143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

störf þingsins.

[10:58]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langaði að tæpa á þremur málum. Í fyrsta lagi langar mig til þess að vekja athygli á því að úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða er úthlutað til uppbyggingar við Goðafoss í Þingeyjarsveit 15 millj. kr., til deiliskipulags í Djúpavogshreppi við Teigarhorn 11,6 millj. kr. og síðan til Umhverfisstofnunar vegna uppbyggingar salernisaðstöðu við Kverkfjöll í Mývatnssveit. Ég vil lýsa ánægju minni með þessar úthlutanir.

Í öðru lagi langaði mig til þess að vekja athygli á því sem fram hefur komið í fréttum á undanförnum dögum, að allar líkur séu á því að framkvæmdir við atvinnuuppbyggingu við kísilmálmverksmiðju við Bakka geti hafist í haust. Það er svo sannarlega þörf fyrir það, ekki síst þegar við stöndum frammi fyrir því, eins og ég hef vakið athygli á áður, að hugsanlega flytji 50 manns frá Húsavík vegna flutnings fiskvinnslu Vísis.

Í þriðja lagi langar mig að koma inn á ákveðið mál sem ég hef áhyggjur af. Nú er það svo að á gangstéttum og götum um allt land, og ég efast ekki um að það er víðar í heiminum, eru tyggjóklessur. Menn spýta gjarnan út úr sér tyggjói. Þetta er sóðaskapur, en það sem ég hef mestar áhyggjur af og vil að menn hugsi um er að fuglarnir okkar plokka gjarnan í þetta, gleypa þetta og það festist í innyflum þeirra og veldur hægum og kvalafullum dauðdaga. Mig langar til þess að menn velti því aðeins fyrir sér.