143. löggjafarþing — 101. fundur,  30. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[16:11]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mér finnst alltaf dálítið erfitt að eiga samtal í þessum málum því að ef maður er gagnrýninn á að menn ætli að lækka veiðigjöld á útgerðina í landinu er því tekið þannig að maður sé á móti þeirri atvinnugrein. Undir því þurfum við að sitja sem höfum verið þeirrar skoðunar að greiða eigi til þjóðarinnar og þá í gegnum ríkið sem heldur utan um auðlindir og auðlindastýringu í landinu fyrir þjóðina, að greiddur verði til þjóðarinnar sanngjarn hlutur af auðlindarentunni sem sannarlega hefur skapast í sjávarútvegi á undanförnum áratugum og ekki síst þeim síðustu, sem eru næst okkur í tíma.

Ég kalla þess vegna eftir því að við hér á þingi setjumst niður og skoðum fyrir alvöru alla þá vinnu og stefnumörkun sem hefur átt sér stað á því sviði hingað til. Það eru til skýrslur eftir skýrslu þar sem um þessi mál er fjallað á yfirvegaðan hátt og færð fyrir því mjög góð og ítarleg rök að eðlilegt sé að þjóðin fái sýnilegan hluta af auðlindarentunni til sín. Einhverra hluta vegna endum við þó í þeirri stöðu sem við erum í núna, vegna þess að það var síðasta ríkisstjórn sem ákvað að hrinda í framkvæmd stefnumörkun sem hefur átt sér stað og hefur verið í vinnslu áratugum saman er það brýnasta verkefni þessarar ríkisstjórnar að vinda ofan af því og þá einhvern veginn. Það er verið að vinda ofan af mjög vandaðri stefnumótunarvinnu sem býr að baki þeirri lagasetningu sem átti sér stað á síðasta kjörtímabili, það er verið að vinda ofan af vandaðri vinnu á mjög flausturslegan hátt og með afleiðingum sem ég tel að muni enda með því að deilurnar um sjávarútveginn, fiskinn í sjónum, eignarréttindi og annað tengt því verði erfiðari en við höfum séð áður. Það er verið að kasta stríðshanska með þeirri tillögu sem hér er og líka með aðferðafræði ríkisstjórnarinnar í málaflokknum.

Virðulegi forseti. Ég talaði um stefnumótun. Á síðasta kjörtímabili var mjög góðri skýrslu skilað af svokallaðri auðlindastefnunefnd sem skoðaði auðlindamálin í heild sinni til ná utan um þau og koma með tillögur um hvernig við ættum að fara með þau, bæði hvað varðar stýringu á þeim og gjaldtöku. Sú vinna síðustu ríkisstjórnar fór ekki fram í neinu tómarúmi og það er alveg merkilegt þegar maður les þá skýrslu hversu mikill samhljómur er i henni og í skýrslu og tillögum auðlindanefndar frá árinu 2000, sem ég hvet alla þingmenn til að lesa líka. Það var engin vond vinstri stjórn sem ætlaði að kippa fótunum undan sjávarútveginum í landinu, sem lagði til aukna gjaldtöku á nýtingu auðlinda. Það var á miðju ríkisstjórnarskeiði núverandi stjórnarflokka og ég man ekki betur en formaður þeirrar nefndar hafi komið úr Framsóknarflokknum. Þverpólitískt hafa menn því komist að þeirri niðurstöðu að eðlilegt sé að þjóðin eigi ríkara tilkall til hlutdeildar í auðlindarentunni en Alþingi hefur lagt af stað í að framkvæma, fyrir utan það sem lagt var af stað með í tíð síðustu ríkisstjórnar.

