143. löggjafarþing — 101. fundur,  30. apr. 2014.

opinber fjármál.

508. mál
[17:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir ágætt starf og ágætt frumvarp sem hér kemur fram. Þetta er mjög veigamikið og tekur á mörgum þáttum og verður spennandi að sjá hvernig tekst til í framkvæmd þess því að það er náttúrlega framkvæmdin sem skiptir mestu máli.

Mig langaði að spyrja örlítið um atriði varðandi 43. gr., þ.e. um eignir ríkissjóðs. Hvernig fer með þjóðlendur sem ríkið sló eign sinni á fyrir nokkrum árum og voru áður einskis manns land? Er mikið um frávik frá 43. greininni því að þar stendur að fjármálaráðherra skuli fara með eignir ríkissjóðs nema lög og stjórnarfyrirmæli kveði á um annað?

Svo vildi ég spyrja því að þarna er mjög skemmtilegt ákvæði um hvað ríkið megi skulda mikið o.s.frv.: Hvernig hyggjast menn fara með risaskuldir eins og í A-deild og B-deild LSR, annars vegar 60 milljarða og hins vegar 400 milljarða? Hvernig hyggjast menn svo fara með það sem sjaldan er rætt um, skuldbindingar vegna Tryggingastofnunar ríkisins, almannatrygginga? Við getum að sjálfsögðu ekki hætt að borga lífeyri bara sisona. Það er í rauninni mikil skuldbinding fólgin í Tryggingastofnun. Hafa menn skoðað það eitthvað nánar að taka á þeirri skuldbindingu?