143. löggjafarþing — 101. fundur,  30. apr. 2014.

opinber fjármál.

508. mál
[17:46]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vil eins og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir fagna því að þetta frumvarp skuli komið fram. Ég fagna líka orðum þingmannsins þegar hún ræddi um stefnumörkun í opinberum fjármálum, hina svokölluðu fjármálastefnu, sem lögð er til lengri ára, lögð fram í formi þingsályktunartillögu sem þingið samþykkir. Síðan kemur að seinni hluta þeirrar gerðar.

Hv. þingmaður nefndi að það tæki á okkur þingmenn að koma að fjármálastefnu og fjárlagagerð með þeim hætti sem lagt verður upp hér og við ræðum hér um aga og festu. Ég spyr hv. þingmann hvernig hún sjái fyrir sér að við sem þingmenn einstakra kjördæma, sem og einstakra málaflokka, munum, hafandi samþykkt stefnu til lengri tíma, síðan standast þá freistingu sem kemur að þegar fjárlög hvers árs eru lögð fram, hvort þingmenn almennt standist þá freistingu að fara ekki í kapphlaup fyrir sitt kjördæmi eða sinn málaflokk. Þetta frumvarp til laga byggir á því, að mínu mati, að þingmenn standist þá freistingu. Mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns.