143. löggjafarþing — 101. fundur,  30. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[15:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum enn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjöld. Umræðan hefur verið nokkuð málefnaleg. Menn hafa reyndar blandað inn í hana öðrum þáttum eins og réttlætismálum og öðru slíku sem getur líka verið málefnalegt að ræða. Það góða, að mínu mati, við þetta frumvarp er að það er til bráðabirgða og það slæma er hvað það kemur seint fram, það hefði mátt ræðast betur. Af hverju er gott að það er til bráðabirgða? Vegna þess að það framlengir ákveðið kerfi sem hefur verið við lýði nokkuð lengi og er að mínu mati ekki gott. Ég ætla að fara betur yfir það.

Hugmyndin gengur út á að menn reikni út meðalgengi allra fyrirtækja í sjávarútvegi og landvist að einhverju leyti. Það er reiknað eins og við séum Íslandsútgerð hf. Við reiknum út meðalhagnaðinn o.s.frv. Þegar menn eru búnir að reikna út meðalhagnaðinn og miða við ákveðna ávöxtunarkröfu á skuldum og eigin fé og öðru slíku þá komast menn að því að þarna er einhver umframarður og við ætlum að taka hluta af honum til fyrirbæris sem kallast þjóð. Mjög margir þingmenn setja samasemmerki milli þjóðar og ríkis, sem ég geri ekki. Þetta gerir að verkum að menn kalla eftir upplýsingum til þess að reikna út stöðu Íslandsútgerðar hf. og hafa þær sem bestar og sem hraðastar. Eðli máls samkvæmt eru þær alltaf á eftir — alltaf. Við gætum tekið upp ársuppgjör, hálfsárs eða jafnvel mánaðarlega, en það yrði samt sem áður alltaf eitthvert tímabil sem við vissum ekki neitt. Nú erum við í þeirri stöðu að við vitum ekki neitt. Við erum með mjög gamlar upplýsingar frá 2012, sem við byggjum ákvarðanir á. Auðvitað breytist heilmikið á þeim tíma og staðan getur bæði batnað og versnað. Einkenni á öllum svona kerfum sem er stýrt ofan frá er að menn þurfa að vita þetta, þurfa meiri upplýsingar og svo taka menn ákvarðanir.

Hér er verið að ræða um verð á loðnu, makríl o.fl. Hv. þingmenn á löggjafarsamkundu Íslands standa í púlti og ræða um hluti sem ætti eiginlega að ræða á stjórnarfundum eða hjá framkvæmdastjórn fyrirtækis. Við erum sem sagt búin að taka að okkur þetta hlutverk. Við erum farin að skattleggja mismunandi eftir tegundum — ósköp sniðugt — og þetta er bara orðið eins og fundur, ekki einu sinni í stjórn útgerðarfyrirtækis heldur í framkvæmdastjórn sem hittist daglega til þess að fara í gegnum markaðsmál og annað. Munurinn er sá að við erum ekkert að hætta okkar eigin fé, eins og væntanlega gerist með stjórnina í framkvæmdastjórninni, heldur erum við að sýsla með fé útgerðarinnar sem getur farið illa vegna ákvarðana okkar.

Staðan var best eftir hrun þegar krónan féll og útgerðin gat selt mikið. Það sem gerðist í rauninni þegar krónan féll var að launin lækkuðu — útgerðirnar skulda flestar gengistryggð lán þannig að það breyttist ekki mikið með skuldirnar. Íslensku launin í frystihúsunum og yfirleitt alls staðar lækkuðu nema hjá sjómönnum því að þeir eru á hlut. Þeir eru nefnilega með gengistryggð laun og það gleymist oft. Það er reyndar að koma í ljós núna síðustu daga að þau laun eru orðin svo há að menn eru farnir að selja skuttogarana sem vinna aflann að fullu og flytja vinnsluna inn í land þar sem launin eru miklu lægri og eru borguð í íslenskum krónum og hafa setið eftir eftir hrunið. Útgerðin hefur gengið mjög vel eftir hrun og sýnt mikinn hagnað, a.m.k. fyrir afskriftir og fjármagnsliði.

