143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

skipasmíðar og skipaiðnaður.

[11:16]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Vöxtur tæknifyrirtækja í íslensku sjávarplássunum hefur verið umtalsverður á síðustu árum, eða um 10–13% á ári. Athygli vekur að mikill vöxtur er í útflutningi á ýmsum tækjum og búnaði fyrir skip og vísbendingar eru um að tæknifyrirtæki á þessu sviði séu að eflast mjög hér á landi. Um að ræða búnað sem meðal annars bætir orkunýtingu skipa, fiskvinnslutækni, ýmsar hugbúnaðarlausnir o.fl.

Fyrirtækin hafa mörg hver stækkað og styrkt stöðu sína á alþjóðamarkaði. Auk þess hefur íslensk bátasmíði færst í vöxt og fyrirtæki á borð við Trefjar og Seiglu selja íslenska báta undir 15 metrum að lengd á alþjóðamarkaði. Það sem einkennir mörg þessara tæknifyrirtækja er að þau hafa aukið markaðssókn erlendis og starfsmönnum hefur fjölgað nokkuð. Þrátt fyrir orð hæstv. ráðherra áðan um að óvissa hafi verið á síðasta kjörtímabili sem hafi kannski komið í veg fyrir uppbyggingu þessa geira er athyglisvert að skoða veltu fyrirtækjanna. Bæði árin 2010 og 2011 var umtalsverður vöxtur. Útflutningur á tækjum og búnaði í skip var um 1,8 milljarðar árið 2010 og svo virðist sem árið 2013 ætli að verða metár hjá þessum fyrirtækjum og ræður þar mestu útflutningur, vinnslutækni og endurnýjun búnaðar fyrir erlend skip hjá slippnum á Akureyri. Ákvarðanir íslenskra útgerðarfyrirtækja um val á tæknifyrirtækjum til að sinna þessum endurbótum ráða að sjálfsögðu miklu um þróun hérlendis og takist samvinna milli íslenskra tæknifyrirtækja og útgerðar í þeim efnum kunna íslenskar skipasmíðar að eflast til muna á komandi árum. Ég held að mjög mikilvægt sé fyrir íslenskt þjóðarbú að svo geti orðið.