Þegar við erum að tala um auðlindarentu erum við oft spurð að því hvað auðlindarenta sé. Auðlindastefnunefnd skilgreinir hana þannig að auðlindarentan myndist til að mynda í atvinnugrein sem byggir á sérleyfum til nýtingar náttúruauðlinda og að auðlindarentan sé sá umframhagnaður sem eftir stendur þegar atvinnugreinin hefur greitt allan rekstrarkostnað og staðið undir eðlilegri ávöxtun þess fjár sem bundið er í greininni með tilliti til þeirrar áhættu sem í rekstrinum felst. Við erum að tala um að fá hlutdeild í þessu, hlutdeild í þeim umframhagnaði sem verður til í greininni vegna sérleyfa sem menn hafa til að sækja aðföngin til matvælaframleiðslu sinnar. Það eru nú öll ósköpin sem verið er að kalla eftir. Við lendum í því að þessi ríkisstjórn ákveður í staðinn fyrir að horfa á stefnumörkunina frá árinu 2000 og tillögurnar sem komu fram þar, í staðinn fyrir að horfa á stefnumörkunina sem kemur fram í tillögunum og í skýrslunni árið 2012, sem kallast að miklu leyti á við stefnumörkun og tillögurnar frá árinu 2000, að líta á það sem sitt allra fyrsta verk á Alþingi þegar ný ríkisstjórn er komin að breyta þessu einhvern veginn, þannig að þetta lækki nú alveg örugglega. Það er gert í staðinn fyrir að horfa á þetta í því samhengi að þarna er ekki um að ræða tekjustofn fyrir ríkissjóð vegna þess að ríkissjóður er í vandræðum heldur býr að baki hugmyndafræði sem er þekkt úti um allan heim. Og þegar þessum gerningi er lokið, og menn halda því fram að þetta sé gert vegna þess að annars færi útgerðin almennt á hausinn, koma rúmum mánuði síðar, þegar ríkið hefur afsalað sér tekjum upp á 3 milljarða það árið, fréttir af því að þrjú fyrirtæki í landinu sem eru í blönduðum leiðum hafi skilað hagnaði upp á 28 milljarða og séu að greiða út arð til sinna eigenda upp á 5 milljarða. Hvernig hefðu þessir 3 milljarðar getað sett alla greinina á hliðina? Það er þetta sem við erum að tala um. Þetta eru stærðirnar. Þess vegna nefni ég það hér.

Ég hef ekkert á móti því að menn hagnist í sjávarútvegi. Ég er hins vegar á móti því að það komi ekkert af umframhagnaðinum, við erum alltaf aðeins að tala um umframhagnaðinn, til þjóðarinnar í gegnum ríkissjóð, það er það sem ég er á móti. Þessi ríkisstjórn er ekki að afsala sér nauðsynlegum tekjum í ríkiskassann. Hún er að segja að þjóðin eigi ekki tilkall til réttlátrar hlutdeildar í umframhagnaðinum og það er grundvallaratriði sem um ræðir, þar greinir okkur á. Það er beinlínis rangt að breiða yfir þetta með því að segja: Þið settuð auðlindagjöld á útgerðina vegna þess að ykkur vantaði fjármuni í ríkiskassann. Menn ættu að lesa tillögur auðlindanefndar frá árinu 2000 og líka tillögur auðlindastefnunefndar frá árinu 2012 og þá sjá þeir að þarna býr að baki mjög ítarleg og vönduð stefnumótunarvinna.

Virðulegi forseti. Mig langar að kalla eftir því að við í þinginu ræðum þetta meira á þeim nótum og tölum um hlutina eins og þeir eru. Ef menn eru á því að umframhagnaðurinn eigi alfarið að fara til þeirra sem veiða á að segja það hreint út. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þjóðin sem á auðlindina, sem þeir sem sækja hana eru með sérleyfi til að nýta, eigi að fá hlutdeild í umframhagnaðinum. Það er mín afstaða. Það er afstaða Samfylkingarinnar. Frekjan er ekki meiri en það. Kröfurnar eru ekki meiri en það að við fáum eðlilega hlutdeild, þjóðin sjálf sem á auðlindina. Hættum að tala í upphrópunum og skoðun stefnumörkunina, hún er góð. Þetta er góð vinna og hún er mikilvæg. Ég tel að það sé miklu erfiða að starfa í þessari grein í þeim ófriði sem um hana hefur ríkt en menn gera sér grein fyrir. Sá ófriður sem um hana hefur ríkt er ekki síður komin frá þeim sem telja sig vera að þjóna hagsmunum greinarinnar. Hvernig getur það þjónað hagsmunum greinarinnar að skera sig þannig úr að hún er líklega eina atvinnugreinin í landinu sem þarf ekki að greiða fyrir aðföng sín? Þannig getur það ekki verið vegna þess að það verður alltaf ákveðið ranglæti í því, sérstaklega þegar um er að ræða takmarkaðar náttúruauðlindir sem menn fá sérleyfi til að nýta.