Nú eru vísbendingar um að staða sé orðin verri og markaðsmálin séu ekki eins góð o.s.frv. Þá þurfum við náttúrlega á hinu háa Alþingi, af því við vinnum með Íslandsútgerð hf., að taka ákvörðun og lækka gjöldin til þess að allt fari ekki í óefni. Síðan hefur líka komið í ljós að það er ákveðin stærðarhagkvæmni í útgerð eins og víða annars staðar og litlar útgerðir standa illa þrátt fyrir að menn hafi verið með ákveðin tonn sem þeir fengu ókeypis. Nú er verið að breyta því í krónur, 250 þús. kr., sem svarar til 21 tonns af þorski eftir verðmiðanum sem við erum búin að setja á þorskinn. Þeir fá sem sagt að veiða 21 tonn, þ.e. 250 þús. kr. í fyrirtækjaafslátt fyrir hvert fyrirtæki til þess að vega upp á móti því að stærri einingar eru hagkvæmari og skila meiri arði. Þannig vinnur Alþingi eiginlega gegn hagræðingu í greininni.

Í þessu frumvarpi er margt merkilegt. Á bls. 8 eru t.d. mjög skemmtilegar stærðfræðiformúlur sem gleður hjarta mitt sem stærðfræðings, en ég er ekki viss um að allir skilji þær í hörgul. Það sem meira er, það er búið að hverfa frá þorskígildi sem var mælikvarði á hvað einstaka tegundir gæfu hátt verð í sölu. Mismunandi loðna gefur mikið minna á kíló en þorskurinn o.s.frv. Hér er búið að taka inn kostnaðinn við að veiða viðkomandi tegund. Þar erum við náttúrlega að útfæra enn betur kerfi okkar um Íslandsútgerð hf. Það er í sjálfu sér jákvætt.

Það er enn í gangi að þeim er hlíft sem mynduðu skuldir við kaup á aflaheimildum, eins og löngum í þessu landi, herra forseti, skuldurum er hlíft, það er alltaf verið að hlífa þeim. Hinir sem lögðu fram eigið fé, tóku lán annars staðar og lögðu fram eigið fé eða áttu eigið fé til þess að mæta þessum kaupum fá ekki neitt, sem mér finnst vera mjög ósanngjarnt. Ég hef aldrei getað sætt mig við að þeir sem mynduðu skuldir til að kaupa aflaheimildir skuli njóta einhverrar fyrirgreiðslu umfram þá sem notuðu eigið fé til þess.

Þetta frumvarp framlengir um eitt ár ástand sem ég kallaði í gær sovétkerfi. Í Sovétríkjunum á sínum tíma var það reynt í miklum mæli og gafst hreinlega ekki vel vegna þess að það vinnur alltaf eftir á og kemur ekki með bestu lausnirnar.

Maður spyr sig: Af hverju notum við þetta ekki víðar? Af hverju höfum við ekki ríkisbakarí eða ríkismatvöruverslun eða ríkisskóverslun þar sem Alþingi Íslendinga mundi ákveða verðið á brauði og kruðeríi o.s.frv.? Það er vegna þess að sumir hafa uppgötvað, herra forseti, gildi markaðarins. Sumir hafa uppgötvað að verð getur verið myndað á markaði, það þarf ekki endilega að stýra því öllu ofan frá. Flestar þjóðir í heiminum aðhyllast reyndar þá kenningu í flestum greinum. Við gerum það líka í flestum greinum nema í sjávarútvegi.

Auðvitað ætti auðlindarentan, sem menn tala um að eigi að vera sanngjörn og hæfilegt gjald fyrir notkun á auðlindinni, að ákvarðast á markaði. Það er alla vega mín kenning. (Gripið fram í: Heyri, heyr!) Heyr, heyr, segja sumir hv. þingmenn en þeir hv. þingmenn hafa hins vegar þá hugljómun að ríkið sé sama og þjóð. Þeir halda að ríkissjóður sé besti aðilinn til að selja þessar auðlindir. Ég get nærri því lofa þeim því að fljótlega, ef sú leið yrði farin að eignarhaldið yrði sett til ríkisins og það mundi selja auðlindirnar á uppboði, kæmu fram hugmyndir um að nota þessa fjármuni eða lítinn hluta af þeim til þess að bæta stöðuna þarna og hinum megin. Þannig yrði kerfið holað eiginlega frá byrjun.

