143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir með þingmanninum Ásmundi Friðrikssyni sem talaði hér á undan. Það er margt jákvætt að gerast og það er það sem er nauðsynlegt að heyrist, að það sé ekki endalaust svartnætti sem heyrist úr þessum ræðustól, af því að við þurfum að tala kjark í þjóðina og segja að það sé margt jákvætt. Það hjálpar okkur að komast úr þeim fjárhagsvanda sem þjóðarbúið er í og koma öllum þessum jákvæðu verkefnum af stað. Störfum fjölgaði til dæmis hér um 4 þúsund í fyrra. Hagvöxturinn hefur aukist, er 3% í dag. Verðbólgan er 2%. Kaupmáttur launa hefur hækkað um 2,5% á síðustu tólf mánuðum. 90% launþega haf fengið á sig minni skattbyrðar með lækkun tekjuskatts o.fl. Það er því margt að gerast.

Það sem mig langaði líka að ræða hér er hvað mér finnst vera góður bragur á mörgum málum sem eru unnin í sameiningu í nefndunum og í þinginu. Margir þingmenn hafa sameinast um þingmál sem hafa verið samþykkt. En því miður hafa þessi mál ekki fengið jafn hraðan og góðan framgang út úr þinginu og þau hafa fengið innan þingsins út af því að það er verið að tefja mörg mál strax í 1. umr. og þeim ekki hleypt til þingnefnda í þessa góðu meðferð.

Í dag er dagskrá þingsins mjög jákvæð. Þar eru mörg góð mál sem margir hópar úti í þjóðfélaginu hafa beðið eftir að þingið komi með svo að þeir geti farið að starfa eftir þeim. Má þar helst nefna frumvarpið um framkvæmdarvaldið og lögregluna, sem er búið að vinna í mikilli sátt og góðri vinnu í allsherjar- og menntamálanefnd, og er á dagskrá í dag, sem er mjög jákvætt, og hefði verið frábært ef það hefði komist inn fyrr þannig að það hefði verið hægt að fara eftir þeim góðu lögum sem allt þingið hefur sameinast um.