Aftur að skýrslunum sem ég er að fjalla um. Þær eru býsna góðar báðar tvær. Þar er verið að fjalla um auðlindarentuna sem ég tel mjög áhugaverða umfjöllun og er hún skilgreind eins og ég greindi frá áðan. Í skýrslu auðlindanefndar er líka bent á að meðal þeirra atriða sem viðhalda eða ýta undir myndun auðlindarentu eru aðgangs- eða magntakmarkanir þar sem úthlutað er sérleyfum eða takmörkuðum nýtingarrétti. Auðlindarentan verður til vegna sérleyfanna, vegna þessara takmarkana. Það er ekki verið að deila um þetta. Það er á þeim grunni sem við erum að tala um að eðlilegt sé að þjóðin fái hlutdeild í þessu.

Einnig kemur fram í skýrslunni að í greinum sem byggja á sérleyfum til nýtingar auðlinda telji auðlindastefnunefnd nákvæmara að lýsa framlegðinni sem vergri hlutdeild fjármagns og auðlinda. Með því að bæta auðlindinni sjálfri við hugtakið er verið að viðurkenna að hún sé veigamikill hluti þeirra verðmæta sem skapar framlegð í greininni. Þá er líka fjallað um hvernig tilkall ríkisins sem eiganda eða umsjónaraðila auðlinda til auðlindaarðsins, sem við höfum verið að ræða hér, eða auðlindarentunnar sé almennt talið hafa minni neikvæð áhrif á rekstur og hvata í viðkomandi atvinnugrein en hefðbundin skattheimta eða önnur gjaldtaka. Sú aðferðafræði sé því miklu betri en að fara í beina skattheimtu. Það er jafnframt fjallað um þetta í ítarlegri stöðuskýrslu OECD um Ísland frá því í júní árið 2011 þar sem segir að frá sjónarmiði efnahagslegrar hagkvæmni sé auðlindarentuskattur í grundvallaratriðum besta skattlagningin því að það skekki ekki efnahagslegar ákvarðanir og leggi þar af leiðandi ekki á neinar aukabyrðar.

Síðan segir í skýrslunni að frá árinu 2012 að hlutfall áætlaðrar auðlindarentu sem ríkið gerir tilkall til sem eigandi eða umsjónaraðili sé mismunandi eftir auðlindum en undantekningarlaust sé gert ráð fyrir að hluti hennar falli til sérleyfishafanna sjálfra. Það er aldrei verið að tala um að þeir sem hafi sérleyfin fái enga hlutdeild í umframarðinum. Hér á landi tökum við mjög lítinn hluta í veiðigjöldum, meira að segja vonda vinstri stjórnin tók aðeins lítinn hluta af hinum skilgreinda og vel þekkta umframhagnaði. Nú á að minnka það enn frekar og það tel ég afar vonda ákvörðun og að við séum komin aftur á braut deilna í þessum málum.

Þá vil ég nefna að í skýrslunni frá árinu 2000 er beinlínis lagt til varðandi náttúruauðlindir í þjóðareign að lagareglur um allar náttúruauðlindir verði samræmdar og það verði tekið upp nýtt ákvæði í stjórnarskrá um þjóðareign náttúruauðlinda sem ekki eru háðar einkaeignarrétti. Þetta ætti þá við allar auðlindir sem tilheyra þjóðlendum, svo og nytjastofna og aðrar auðlindir innan íslenskrar efnahagslögsögu. Um þetta var síðan lögð til sú meðferð náttúruauðlinda að það giltu ákveðnar meginreglur og meðal annars, og þetta er í kafla 2.6.1., að lagt væri á afnotagjald til að standa undir kostnaði ríkisins af rannsóknum og eftirliti með nýtingu auðlindanna. Síðan segir, næsta tillaga: Þjóðin fái sýnilega hlutdeild í þeim umframarði (auðlindarentu) sem nýting auðlindanna skapar.

Þetta er sú umræða sem við höfum farið í gegnum hér sl. áratugi (Forseti hringir.) meðal þeirra sem best þekkja til og skila góðri vinnu í svona skýrslu, fólk þvert á aðra stjórnmálaflokka, en stjórnmálamenn á hinu háa Alþingi sjá enga ástæðu til að fara neitt eftir því. Það getur skapast friður ef við förum að ræða málið út frá þessum skýrslum og út frá þeirri vinnu sem liggur þeim til grundvallar.