143. löggjafarþing — 101. fundur,  30. apr. 2014.

opinber fjármál.

508. mál
[17:50]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla eins og fleiri að koma örstutt inn á þetta afar viðamikla og flókna frumvarp sem ég er bara búin að lesa lauslega, vil ég segja, vegna þess að þetta er mjög yfirgripsmikið mál. Við fengum kynningu á því í haust og mér skilst að það hafi ekki tekið miklum breytingum síðan þá og ég hef ekki rekið mig á annað við lesturinn, á þeim tíma sem ég hef haft til að lesa frumvarpið. Ég segi eins og þeir sem hér hafa talað að ég held að þetta sé að mörgu leyti gott frumvarp og tímabært. Það er hins vegar alveg örugglega eitt og annað sem þarf að breyta í því og ekki eru allir sammála um það eða sáttir við það því þetta eru mjög róttækar breytingar, þetta er ekki einfalt.

Ég vil fyrst fagna því að hér er lagt til enn frekara samráð við sveitarfélögin. Ég tel það af hinu góða að þeir sem sjá um hin opinberu fjármál hafi með sér aukið samstarf. Sveitarstjórnir hafa tekið í æ meira mæli við verkefnum frá ríkinu og gert er ráð fyrir þeirri þróun í framtíðinni þannig að það er mjög mikilvægt að þetta sé vel rammað inn og ég fagna þessari auknu samvinnu.

Ég tek undir með öðrum ræðumönnum að hér er lagt upp með vandaðri og formfastari vinnu en verið hefur og allir geta verið sammála um þau grunngildi sem hér eru lögð til. Ég held að enginn geti sett sig upp á móti því að reka ríki og sveitarfélög með sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu og gagnsæi að leiðarljósi. Hitt er svo annað mál, eins og kom fram í máli hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur áðan, að sú nefnd sem fer yfir málið — og ég gat ekki heyrt betur en að hæstv. ráðherra boðaði það að önnur nefnd en sú sem hér stendur situr í, fjárlaganefnd, gæti allt eins unnið þetta mál — þarf að skoða hverja einustu grein í ljósi þessara gilda.

Ég fagna því líka að kynjuð hagstjórn sé hér sett í lög. Ég tel að það þurfi að horfa á allt þetta frumvarp með hana að leiðarljósi.

Ég tel að það að lögfesta þessi grunngildi ætti að gera alla þá sem hafa yfir höfuð einhvern áhuga á fjármálum ríkis og sveitarfélaga mun meðvitaðri um það sem til þarf, þ.e. um þau skilyrði sem ríki og sveitarfélög eru háð varðandi afkomu og skuldir. Eins og hér var komið inn á á að leggja fram fjármálaáætlun að vori, þ.e. þingsályktunartillögu um slíka áætlun. Ég tek undir að það gefur væntanlega tækifæri til að ræða málin til hlítar og eykur líkur á því að hægt sé að ná einhvers konar samkomulagi. Ég er þó ekki neitt sérstaklega bjartsýnni núna en við gerð síðustu fjárlaga eða fjárlagagerðir fyrri ára um að það eitt að leggja fram flókið frumvarp um opinber fjármál verði til þess að pólitískar sögulegar sættir náist í stefnumörkun, hvort sem það er í skattstefnu eða annarri tekjuöflun eða útgjaldaþróun eftir málefnasviðum. Ég er ekki viss um það og held að fólk megi ekki alveg gleyma sér í því efni. Þrátt fyrir að sá rammi sem hér er lagður til sé vissulega af hinu góða er auðvitað ljóst að pólitískra sjónarmiða gætir undir.

Eins og hér hefur komið fram og kemur fram í 7. gr. eru sett þrjú skilyrði fyrir fjármálastefnunni. Í fyrsta lagi skuli heildarafkoma yfir fimm ára tímabil ávallt vera jákvæð og árlegur halli ávallt undir 2,5% af landsframleiðslu. Þetta eru háleit markmið, góð en háleit markmið. Heildarskuldir, að frátöldum lífeyrisskuldbindingum og viðskiptaskuldum en að viðbættum sjóðum og bankainnstæðum, séu lægri en sem nemur 45% af vergri landsframleiðslu. Þetta eru líka háleit markmið. Hið sama gildir um skuldahlutfallið sem er þriðji liðurinn. Ef skuldahlutfall samkvæmt 2. tölulið er hærra en 45% skal sá hluti sem umfram er lækka að meðaltali á hverju þriggja ára tímabili um a.m.k. 5% á hverju ári.

Þetta er ein af áskorunum frumvarpsins, að ná þessum markmiðum. Eins og hér hefur komið fram og kemur fram í frumvarpinu þarf að greiða niður um 17 milljarða á næstu árum til þess að ná viðmiðum um skuldaþakið fyrir utan vaxtakostnað. Þetta eru því háleit markmið, en það er alltaf gott að stefna hátt og reyna að takast á við verkefnin.

