143. löggjafarþing — 101. fundur,  30. apr. 2014.

opinber fjármál.

508. mál
[18:14]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Mér sýnist margt í frumvarpinu vera til bóta. Það setur skýran ramma utan um það hvernig fjárhagsáætlanir ríkisins skuli vera. Ég er þó með smáathugasemdir. Það sem mér finnst vera gott við það er að tekið er mjög skýrt á fjármálastefnunni sem sett er í upphafi, og sett er til fjögurra ára ef ég man rétt. Henni er skipt í eftirfarandi þætti:

Í fyrsta lagi, markmið um umfang, afkomu og þróun eigna, skulda o.s.frv. Markmiðið er mjög skýrt. Í öðru lagi að í greinargerð komi fram hvernig grunngildum verði fylgt. Markmiðið er mjög skýrt og svo greinargerðin, hvernig skuli ná markmiðum. Og í þriðja lagi, þótt það sé ekki nefnt í lið eins og var í drögunum, skal í fjármálastefnu staðfest að stefnan sé samkvæmt þeim grunngildum sem talin eru upp. Þetta er mjög gott verklag, að setja skýrt markmið hvernig á að ná því fram og svo grunngildin sem skulu fylgja við það að fara þá leið að leiðarenda.

Stefnumörkunin er virkilega góð; sjálfbærni, varfærni, stöðugleiki, festa og gegnsæi. Ég held að nokkuð ljóst sé og örugglega enginn sem mótmælir því að þetta mun setja mikla festu og aga í ríkisfjármálin, sem er mjög mikið til bóta.

Ég vil gera athugasemd við fjármálaráð og skipan þess. Ráðherra skipar þrjá menn í það, tveir eru tilnefndir af Alþingi en aftur á móti verður formaður nefndarinnar sá sem forsætisráðherra skipar. Við erum að tala um fjármálastefnu sem er stefna um það hvernig skuli verja almannafé, sem er jú það verkefni sem Alþingi á að hafa með höndum. Mér finnst það því skjóta svolítið skökku við að það sé forsætisráðherra sem skipar formann ráðsins sem á að meta þá stefnu. Ég mundi frekar segja að þingið ætti að skipa formanninn út af því að buddan, peningavaldið, er hjá þinginu. Sér í lagi vegna þess að það sem verið er að gera með frumvarpinu, sem þarf að skoða verulega vel, er að verið er að færa budduna, budduvaldið, töluvert til ráðuneytanna. Í staðinn fyrir að Alþingi ákveði alla þessa liði lætur Alþingi ráðuneyti, málaflokka og undirflokka þar, fá ákveðna pyngju sem þeir eiga síðan að útdeila. Það er því klárlega verið að færa fjárúthlutunarvald Alþingis til ráðuneytanna. Á móti kemur að það verður allt í miklu fastari skorðum og það ferli miklu faglegra hvernig stefnan er sett, hvernig á að ná henni fram og hvaða gildum skuli fylgja að því marki. Það eru því kostir og gallar í þessu.

Við þurfum að ræða það mjög vel í nefndinni hvernig þetta fjármálaráð er skipað og passa það að formaðurinn þar sé skipaður af þinginu og svo í kjölfarið að meta það mjög varlega hvort þingið sé tilbúið og það sé réttlætanlegt að færa, eins og fyrrverandi hv. þingmaður hér í ræðustól nefndi, þetta vald til embættismanna.