Ég hef hins vegar gengið lengra og komið með þá hugmynd að dreifa kvótanum á þjóðina. Jón og Gunna mundu reyna að selja sínar aflaheimildir og þá kæmist meira jafnræði á milli kaupenda og seljenda á þessum markaði og þingmönnum dytti ekki í hug að taka kvótann af Jóni og Gunnu, sem mundu kveinka sér við það, og dreifa til góðra verkefna eins og gert er á Vestfjörðum og víðar með byggðakvóta og öðru slíku.

Við það að setja kvóta á markað, hvort sem ríkið yrði seljandi eða Jón og Gunna eins og ég hef lagt til, þá mundi myndast markaðsverð á kvótanum. Þá mundi myndast markaðsverð á þessari auðlindarentu og hún kæmi fram hjá þeim sem seldi kvótann en þá mundu menn eflaust hafa áhyggjur af því að kvótinn færi mismunandi til byggða landsins. Það sem kæmi í ljós væri að þeir sem gætu veitt ódýrast og selt dýrast byðu mesta auðlindarentu fyrir þá auðlind sem menn tala um sem kvóta.

Mér finnst að menn þurfi að skoða þetta. Við getum ekki lengur verið með kerfi þar sem hv. þingmenn sitja og ræða um hvort ávöxtunarkrafan eigi að vera 8%, 9% eða 11% í þessari grein eða hvernig markaðsaðstæður eru hverju sinni, hvort hægt sé að hækka skattinn eða lækka hann eftir því hvernig markaðsaðstæður séu, heldur á að fela það aðilanum sjálfum með markaði. Þeir aðilar sem veiða geta boðið í kvótann. Ég held að menn þurfi að gera það. Ég vonast til þess að núna í sumar, þegar á að vinna að gerð varanlegs frumvarps um eignarhald á kvóta, hafi menn þetta í huga.

Það þarf líka að gæta að hagsmunum þeirra sem hafa kvótann í dag. Við getum ekki tekið allt af þeim í einu. Þeir hafa fjárfest í skipum og öðru slíku og það mundi fara illa með útgerðina. Við þurfum að taka tillit til þess að þeir þurfa að afskrifa þessa eign á löngum tíma. Í mínum hugmyndum gerði ég ráð fyrri því að þetta yrði afskrifað á 40 árum, þ.e. 2,5% á ári. Meðallíftími yrði 21,5 ár eða eitthvað svoleiðis. Ég held að menn ættu að stíga það skref. Það gengur ekki að vera með kerfi þar sem öllu er í rauninni stýrt ofan frá með ákvörðun Alþingis um verð á veiðiheimildum og verð á hinu og þessu. Skattlagningin er komin niður í það að við erum farin að tala um skattlagningu alveg niður í humar, keilu, kolmunna, löngu, rækju o.s.frv. Sérstakt gjald á rækju er til dæmis núll. Það er vegna þess að það eru svo fáir sem vilja veiða rækju sem stendur, ólíkt því sem áður var.

Taflan sem er á bls. 2 í frumvarpinu mun vera til endalausra skoðana á hinu háa Alþingi, á hverju einasta ári, vegna þess að aðstæður eru stöðugt að breytast. Stundum er dýrt að veiða gullkarfann, í annan tíma ódýrara o.s.frv. Stundum fæst hátt verð fyrir humarinn, í annan stað lágt verð. Þetta mun allt breytast. Það er nefnilega svo erfitt að stýra breytilegu verði. Það þekkja þeir sem eru í atvinnulífinu. Verð á olíu hækkar og verð á fiski hækkar eða lækkar og verð á rafmagni og laun, gerðir kjarasamningar o.s.frv., og þá breytast allar forsendur og þá breytist allur reksturinn. Þetta erum við á hinu háa Alþingi í raun að gera fyrir alla útgerðina í landinu og þurfum þá að gera sem oftast því að aðstæður breytast. Ég geri ráð fyrir að menn þurfi árlega að breyta töflunni á bls. 2 til þess að taka mið af þeim breytingum sem verða á markaði, verði og kostnaði við veiðar.