Í frumvarpinu kemur fram að skipa eigi fjármálaráð og ég tek undir með þeim sem rætt hafa um það hér að alltaf koma upp ákveðnar spurningar um hvernig eigi að skipa slíkt ráð. Hér kemur einungis fram að Alþingi skipi tvo menn í ráðið og forsætisráðherra skipi einn. Maður veltir alltaf fyrir sér því fyrirkomulagi að allir aðilar séu eingöngu skipaðir af ríkisstjórn, en það er svo sem ekki tekið fram, bara sagt að Alþingi skuli tilnefna tvo menn. Ef til vill þurfum við að hugleiða hvort stjórnarandstaðan geti sameinast um einn aðila af þessum þremur þannig að meiri möguleikar séu á því að tryggja meiri sátt við framkvæmd þessarar stefnu.

Varðandi fjárheimildir kemur fram á bls. 33 að gert sé ráð fyrir að ráðherra skilgreini málefnasvið og málaflokka, að undangengnu samráði við einstaka ráðherra og að fengnu áliti reikningsskilaráðs ríkisins. Síðan er talað um að hluti af markmiðinu með þessu sé að veita þeim, sem gegna því hlutverki að halda útgjöldum innan fjárheimilda, auknar heimildir til að stýra útgjöldum innan málaflokkanna. Þeim aðilum verði því um leið falin aukin ábyrgð. Af því að hér var í ræðu og í andsvörum rætt um kjördæmaþingmenn og kjördæmapot vil ég nefna að það er umhugsunarefni hvort stjórnarandstaðan verði svolítið vopnlaus. Í fylgiriti með fjárlagafrumvarpi eiga ráðherrar að sundurgreina útgjöld og ef það rit inniheldur allar stofnanir sem við höfum verið að vinna með hér gæti svo farið að ef ég mundi nú vilja auka framlög í mínu kjördæmi til Háskólans á Akureyri gæti ég hugsanlega lagt til þá aukningu en hún færi bara inn í það, ef samþykkt yrði að ramminn yrði hækkaður. Ég væri ekkert endilega örugg með að sú hækkun færi til tiltekinnar stofnunar, þótt ég geri nú ráð fyrir að hægt sé að ná einhvers konar samkomulagi um það. Auðvitað veit ég að það verður ekki bæði haldið og sleppt, það er líka hluti af þessum breytingum, en ég hef nokkrar áhyggjur af því að fylgiritið verði ekki lögskýringargagn, það hafi í rauninni enga stöðu.

Ég held að þetta eigi eftir að verða eitt af því sem við ræðum svolítið þegar fram líða stundir, eins og hæstv. ráðherra kom inn á. Þrátt fyrir að þingmenn hætti auðvitað ekki að berjast fyrir kjördæmi sínu eða einstökum stofnunum þrengir þetta samt sem áður verulega að hinum venjulega þingmanni, því þetta er jú komið til framkvæmdarvaldsins sem hefur þetta allt í hendi sér. Ég hef svolitlar áhyggjur af þessu en geri mér líka grein fyrir að stundum þarf að ganga alla leið. Ég er þó ekki orðin sátt í hjartanu við þessa tillögu.

Hér kemur fram að ekki einungis fjármálaráðherra eigi að upplýsa fjárlaganefnd um stöðu og framvindu fjármálaáætlunar heldur líka aðrir ráðherrar, a.m.k. tvisvar á ári. Ég held að það hafi svo sem gerst, þótt það hafi ekki verið fest í lög, að ráðherrar hafa komið fyrir fjárlaganefnd og gert grein fyrir framvindu mála. Það er kannski ágætt að þetta sé fest í lög þannig að þeir skorist ekki undan því að koma. Þannig að ég tel að það sé af hinu góða.

Lítið hefur verið rætt um það hér, ég heyrði ráðherra ekki tala um það en kannski fylgdist ég ekki nógu vel með, hversu langan tíma á að innleiða efnisþætti frumvarpsins. Talað er um að það taki tvö til þrjú ár. Ég hef áhuga á því að vita og vona að ráðherrann svari því á eftir þegar hann lokar þessari umræðu í bili hvað hann telur að taki lengstan tíma og hvað megi innleiða fyrst. Ef þetta frumvarp verður tekið fyrir í haust og samþykkt fyrir áramótin sjáum við það fyrir okkur að þingsályktunartillagan verði lögð fram næsta vor, að ári eða hvað? Mér finnst ekki koma hér fram í hvaða áföngum eigi að innleiða efnisþætti frumvarpsins. Ég hefði viljað sjá það.

Síðan velti ég fyrir mér afnámi markaðra tekna. Nú er það frumvarp til meðferðar í fjárlaganefnd. Fellur það um sjálft sig? Eða falla niður, miðað við þetta frumvarp, allar markaðar tekjur, hver ein einasta, eða verður eitthvað eftir? Það væri áhugavert að vita það.

Að lokum, virðulegi forseti, lýsi ég ánægju minni með að þetta frumvarp sé fram komið þótt ég telji að við þurfum að fjalla mjög ítarlega um það. Þetta er mjög viðamikið og flókið mál. Ég mundi líka vilja heyra hjá hæstv. ráðherra hvað það er sem þarf að breyta í þingsköpum. Til dæmis er talað um að tillögur til breytinga á fjárlagafrumvarpi eigi ekki að hafa neikvæð áhrif á tekjujöfnuð ríkissjóðs. Ég held að það hljóti að þurfa að gera einhverjar breytingar á þingsköpum til þess, að minnsta kosti verði að liggja fyrir hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til þess að breytingartillögur verði þingtækar. Það væri áhugavert að heyra ráðherrann svara því.