143. löggjafarþing — 101. fundur,  30. apr. 2014.

opinber fjármál.

508. mál
[18:39]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Það er einmitt þetta sem ég er að setja fingurinn á, sem hæstv. ráðherra er að nefna, að allt veltur þetta náttúrlega á trúverðugleika ráðsins. Það þýðir að á þeim forsendum verður ríkisstjórnin að passa sig að velja einhverja sem geta tryggt þann trúverðugleika að svo miklu leyti sem hægt er, en það að gera valferlið öðruvísi mundi tryggja það betur.

Það að menn séu menntaðir á einhverju sviði það er menntun, eins og stjúpfaðir minn sagði þegar ég spurði hann um það. Hann var ofursti í bandaríska hernum. Ég spurði hann hvort Bandaríkjaforseti gæti verið spilltur, hvort hann gæti misnotað aðstöðu sína og völd. Hann sagði, með leyfi forseta: „No, they educate these men.“ — Eða: Nei, þeir mennta þessa menn.

Menntunin mun ekki hafa áhrif á það. Það sem mun aftur á móti hafa áhrif er hvernig menn eru skipaðir og hver skipar þá. Það mun draga úr trúverðugleika þegar ríkisstjórnin hefur meiri hluta þeirra manna í ráði sem á að meta hvort ríkisstjórnin fari eftir lögunum. Það mun hafa áhrif ef þetta verður niðurstaðan eða lendingin.

Að lokum langar mig að spyrja hvort þetta frumvarp taki að einhverju leyti á freistnivandanum sem allar ríkisstofnanir standa frammi fyrir, að eyða að minnsta kosti því sem hefur verið úthlutað og þá fara þær oft yfir línuna því að ef þær gera það ekki fá þær minna næst, hvort þetta frumvarp taki að einhverju leyti á þeim vanda.