir, Arion banki og Íslandsbanki, yrðu seldir og hins vegar nefndi hann að ekki væri gott að bankarnir yrðu seldir þegar Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur væru í ríkisstjórn. Þessar áhyggjur hv. þingmanns eru þá væntanlega ástæðulausar. Ég tel ekki að það sé endilega til þess fallið að leysa þessi mál í heild að búið verði að selja þessa banka. (Gripið fram í.)

Hins vegar eru kannski helstu tíðindin í þessum fyrirspurnatíma að þingflokksformaður Samfylkingarinnar er loksins búinn að viðurkenna að svigrúmið margumrædda sem við framsóknarmenn töluðum mikið um í aðdraganda síðustu kosninga verði að vera til. Ekki nóg með það, heldur er hv. þingmaður greinilega farinn að gera ráð fyrir því að það styttist í að svigrúmið verði til og þá um leið aukist væntingarnar. Hann er farinn að segja: (Gripið fram í.) 300 milljarðar eru ekki nóg, það þarf að vera meira. (KaJúl: Svaraðu spurningunni.) Það eru gleðileg tíðindi, virðulegur forseti, að þingflokksformaður Samfylkingarinnar skuli boða hér að það sem við (KaJúl: Svaraðu …) höfum haldið fram mánuðum og árum saman, að það þurfi að vera til hundraða milljarða svigrúm við uppgjör á slitabúum bankanna og afléttingu gjaldeyrishafta, (Forseti hringir.) sé rétt. (KaJúl: Svara spurningum …) [Kliður í þingsal.]