143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

skipasmíðar og skipaiðnaður.

[11:13]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að ræða á hverjum tíma sjávarútveginn og hvernig uppbyggingin í kringum bæði þjónustu og endurnýjun í greininni. Það kom ágætlega fram hjá málshefjanda og hæstv. ráðherra að við eigum öflug þekkingarfyrirtæki sem vinna í þessari grein, bæði varðandi alls kyns vinnslulínur og tæknibúnað. Það er gríðarlega mikilvægt að fylgja því eftir, að við getum nýtt það af innanlandsmarkaðnum sem mögulegt er til að þjónusta okkar eigin fyrirtæki og líka að nýta okkar áratugareynslu og þekkingu til að flytja út vörur á þessu sviði sem og hefur verið gert. Þar af leiðandi hafa fyrirtækin staðið hér mjög sterkt en á hverjum tíma eru einhverjar takmarkanir á því hvað við ráðum við, sérstaklega varðandi skipasmíðarnar. Það kemur ágætlega fram hjá málshefjanda að menn verða að skoða alla breiddina frá smábátum og upp í stærri skip. Íslenskar skipasmíðastöðvar hafa ráðið við býsna stór skip.

Það sem skiptir mestu máli er starfsumhverfið. Þar getum við skoðað bæði skattumhverfið og samkeppnishæfnina og allt slíkt en við þurfum líka að skoða íslenska gjaldmiðilinn. Við tiplum alltaf á tánum í kringum hann, það er alveg sama hvern maður talar við í þessum iðngeira, menn kvarta yfir því að geta ekki gert langtímaáætlanir, geta ekki skipulagt sig til lengri tíma, vita ekki hvert gengið verður. Þeir gera jafnvel stóra samninga upp á mörg hundruð milljónir, jafnvel milljarða, og breytingar á gengi geta verið gríðarlega erfiðar hvað varðar að standa við slíka samninga.

Ég held að við þurfum að þora að ræða þetta á sama tíma og við ræðum ívilnanir og þá fyrirgreiðslu sem við bjóðum okkar íslensku fyrirtækjum. Þegar ég var að ræða þetta við aðila meðal annars á Akranesi, hjá fyrirtækinu sem nefnt var hér áðan, tala menn einmitt um að það vanti oft heildstæða nálgun á það hvað við gerum fyrir greinina í heild.

Ég vona að ég fái tækifæri til að ræða þetta betur hér á eftir en ég skora á (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra að vinna heildstætt að því að skoða hvernig við nýtum okkar innlendu þekkingu og okkar innlenda markað til að vera í útrás, líka í sjávarútvegi, bæði hvað varðar skipasmíði og tæknibúnað í sjávarútvegi.