143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

störf þingsins.

[10:33]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Á árinu 2011 var hafist handa við stórátak til að efla almenningssamgöngur, ekki aðeins á þéttbýlissvæðinu suðvestanlands og norðaustanlands heldur einnig í strjálbýlli byggðum landsins. Víða skortir samgöngunet sem hægt væri að reiða sig á innan byggðakjarna og á milli þeirra. Í samráði við sveitarfélögin var afráðið að fela landshlutasamtökum sveitarfélaga að annast verkefnið sín megin en Vegagerðin kæmi síðan að máli fyrir hönd ríkisins og fyrir hönd framkvæmdarvaldsins.

Til að þetta gæti gengið eftir var gerð breyting á lögum um sérleyfishafa sem gerði landshlutasamtökum sveitarfélaga kleift að öðlast einkaleyfi. Á grundvelli þeirra laga og þeirra lagabreytinga var undirritaður samningur í byrjun febrúarmánaðar árið 2012 á milli Vegagerðarinnar og Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum. Samkvæmt honum skyldi stefnandi tryggja almenningssamgöngur á milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins.

Ég nefndi stefnanda og það er tilefni þess að ég er kominn hingað upp. Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum hefur núna stefnt Vegagerðinni og þar með ríkinu vegna samningsrofa því að 19. desember sl. rifti Vegagerðin fyrir hönd ríkisins einhliða samningi sem gerður hafði verið við sveitarfélögin. Þetta er alvarlegt mál og ég vildi vekja athygli Alþingis og ríkisstjórnar og allra hlutaðeigandi á því að verið er að stefna ríkinu, það er verið að stefna Vegagerðinni fyrir samningsrof.

Ég hef tekið þetta áður upp á Alþingi og hæstv. innanríkisráðherra hefur talað um tvennt, að við séum að brjóta EES-reglugerðir með samningnum sem gerður var í febrúarbyrjun 2012 og að Samkeppniseftirlitið hafi samþykkt þetta. Hvorugt stenst. (Forseti hringir.) Að vísu hefur Samkeppniseftirlitið gagnrýnt þetta (Forseti hringir.) en hefur ekki lagaheimild til að gera slíkt. Þessi samningur, sem var rift einhliða af innanríkisráðuneytinu, (Forseti hringir.) stenst EES-reglur.