143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

störf þingsins.

[10:44]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mig langaði að byrja á að vekja athygli á því að í gær, á baráttudegi verkalýðsins, fór ekki fram hjá mér að allt of margir voru að vinna. Það kom mér á óvart að það var alls staðar opið, fór og keypti mér kaffi og var beðin um það af starfsfólkinu á tiltekna kaffihúsinu að koma því áleiðis hingað að það væri eitthvað bogið við það að á þessum mikla degi væru margir sem fengju ekki að heyja baráttu fyrir bættum kjörum verkalýðs. Það er alveg vert að minna á það.

Síðan langaði mig líka aðeins að fara inn á það að við erum bráðum að fara í allt of langt frí. Ég segi of langt frí af því að þingheimur getur ekki veitt ríkisstjórninni eða framkvæmdarvaldinu neitt aðhald í hartnær fjóra mánuði. Mér finnst það óþægilegt. Við getum ekki lagt fram fyrirspurnir, ef eitthvað fer úrskeiðis höfum við engin lýðræðisleg verkfæri til að veita framkvæmdarvaldinu nokkurt aðhald. Fyrrverandi forsætisráðherra nokkur hafði það sem stefnu sína að hafa þingið sem lengst í fríi til að ríkisstjórnin gæti gert það sem hún vildi. Mér finnst það umhugsunarvert og þar af leiðandi mundi það ekki klaga neitt upp á mig ef við þyrftum að hafa sumarþing. Ég vil bara segja það.

Síðan minni ég núverandi forsætisráðherra og þingmenn stjórnarinnar á að það er alls ekki út af fyrrverandi ríkisstjórn sem hér varð allsherjarhrun heldur út af þeirri stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn (Forseti hringir.) settu hér á landi á allt of löngu sameiginlegu ferli við ríkisstjórn.