143. löggjafarþing — 101. fundur,  30. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[16:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrir 100 eða 200 árum voru þær auðlindir sem við köllum svo í dag ekki auðlindir. Sjávarútvegurinn kostaði mannslíf, mjög mörg mannslíf. Ég held að árið 2002 sé fyrsta árið sem enginn maður fórst við Ísland í sjávarútvegi. Allar götur, alla Íslandssöguna, hefur sjávarútvegurinn kostað mannslíf, þ.e. hann var ekki ódýr, það var ekki ókeypis að sækja sjó. Orkan eða fallvötnin voru til bölvunar í hverri sveit, drápu hesta og hund, stundum mannskapinn líka. Það var ekki fyrr en mannvitið kom til og skipin urðu nægilega örugg að auðlindin myndaðist. Mannauðurinn gerði fallvötnin að verðmæti. Þannig mynduðust þessar auðlindir. Þær eru mannvit í grunninn.

Þegar menn þurftu að takmarka aðgang að sjávarútveginum, þegar það stefndi í ofveiði eða bara hreinlega að fiskstofnarnir þurrkuðust upp vegna þess að skipin voru orðin svo góð, vegna þess að mannvitið hafði gert skipin svo góð, þurftu menn að takmarka aðganginn. Takmörkun á aðgangi þýðir alltaf í vissum skilningi eignarréttur. Íbúðir okkar eru lokaðar, ég get læst íbúðinni minni, það er takmörkun á aðgangi, það er bara ég sem hef aðgang að íbúðinni, það helgar minn eignarrétt. Ef allir hefðu aðgang að íbúðinni minni væri ekki mikils virði að eiga þá íbúð.

Það að takmarka aðganginn að auðlindinni bjó til verðmæti. Um þau verðmæti deilum við, eignarréttinn á aðganginum. Um það hefur ekki náðst sátt eftir að aðgangurinn var takmarkaður. Það hefur bara ekki náðst um það sátt. Menn segja að það þurfi að borga þjóðinni fyrir aðganginn að auðlindinni með sanngjörnum hætti og um það snýst deilan. Mér finnst að við eigum bara að setja aðganginn til þjóðarinnar fyrst hún er sögð eiga þetta. Jón og Gunna fái aðganginn til nægilega langs tíma og geti ráðstafað honum.