143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

skipasmíðar og skipaiðnaður.

[11:08]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir að taka þetta mikilvæga mál hér upp á Alþingi. Hv. þingmaður fór vel yfir stöðu mála í greininni og einnig þá möguleika sem ég er sammála þingmanninum að séu í þessari atvinnugrein. Ég tel að við þessa umræðu sé rétt að við horfum til þeirra tækifæra sem eru til staðar hvað varðar endurnýjun íslenskra fiskiskipa svo og vegna almennra nýfjárfestinga í sjávarútvegi.

Eins og þingmaðurinn kom inn á og ég þarf ekki að endurtaka hér liggur fyrir að meðalaldur fiskiskipaflota okkar er mjög hár en hann segir þó ekki alla söguna vegna þess að að jafnaði hefur skipum hér á landi verið haldið vel við og þau eru í ágætishorfi.

Hár meðalaldur er hins vegar besta vísbendingin um fjárfestingarþörfina. Þrátt fyrir almennt mjög góða afkomu í sjávarútveginum á undanförnum árum hefur lítil endurnýjun orðið í flotanum og mun minni en æskilegt væri. Bent hefur verið á, og ég tel að það sé rétt, að ástæðu þess að útgerðir fiskiskipa hafa haldið að sér höndum megi meðal annars rekja til þeirrar miklu óvissu sem hefur verið í rekstrarumhverfi þessarar mikilvægu greinar frá árinu 2008.

Miðað við að árin 2001–2008 var fjárfesting í greininni um 30% af EBITDA er ljóst að töluverð uppsöfnuð þörf er í greininni fyrir nýfjárfestingu og mörg eldri skip eru orðin óhagkvæmari og nauðsynlegt er að huga að endurnýjun þeirra. Vísbendingar eru því um að á næstu árum verði aukning í fjárfestingu innan greinarinnar. Ætla má að á núverandi verðlagi sé þessi fjárfestingarþörf í sjávarútvegi um 20 milljarðar kr. fyrir fiskveiðar og fiskvinnslu.

Það er rétt sem fram kom hjá hv. þingmanni, skipasmíðaiðnaðurinn er fjölbreytt grein. Í hefðbundnum skilningi er smíði stálskipa grunnstykkið, en stálskip hafa ekki verið smíðuð hér á landi í nokkur ár. Tréskipasmíði er að mestu hætt en Slippurinn á Akureyri hefur verið leiðandi í viðhaldi tréskipa. Bátar og skip sem smíðaðir eru úr plasttrefjum hafa notið mikilla vinsælda vegna lipurðar og hraða og selst víða um heim til margvíslegra nota. Hér á landi er til dæmis hafin raðsmíði á trefjabátum fyrir olíuiðnaðinn í Noregi.

Skipasmíðaiðnaður í dag er langt frá því að vera bara slippur. Þessi veigamikli geiri er stærri og þýðingarmeiri en flestir átta sig á, nærri 70 fyrirtæki framleiða og flytja úr landi undir eigin vörumerkjum búnað fyrir greinar sem tengjast hafinu. Þessi fyrirtæki eru staðsett víða um land og áætlað hefur verið að velta þessara tæknifyrirtækja sé nærri 27 milljarðar kr. og að útflutningur skapi um 60% af tekjum þess. Tæknifyrirtæki framleiða veiðarfæri, sinna hönnun og framleiðslu fiskvinnsluvéla, fjarskiptabúnaðar, skynjaratækni, umbúða, upplýsingatækni og kælingu, svo eitthvað sé nefnt. Starfsmenn í þessum fyrirtækjum eru um 1 þúsund og er bróðurpartur þeirra tæknimenntaður. Sú öfluga stoð sem tæknigeirinn er orðinn hefur leitt til þess að hann getur glímt við stöðugt veigameiri verkefni sem styrkja munu stöðu skipasmíðaiðnaðarins enn frekar.

Á þessum vettvangi er rétt að minnast á hinn íslenska sjávarklasa sem stofnaður var fyrir þremur árum. Íslenski sjávarklasinn er samstarfsvettvangur fjölda fyrirtækja í haftengdri starfsemi á Íslandi sem hefur einmitt það að markmiði að auka virði þeirra fyrirtækja sem starfa í klasanum. Hlutverk sjávarklasans er að tengja saman fólk og fyrirtæki og drífa áfram nýjar hugmyndir og verkefni. Má nefna að á vegum klasans hafa tíu tæknifyrirtæki tekið saman höndum um þróun á íslenskri leið í hönnun ísfisksskipa út frá áratugareynslu og þekkingu. Hér er stigið mikilvægt skref sem vafalítið getur valdið straumhvörfum og leitt til nýrrar og öflugrar sóknar fyrir íslenskan tækniiðnað.

Ég heimsótti nýlega fyrirtækið Trefjar í Hafnarfirði sem er gríðarlega öflugt fyrirtæki með sterka verkefnastöðu og mörg nýsmíðaverkefni í gangi, t.d. fyrrnefnd olíuleitarskip fyrir Noregsmarkað.

Ég hef líka heimsótt, gerði það á síðasta ári, Skipasmíðastöð Þorgeirs og Ellerts á Akranesi sem og fyrirtæki þar sem heitir Skaginn og er næststærsta fyrirtækið í vinnslulínum á eftir Marel. Það er afar ánægjulegt að sjá að innan þessara fyrirtækja er unnið að nýju og mjög spennandi verkefnum.

Ýmislegt væri hægt að ræða undir þessu heiti, skipasmíðar, og t.d. hvað varðar íslenska kaupskipaskrá. Við erum í samkeppni við önnur lönd, Noregur er til dæmis til fyrirmyndar hvað þessa hluti varðar og er með útflutningslán sem er ríkisaðstoð til skipasmíða. Þannig hafa Norðmenn náð að „stela“ af okkur verkefnum og gera þau hagstæðari þrátt fyrir að tæknibúnaður okkar (Forseti hringir.) sé á þessu sviði fullkomlega samkeppnishæfur. (Forseti hringir.) Það er því ýmislegt sem gera mætti til þess að nýta þau tækifæri í þessum iðnaði, ég mun að klára að ræða það í næstu ræðu minni.